Enn um verðtryggingu

Ég þreytist seint á að bölsótast út í verðtrygginguna. Enda lít ég á hana sem eignaupptöku í boði ríkisins.

Rökin fyrir henni eru að raunvirði peninga skuli halda sér.
Hvert er hins vegar raunvirði peninga og hvernig ber að reikna það?

Í hinum siðmenntaða heimi ákvarðar gengi gjaldmiðla verðgildi þeirra. Einn gjaldmiðill getur hækkað eða lækkað gagnvart öðrum og hefur það þar af leiðandi áhrif á verð varnings sem keyptur er frá einu gjaldmiðilssvæði til annars.

Þannig að ef Evran lækkar meðan Dollarinn hækkar ættu vörur keyptar frá Evrusvæðinu að lækka í verði meðan bandarískar vörur hækka, og öfugt.


Verðtryggingin byggir á vísitölu neysluverðs, reiknaðri af Hagstofu Íslands. Hún er reiknuð út frá mörgum vöruflokkum, sem væntanlega eru keyptir hvaðanæva að.


Búum til einfalt dæmi þannig að vísitala neysluverðs byggi einungis á verði á Chanel ilmvötnum, sem eru frönsk.

Falli Evran gagnvart Krónunni lækkar vísitalan, þar eð inkaupsverð ilmatnanna lækkar, en hækkar að sama skapi hækki Evran. Verðið á Chanel ilmvötnunum í Krónum talið mun breytast eftir því.

En jafnframt, þótt gengi Evrunnar og Krónunnar breytist ekki, en Chanel ákveði að hækka verðið á sínum ilmvötnum hækkar vísitalan samt. Þrátt fyrir að gengi Krónunnar gagnvart Evru hafi ekki breyst. Því vísitalan miðar einungis við verð vörunnar, án tillits til gengis.

Þannig að jafnvel þótt gengi Krónunnar væri stöðugt, eða styrkist, þá hækkar vísitalan svo lengi sem innkaupsverðið hækkar.

Hvaða heilvita manni datt þetta í hug?

Samt fékk einhver þá hugmynd að skilgreina verðgildi krónunnar þannig að miðað yrði við verð innfluttra vara.

Vísitalan er þó samsett úr fleiri vöruflokkum. Súkkulaði, tannkremi, smokkum og tóbaki, ásamt ýmsu fleiru. Hver maður verður að sætta sig við hana, þótt hann kaupi aldrei neitt af því sem notað er til viðmiðunar.

Þar af leiðir að ef arabarnir í Asíu ákveða að hækka olíuna, eða þegar Chanel hækkar verð á sínum ilmvötnum fellur krónan í verði. Eins ef einhverjir miðlarar á Wallstreet fá kvíðakast sem leiðir til breytts verðs á hinum og þessum vörum, breytist skilgreint verðgildi krónunnar þótt gengi hennar breytist ekki.

Þetta er absúrd.


Láni ég vini mínum bokku, geri ég þá kröfu að fá borgað í sama. Mér er slétt sama hvort bokkan hafi hækkað eða lækkað í verði, í Krónum. Ég get hinsvegar ákvarðað vexti. Skilgreinda fyrirfram.

Láni ég þessum sama vini Krónur, geri ég þá kröfu að fá borgað í sama. Mér er slétt sama hvort Krónurnar hafi hækkað eða lækkað í verði, Í bokkum. Að sama skapi get ég tilgreint vexti.

 

Málið er að verðgildi hluta hvort heldur það eru peningar eða annað er óskilgreint. Verðgildið verður aðeins til þegar skipta á einum hlut í annan. Það kallast gengi. Krónan hefur ekkert verðgildi í sjálfu sér. Það er ekki fyrr en maður vill skipta henni yfir í eitthvað annað sem verðgildið verður til.


Nú er Krónan verðtryggð. Í það minnsta þegar kemur að fjárhagslegum skuldbindingum. Hvað varðar laun er hún óverðtryggð.

Helstu rök þeirra sem styðja verðtrygginguna eru þau að hún komi í veg fyrir rýrnun lífeyris fólks.
Ok. Fyrir 30 árum plús, var verðbólgubál sem át upp sparnað fólks, sem og gerði lán að litlu sem engu. Þar er um að kenna íslenskri hagstjórn, sem sjaldan hefur verið upp á marga froska. Þá var verðtryggingunni komið á til að plástra skítinn.

En OK. Segum sem svo að verðtryggingin sé nauðsynleg. Hví gildir hún þá bara sumsstaðar?

Kaupi ég mér hlutabréf sem hafa verðgildi í Krónum eru þau óverðtryggð.
Sem dæmi. Ég tek bankalán upp á milljón til að kaupa hlutabréf upp á milljón, síðan fellur Krónan 50% í verði. Þá sit ég uppi með bréf sem hafa helmingi lægra raunvirði en þegar ég keypti þau. Á sama tíma tvöfaldast lánið sem ég tók fyrir þeim. Ég skulda 2 milljónir vegna kaupanna.

Þetta er sama dæmi og húsnæðisaupendur hafa upplifað.

Verðtryggingin hækkar ekki, eða lækkar, verð hlutabréfanna, né heldur verð fasteignanna. Hún ver aðeins þá sem lánuðu Krónurnar. Fjármagnseigendur. Á alþýðumáli kallast það að hafa belti og axlabönd.


Eins og ég gat að framan eru helstu rök þeirra sem aðhyllast verðtryggingu þau að hún verji sparnað almennings.

Nú er það þannig að lífeysissjóðir ávaxta sig með allskyns skulda- og  hlutabréfakaupum. Sé tap á rekstri sjóðsins fá sjóðsmeðlimir kurteislega tilkynningu um að lífeyrir þeirra skerðist að sama skapi.

Hins vegar sé hagnaður á rekstri sjóðsins fá sjóðsmeðlimir ekki tilkynningu um aukinn lífeyri. Nei, gróðanum er spanderað í laun háttsettra og kannski betri vínarbrauð á stjórnarfundum. Sjóðsmeðlimir fá ágóðann ekki í sinn vasa.

Hví þarf verðtryggingu til að verja lífeyrissjóði sem hafa skotsilfur til að fjárfesta í milljarðadæmum?


Verðtrygging er slæmur plástur á vonda hagstjórn. Þeir sem vilja viðhalda henni hljóta, eðli málsins samkvæmt, að aðhyllast vonda hagstjórn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

back in business :)

já bölvuð verðtryggingin og allt er á leið til helvítis en Chanelið er uppáhaldið mitt :)

Jóka (IP-tala skráð) 25.9.2010 kl. 20:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband