Hýenufréttamennska

Lögregla rannsakar nú þann hörmulega atburð er átti sér stað um helgina, hvar maður var sviptur lífi sínu.

Án þess ég sé einhver sérfræðingur í framgangi slíkra rannsókna, þykir mér eðlilegt að litið sé til þeirra sem með einhverjum hætti tengjast fórnarlambinu. Oftar en ekki eru gerendur í slíkum málum tengdir fórnarlömbum sínum með einhverjum hætti.

Í gær tók lögreglan ungan mann til yfirheyrslu. Milli hans og hins látna voru tengsl sem lögreglunni hefur þótt ástæða til að skoða nánar. Ástæða þótti til að hafa hann í haldi þar til yfirheyrslum lauk. Það er ekki það sama og að hann hafi haft réttarstöðu grunaðs. Ég hef reyndar ekkert heyrt um að svo hafi verið og legg því út af því að hann hafi haft réttarstöðu vitnis þar til annað kemur í ljós. Maðurinn var ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hvað sem síðar kann að verða skal viðkomandi teljast saklaus í þessum skrifuðu orðum.


Þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir annað en að lögreglan hafi aðeins verið að skoða lausa enda í málinu, sáu a.m.k. þrír fjölmiðlar, DV, Pressan og Eyjan ástæðu til að nafngreina þann sem yfirheyrður var, ásamt myndum og fleiri atriðum. S.s. hvað hann setti í facebook-status og ábendingar um myndbrot sem hann setti inn á Youtube í fyrra.

Hverskonar fréttamat liggur að baki slíku er mér algerlega óskiljanlegt. Maðurinn var einungis í yfirheyrslum. Ekkert gæsluvarðhald. Hvað þá ákæra. Hver er fréttin við að einhver sé yfirheyrður þegar slík rannsókn er í gangi? Ég las ekki alla fjölmiðla heimsins, en í það minnsta sáu Mbl og RÚV sóma sinn í að birta hvorki nafn né mynd.

Seinni partinn í dag, eftir að yfirheyrslum lauk og viðkomandi hafði verið látinn laus, renndi ég yfir nokkra facebook-veggi hvar umræður um málið voru í fullum gangi. Á einum veggnum, hvar veggeigandi og blaðamaður DV hafði birt mynd af hinum yfirheyrða, svarar Reynir Traustason gagnrýni á nafn- og myndbirtingarnar með þessum orðum;

Fyrst:
„Áhugaverð umræða. Sorpkjaftar stíga á stokk og krefjast þagnar. Þetta er eins og hjá Biskupsstofu.“

Síðan:
„Það er nákvæmlega ekkert sagt í fréttinni annað en þessi tilgreindi maður er í gæsluvarðhaldi. Hann er grunaður. Fréttin er sú en ekkert fram yfir það. Þeir sem gagnrýna þá fréttamennsku vilja væntanlega háklfkveðnar vísur á borð við að æskufélagi unnustunnar sé í haldi. Kannski má heldur ekki fjalla um mál af þessari stærðargráðu. Við eigum að þegja um það sem óþægilegt er.“

Að lokum:
„Umræðan um nafnbirtingar hefur staðið í áraraðir. Hreinlegast er að nafngreina menn undir langflestum kringumstæðum í stað þess að benda á hóp manna með því að þrengja hringinn. Ef ekki er hægt að nafngreina af einhverjum ástæðum verða menn að láta sér nægja að segja aldur og kyn einstaklingsins sem í hlut á. Ef hinir ásökuðu reynast vera saklausir eftir að hafa verið hnepptir í varðhald er algjörlega nauðsynlegt að láta slíkt koma fram með skýrum og áberandi hætti. Við höfum óteljandi dæmi um hræsnisfulla fjölmiðla sem hafa bent á þröngan hóp manna og boðið almenningi að velja meintan sökudólg.“


Reynir vill sem sagt skjóta fyrst og spyrja síðan. Með orðunum „Hreinlegast er að nafngreina menn undir langflestum kringumstæðum í stað þess að benda á hóp manna með því að þrengja hringinn“ geri ég ráð fyrir að hann eigi við að betra sé að nafngreina en að segja aðeins frá tengslum viðkomandi við hinn látna. Málið er hins vegar að engin ástæða var til að segja svo mikið sem frá tengslum viðkomandi við hinn látna, þar eð einungis var um að ræða yfirheyrslu. Yfirheyrslurnar í málinu eru/verða örugglega miklu fleiri. Það er engin frétt að maður sem tengist hinum látna sé yfirheyrður. Það er „common practice.“ Þarna náði Reynir ágætis skitu. Reynir 1, mjóbak 0.


Ég renndi yfir annan facebook-vegg, hvar veggeigandi skrifaði; „finnst DV á næfurþunnum ís, jafnvel í krapinu, að birta nafn og mynd af grunuðum manni í morðmáli, áður (og ekki öruggt að verði) en játning liggur fyrir. Ekki fréttamennska sem er mér að skapi.“.

Þar svaraði Jónas Kristjánsson;

Fyrst:
„Í stað þrengingar eiga að koma nöfn og myndir. Það er ekki dómur, bara frétt. Nöfn og myndir hindra, að óviðkomandi fólk sé í kjaftasögum. Yfirleitt hindra fréttir kjaftasögur. Nafnbirting mannsins var rétt og siðleg afgreiðsla.“

Síðan:
„Frá tíma Ísafjarðarperrans hafa skoðanir mínar harðnað. Ég tel, að sakamál eigi að vera opinber eins og fjármál. Hrunið leiddi mig að þeirri niðurstöðu, að leyndó sé forsenda ógæfu Íslendinga. Áherzla þjóðarinnar á leyndó gegnum tíðina er að mínu viti sjúkleg.“

Þar næst:
„Fréttir eru ekki ígildi neins, til dæmis ekki sektar. Fréttir eru bara fréttir, tilraun til endurspeglunar sannleikans.“

Að lokum:
„Satt að segja veit ég ekki um fréttalegar forsendur málsins. Almennt finnst mér bara, að eftir hrun ættu menn að vera farnir að átta sig á, að satt má ekki kyrrt liggja.“

Þarna slær Jónas Reyni algerlega út. Jónas 3, herðablöð 0. Þarna talar hann um „Ísafjarðaperrann“ sem reyndist síðan ekki vera meiri perri en Jónas sjálfur. Saklaus. Þar kvittar Jónas undir blæti sitt á nornaveiðum. Eða eins og Reynir; Skjótum fyrst. Skítt með saklausan mann fyrir vestan. Ráðumst á þann næsta. Ekki bara að hann leggi að jöfnu umræðu um fjármál og mannorð fólks, eins ómerkilegt og það nú er, heldur klykkir hann út með þeirri steypu að segja; „Nöfn og myndir hindra, að óviðkomandi fólk sé í kjaftasögum. Yfirleitt hindra fréttir kjaftasögur.“ Ég get alveg sagt honum Jónasi að það þarf hvorki nöfn né myndir í fjölmiðlum til að óviðkomandi fólk verði fyrir kjaftasögum. Ég þekki það á frá fyrstu hendi. Þarna gerir Jónas snilldarlega það sem hann gerir best og ég kalla (háttprúðir sleppi restinni og færi sig að næstu greinarskilum) að tala með rassgatinu.


Þarna tala tveir menn sem lifa og hrærast í fjölmiðlum og lesa sjálfsagt upp allar fréttir sem birtast, enda báðir blaðamenn. Villa þeirra er hins vegar sú að halda alla aðra vera eins og þeir sjálfa. Fjöldi fólks sýnir fréttum lítinn áhuga. Áhugaleysið eyks eftir því sem fólk er yngra. Stór hluti þjóðarinnar gefur lítið fyrir þjóðfélagsumræðuna, sér í lagi yngra fólk, en þegar stórar fréttir dúkka upp, svona eins og flennisttórar myndir af meintum morðingjum, fær það veður af því. Frétt eins og sú að hinn myndbirti hafi verið látinn laus er ekki eins krassandi og fer ekki eins hátt. Því fullyrði ég það að í þessum skrifuðu orðum eru margir sem standa í þeirri trú að hinn myndbirti sé sekur.

Hinn myndbirti er rétt liðlega tvítugur. Það getur ekki kallast hár aldur og varla eru vinir hans, félagar og aðrir jafnaldrar hans jafn tjóðraðir við fréttajötuna og Jónas. Því er líklegra að stærri hópur hans (hins yfirheyrða) jafnaldra standi enn í þeirri trú að hann sé sekur þótt Jónas telji annað. Enda fólk á Jónasar reki, sem löngu er komið af léttasta skeiði, gjarnan duglegra að japla úr fréttajötunni. Kannski einhverjir hafi gleymt hvernig er að vera ungmenni og að lifa í samfélagi ungmenna. Líklega eykst sú gleymska með aldrinum. Ég man það þó þokkalega og unglingarnir, börnin mín, hjálpa mér að viðhalda þeirri minningu.


Já, ég sagðist þekkja mátt kjaftasagnanna frá fyrstu hendi.

Þegar ég var 15 ára tók ógæfusamur jafnaldri minn líf annars jafnaldra okkar. Aldrei lék vafi á hver gerandinn var, enda var hann handsamaður á vettvangi. Þrátt fyrir það þurfti ég að þola margra vikna athugasemdir vegna þess eins að ég líktist gerandanum að einhverju leiti í útliti. Þannig er ungmennasamfélagið sem ritstjórinn góði þekkir ekki eða er búinn að gleyma. Það var þó hvergi birt mynd af mér né nafn. Líklega hefði einhver hýenan viljað gera það. Ekki veit ég hvort blóðbragð fannst á ritstjórnarskrifstofu DV í þá tíð, hvers umræddur matgæðingur stýrði. Kjaftasagan lifði góðu lífi lengi eftir að öllum átti að vera ljósar staðreyndir málsins. Gerandinn var ólögráða og þ.a.l. voru hvergi birta myndir né nöfn. Ég þakka því fyrir að hafa sloppið við ótímabærar og innihaldslausar aftökur matgæðingsins. Kjaftasagan er nefnilega þannig að hún öðlast líf í þriðju kynslóð. Ég hefði haldið að lífshoknir menn eins og ritstjórarnir vissu það. 

Fyrsta kynslóð, A við B: Var það þessi sem gerði þetta?
Önnur Kynslóð: B við C: Ég heyrði að þessi hefði gert þetta.
Þriðja kynslóð. C við D: Það var þessi sem gerði þetta.

Þar með hefur kjaftasagan öðlast eigið líf og gapuxar eins og Jónas og Reynir geta ekkert gert nema kannski að slá sér á brjóst fyrir að hafa skapað hana.

Þeir félagar hafa örugglega eitthvað til síns ágætis, s.s. hattaburð og matarát. Kannski málið að menn haldi sig við það sem þeir kunna best.


Um gapuxa þjóðarinnar hef ég eitt að segja: When you talk like an idiot, and you act like an idiot, you become one.

 


mbl.is Maðurinn látinn laus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband