Vinstri - skattasnilld

Nú hefur Joð boðað auknar álögur á tóbak og áfengi. Allt í lagi svo sem, svona í prinsippinu. Þetta eru jú „óþarfur lúxus.“

Þó hef ég ýmsar efasemdir um gjörninginn. Á hálfu ári hafa álögur á tóbak, áfengi og eldsneyti verið hækkaðar í tvígang. Í þeim tilgangi að afla meiri tekna.

Þótt ég sé í það heila ósammála boðskapi Hannesar Hólmsteins, erum við þó sammála um eitt. Laffer kúrfuna. Hækkaðir skattar hafa áhrif á neyslu, til minnkunar. Mismikil reyndar. Á einhverjum punkti, munu of háir skattar draga úr neyslunni á þann hátt að minnkuð neyslan muni skapa minni tekjur en sem nemur skattahækkuninni. Ég get auðveldlega séð Laffer kúrfuna samsvara öðrum lögmálum, t.d. í raffræði. Örugglega má finna helling af samsvörunum víðar. Bestun, þar sem ákveðinn punktur er í hámarki. Sé farið niður- eða ofan fyrir hann lækkar útkoman.

Það virðist nefnilega vera svolítið þannig með harða vinstri menn að þeir virðast halda að neyslan breytist ekkert við breytingar á sköttum, til eða frá. Svolítið einfeldningslegur hugsunarháttur að mínu mati. Jaðrar við að vera barnslegur. Þegar aðeins er horft á eitt tiltekið atriði án þess að hugsa um jaðaráhrifin og heildarmyndina. Ég vil taka fram að ég tel mig þó meiri vinstri mann en hægri mann. Alla vega jafnaðarmann. Tel þó alla öfga slæma.

Ekki skal ég segja til um hver áhrif 30% - 40% auka skatts á tóbak og áfengi hafa á neysluna. Það verður að koma í ljós, þar sem við erum ekki að tala um 30% - 40% hækkun á þeim vörum, heldur einungis á þeim ríkisskattshluta sem myndar verðið.

 

Nú er ástandið í þjóðfélaginu ekki upp á marga froska og fyrir marga er það eini lúxusinn sem þeir geta leyft sér, að fá sér í aðra tánna af og til, þótt ekki sé nema einn kaldur með kreppugrillkjötinu og/eða að reykja. Það eru engar mílubiðraðir fyrir utan raftækja- eða leikfangabúðir. Fólk er ekki að kaupa sér nýja bíla. Utanlandsferðabransinn hefur hrunið. Fólk er, upp til hópa, ekki með fillet eða humar í matinn. Það er ekkert Innlit-Útlit dæmi í gangi þessa dagana og enginn verslar í Saltfélaginu lengur, enda það orðið að smáhorni í Pennanum. Fólk er ekki að kaupa sér harða og óþægilega mörghundruðþúsundakróna sófa lengur, bara af því þeir eiga að heita svaka fín hönnun. Margir eru ekki að kaupa neitt nema kjötfars, bjúgu og smá bjór „on the side.“ Í mesta lagi ódýr sullrauðvín með ódýru ostunum og vínberjum úr Bónusi, til hátíðabrigða.

Þó er enn til fólk sem getur leyft sér lúxusinn. Hví ekki að skattleggja hann og þar með þá sem hafa nóg?

Hví er ráðist á einu neysluvörurnar sem almúginn hefur efni á? Næst verða líklega hækkuð gjöld á kjötfarsi og bjúgum, í stað raunverulegra lúxusvara. Það er ekki verið að skattleggja lúxusinn. Hví er ekki lögum breytt á þann hátt að ekki verði bara horft á alkóhólmagn þegar áfengi er skattlagt? Fínu og dýru vínin eru ekkert endilega sterkari en „crummy“ sullið. Bara miklu bragðbetri og þar með dýrari. Varan sem þeir kaupa sem efni hafa á. Þá er ég að tala um túgþúsundavínin. Væri ekki nær að komast úr hugsunagangi fjórða áratugs tuttugustu aldar, þegar skilgeiningin um skattlagningu á áfengi var ákveðin? Það drekka nefnilega ekki allir bara til að komast í mók. Þó virðist ríkið halda það og því skattleggja eftir prósentunum. Löggjöfin sem við búum við í dag er samin í anda bannáranna og þeirrar hugsunar að sem fæstir skyldu drekka og sem minnst og helst ekkert. Hafi einhverntíman verið tími til að opna augun og horfast í augu við breytt þjóðfélag er það nú, á þrengingartímum. Það segir kannski meira en margt annað um þankagang þeirra sem stjórna að þetta sé enn eins og um 1930. Væri ekki nær að afleggja þetta alkóhóltengda gjald og búa heldur til nýtt stig virðisaukaskatts, sem væri hærra en 24,5%? Þannig bæru dýrari vínin hærri skatt, í krónum.

 

Skyldi það vera skilyrði í stjórnarskrá að stjórnmálamenn skuli ekki hugsa út fyrir kassann? Tja, eða að hugsa nokkuð yfir leitt? Maður spyr sig.

 

Það er gott að vita af vini almúgans, Joðhönnu, sem ætla að byggja upp fjármála- og bankakerfið á kostnað samfélagsins. Á kostnað fólksins. Það verður vitanlega blómlegra fjármála- og bankakerfið hér með fleira fólk á vanskilaskrá og fleiri gjaldþrota heimilum. Það sér það hver maður.

Svo er auðvitað bjútíið við þetta að vísitalan hækkar og hækkar þar með skuldir okkar allra, sem auka enn á útgjöldin og minnkar þar með kaupmáttinn, ásamt með lækkandi launum fólks og atvinnuleysi. Kaupmáttur minnkar báðum megin frá. Í lægri launum sem og í auknum útgjöldum. Hvern dreymir ekki blauta drauma yfir þeirri dásemd?

Er hún ekki yndisleg þessi verðtrygging, sem ekki má hreyfa við því það gæti styggt sérhagsmunasamtökin sem kallast lífeirissjóðir? Verðtrygginguna sem er eins og hundur sem eltir eigið skott, eða eins og tígrisdýrin í svarta Sambó, sem hlupu í hringi uns þau urðu að smjöri?

Til hamingju Joðhanna! Til hamingju með skjaldborgina!
Skjaldborgina um banka- og fjálmálalífið, sem múrar mig, Jón og Gunnu úti í freðmýrinni.

Til hamingju með að gera íslensk heimili að smjöri!


mbl.is Boðar auknar álögur á áfengi og tóbak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Einarsson

Takk fyrir góð skrif, já þetta er svakalegt og ótrúlega barnalegt hjá fjármálaráðherra að halda að hækkanir á sköttum leysi allan vanda, fólk breytir bara neyslumynstrinu og verðhjöðnun, verðtrygging og vísitala eykst, getur verið að það vanti allt joð í Joðhönnu eftir allt saman ?

Sævar Einarsson, 27.6.2009 kl. 08:58

2 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Ég hef ekki tekið eftir því að akstur hafi minnkað eitthvað þó að bensín hafi hækkað síðan hrunið varð ,hef alltaf átt von á því að nú hlyti fólk að fara að minnka notkun á einkabílnum og fari að nota almenningssamgöngur meira  en nei það hef ég ekki tekið eftir ,það gæti gerst eftir að núverandi skattur sem var settur á fari að virka en einhvernvegin hef ég ekki trú á því .

Hvað varðar hækkun áfengis gjalds og tóbaksgjalds finnst mér það vera rétt að gera það, vill það frekar en að ráðast á sjúkrahúsin og eldri borgara.

Ég skil ekki af hverju er ekki búið að taka af þessa verðtryggingu til bráða birgða .eins og hún var sett á á sínum tíma , átti að vera til bráðabirgða ,en það hefur verið svo að það sem einu sinni hefur verið sett á reynist erfitt að losna við.

Það sýnir þröngsýni og hvað menn eru með mikla rörsýni á vanda fólks og þjóðfélagsins í heild ,það getur verið stórhættulegt að fara út fyrir rammann halda menn ,en nú þarf að gera það, leita eftir óvenjulegum leiðum þó að það reynist óvinsælt ,menn eiga ekki á þessum tímum að vera í einhverjum vinsældar sjónarspili.Fólk sér i gegnum slíkt 

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 27.6.2009 kl. 09:11

3 Smámynd: Sævar Einarsson

Það á frekar að setja flatan 25% - 30% skatt á allt, þannig fer fólk að hætta að stunda svarta starfsemi(amk flestir), maður fær meira útborgað, eyðir meira í mat, vín, tóbak, bíó, skemmtanir, ferðalög og svo mætti lengi telja. Það styrkir allar stoðir fyrirtækja, það verður ekki fyrir samdrætti vegna þess að fólk hættir að lifa á núðlum.

Sævar Einarsson, 27.6.2009 kl. 09:15

4 Smámynd: Sævar Einarsson

Já eitt í viðbót, getur það verið að eftir efnahafshrun sé Ísland eina landið í heiminum sem er að hækka skatta og við séum tilraunadýr annarra þjóða.

Sævar Einarsson, 27.6.2009 kl. 09:18

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Fín skrif og pæling út fyrir kassann.

Þó bifreiðanotkun haf ekki minnkað að ráði, eins og Guðmundur nefnir, held ég að það sé ekki vísbending um skattaþolinmæði þjóðarinnar. Helgist frekar af því sem kemur fram í færslunni; fólk fer ekki til útlanda og sparar við sig raftækjum, húsgögnum og fleiru. Í staðinn kemur sunnudagsbíltúrinn, bíóferð og stöku bjórkippa. Eitthvað verða menn að leyfa sér.

Svo er það blessuð/bölvuð verðtryggingin

Ég sé hana ekki hverfa í bráð. En ef nýtt frumvarp verður að lögum, um fullnustu lána með veði í íbúðarhúsnæði, gæti það haft góð áhrif. Það er ekkert lögmál að nota vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Ég myndi vilja sjá flutningsmenn fylgja þessu eftir með nýrri vísitölu húsnæðisverðs (ef verðtrygging verður áfram til). Hún myndi virka sem vörn á sveiflur í fasteignaverði og aðhald fyrir þá sem bjóða íbúðalán. Óhófleg lán yrðu úr sögunni og enginn yrði gjaldþrota við það að missa íbúðarhúsnæði.

Haraldur Hansson, 27.6.2009 kl. 12:09

6 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

takk fyrir innlitið.

já, það er oftast (alltaf?) tilfellið að „tímabundnar“ aðgerðir vilja ílengjast og vera til frambúðar. eins og verðtryggingin og stimpilgjöldin.

Guðmundur: ég held að dæmi um bifreiðanotkun sé ekki besta dæmið um áhrif skatta á neyslu, því áhrifin eru minni hvað varðar nauðsynjar og í okkar þjóðfélagi flokkast bifreið undir nauðsyn hjá mörgum. strætó er ekki fýsilegur kostur hjá mörgum, sem þyrftu að taka 2 - 3 vagna til að komast til vinnu og tæki ferðin kannski 1 - 1,5 tíma. tóbak og áfengi geta vart kallast nauðsynjar.

Haraldur: ég er alveg sammála að ef menn vilja endilega viðhalda verðtryggingu, er eina vitið að verðtryggja íbúðalán með vísitölu húsnæðisverðs. hefði slíkt verið raunin hefðum við ekki séð eins drastískar hækkanir á íbúðum, seinustu ár og raun varð á.

Brjánn Guðjónsson, 28.6.2009 kl. 02:06

7 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

þetta voru dálítið löng skrif fyrir mann eins og mig með hálfgerða athyglisbresti. Ég tel mig hafa náð því helsta.

Sko .... Þú talar um barnaskap... Staðreyndin er aftur á móti sú að við núverandi aðstæður er ekkert annað í stöðunni að hækka skatta. Annað væri hrein og klár afneitun. Spurningin er sú hvar á að gera það ? Ég tel að það fáist ekki betri stjórn en núverandi stjórn til þess að skera niður því að þá er þó allavega gert allt sem mögulegt er í stöðunni til þess að skera niður með þeim hætti að þeir sem minnst mega sín hljóti minnstu hnekkina.

 Þú talar hér um barna skap en fyrst svo er... gætir þú þá verið svo vænn að segja mér hvernig á að fylla upp í 20 milljarða gat ? 

  •  villtu lækka launakostnað ?
  •  Hvernig skatta villtu hækka ?

fyrir mér er barnaskapur að halda því fram að Steingrímur J sé barnalegur að hækka þessa skatta.... Það hefði hvaða stjórnmálamaður með eitthvað sem kallast ábyrgð hækkað skatta. Allar aðgerðir í dag ERU ÓVINSÆLAR skiptir ekki hvernig þær eru framkævmdar og ég prísa mig sælan BRJÁNN að hér sé ekki lengur hægristjórn... því hún hefði hlíft frekar þeim efnameiri og set skurðahnífin frekar á velferðarkerfið og mögulega reynt að einkavæða það enn þá meira.

Það er ekki eins og við búum í undralandi... Næstu tvö ár er ástandið frekar svart og það þarf bregðast við þeim vanda með einum eða öðrum hætti.

Varðandi bankakerfi ... þá vil ég benda þér góðfúslega á að heimili hafa alltaf haldið uppi bankakerfi. Í mesta góðærinu var meinið að stærstar tekjur bankanna fóru í gegnum heimili og ef t.d ef bankarnir hættu að fá þær tekjur sem þeir fá í gegnum heimilinn t.d með venjulegum útgjöldum væri bankakerfið fyrir löngu hrunið.

Þessvegna eru menn svo tregir til að gefa eftir afborganir og bjóða frekar upp á greiðslujöfnun. Þetta er ekki gert af mannílskunni einni saman heldur af bráðri nauðsin.  

Brynjar Jóhannsson, 28.6.2009 kl. 03:21

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

sæll Brylli.

ég er ekki að mótmæla skattahækkunum. málið er hinsvegar hvar og hvernig það er gert.

ég hef, því miður, ekki nægar upplýsingar um ríkisfjármálin til að geta svarað spurningu þinni um hvernig skuli kíttað í fjarlagagöt. þ.e.a.s. ég veit ekki hve mikið þarf til og hvar auðveldara er að skera niður og slíkt.

ég nefni hugmynd mína að breytingu á tekjustofni ríkisins hvað varðar áfengi. sama mætti gera varðandi tóbak. sumar tóbakstegundir eru söluhærri en aðrar. ég sé eins að vel mætti leggja sölutölur til grundvallar varðandi skattlagningu. innleiða hið gamla og góða lögmál framboðs og eftirspurnar (aðallega eftirspurnar í þessu tilfelli) í skattkerfið. ég reyki. ég reyki eina ákveðna tegund vindlinga og það þyrfti mikið til að ég sneri mér frá henni, fyrir utan ef ég myndi hætta að reykja. eins mætti leggja sölutölur til grundvallar áfengisgjalda.

aðal málið er, Brylli, að í ástandi eins og nú ríkir verða menn að hugsa upp á nýtt. sé einhverntíman tímabært að hugsa upp á nýtt og út fyrir kassann, þá er það einmitt núna. finna nýjar leiðir. ekki bara hjakka í hinu steingelda hyldýpi meðalmennskunnar.

í raun væri hið rétta hjá ríkisstjórninni að gera núna, væri að kalla til sín fólk úr ýmsum áttum til að breinstorma með sér um nýjar leiðir.

en, nei nei. ekkert svoleiðis. bara sama gamla tuggan og síðustu marga áratugi.

Brjánn Guðjónsson, 28.6.2009 kl. 03:47

9 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

bottomline.

ónýtu hagkerfi verður ekki bjargað með meðölum þess sama ónýta hagkerfis. ekki frekar en eldur verður slökktur með olíu.

Brjánn Guðjónsson, 28.6.2009 kl. 03:50

10 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Málið er brjánn..

 Jú jú .. nýjar hugmyndir eru mjög góðar og allt það.. hugsa upp á nýtt .. .skil það vel.

En ég heyri ekki betur en í meginatriðum gerir þú þér grein fyrir grunn atriðum sem er ... að ÞAÐ ÞARF AÐ HÆKKA SKATTA og fara í niðurskurð..

Því miður.... þannig er það bara...

Ég ætla ekki að gera lítið úr þínum hugmyndum... en eins og þú lýsir þeim .. myndi það sama gerast með þær og aðrar.... þeir sem TAPA Á ÞESSUM GRÓÐA verða brjálæðir en hinir sem slappa við skerðingu segja ekki orð.

 þannig hefur það alltaf verið... 

Brynjar Jóhannsson, 28.6.2009 kl. 04:56

11 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ekki misskilja mig Brylli. ég geri mér fulla grein fyrir að fara þurfi í aðgerðir eins og niðurskurð og skattahækkanir.

mótmæli því ekki.

ég geri bara athugasemdir við útfærsluna. finnst hún gamaldags. vægast sagt.

útfærslan er sko ekki einu sinni 2007. hún er meira 1930.

Brjánn Guðjónsson, 28.6.2009 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband