Hagfræðismi II

Ég velti fyrir mér hagfræðisma um daginn. Eftir að hafa heyrt og lesið fréttir af tillögum vinnuhóps stjórnvalda um skuldavanda heimilanna varð mér enn á ný hugsað til hins alltumlykjandi hagfræðisma.

Þeir sem hafa talað fyrir flatri leiðréttingu skulda. Athugið, að ég segi leiðréttingu, en ekki niðurfærslu, tala um þær í sambandi við þann forsendubrest sem orðið hefur og eignatilfærslu af hans völdum.

Stjórnvöld hafa hins vegar talað um niðurfærslu til hjálpar þeim skuldsettustu. Gera ekki greinarmun á eplum og appelsínum.

Þeir sem vilja leiðréttingu skulda vilja einfaldlega að því sem stolið var af fólki, í skjóli lögboðinnar eignaupptöku verðtryggingarinnar, verði skilað til baka. Að hluta í það minnsta. Þá skiptir engu hvort viðkomandi eigi mikið eða lítið. Þjófnaður er þjófnaður og það er ekki í lagi að stela frá einum frekar en öðrum.

 

Vinnuhópur stjórnvalda setur fram níu tillögur og metur þær í krónum, sem og hve margir skuldsettir munu bjargast frá bjargbrúninni við hverja og eina leið.

Sem sagt, epla og appelsínubransinn hafður að leiðarljósi, sem og hagfræðismi talnagrindarinnar.

 

Ég hef reyndar ekki séð frumrit tillagnanna. Einungis fréttir af þeim. Þar er hvergi minnst á hvort eða hvernig hópurinn lagði mat á hve réttlát hver leið væri. Ég hallast að því að réttlætissjónarmiðin hafi ekki verið höfð með. Einungis hvað leiðirnar kosta í krónum, án tillits til jaðaráhrifa þeirra. Sem og að blanda saman eplunum og appelsínunum.

Vissulega eru einhverjir sem munu áfram þurfa sértækar aðgerðir, en það er bara allt önnur umræða og á ekki að blanda saman við umræðuna um leiðréttingu eignatilfærslunnar.

Niðurstaðan er sú að það er í lagi að stela einhverju frá þeim sem hafa efni á að kaupa sér nýtt eitthvað. Hinum og aðeins hinum, sem ekki hafa efni á að kaupa sér nýtt eitthvað skuli bættur skaðinn. Harmonerar algerlega við stefnu stjórnvalda.

 

Að blanda ávöxtunum áður en reiknað er veit ekki á vænlega útkomu. Reiknidæminu með ávextina svöruðu Kaffibrúsakarlarnir fyrir fjörutíu árum.

Þrír bananar dregnir frá fimm eplum gera tvö vínber.

 

Hve trúverðug er slík stærðfræði? Ég spyr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

og ef maður bætir svo við tveimur mandarínum þá fær maður vænt og gott avocado og er í góðum málum sýnist mér bara

Jóka (IP-tala skráð) 12.11.2010 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband