Viktoría Törudóttir (2. 4. 1991 - 23. 1. 2011) - Minning

ViktoríaViktoría Törudóttir, hefðarköttur, er látin 19 ára að aldri. Hún lést að heimili sínu, að Safamýri 35, þ. 23. janúar sl.

Hún hefði því orðið tvítug í vor.


Viktoría fæddist að Bjargtanga í Mosfellshreppi, þann 2. apríl 1991.
Viktoría var fjórburi.


Ég tók hana að mér í fóstur, barnunga.
Hún var skemmtilegur karakter. Fjörug og mjög hænd að mér.

Hún var ávallt einörð og stefnuföst og lét ekki segja sér fyrir verkum.
Sannur kjarnaköttur.

Viktoría var áhugasöm um umhverfi sitt og að kynnast heiminum.
Kannski heldur áhugasöm, enda tókst henni að týnast á gelgjuskeiðinu.
Það ævintýri hennar endaði þó vel.

Ég tók þá ákvörðun, í samráði við foreldra mína, sem ég bjó hjá á þeim tíma,
að Viktoría skyldi fá að kynnast móðurhlutverkinu í það minnsta einu sinni.

Árs gömul eignaðist hún þríbura. Faðirinn er óþekktur en ljósritunarvél þykir líklegust, þar eð afkvæmin voru nákvæmar eftirmyndir hennar.

Afkvæmunum var síðan komið í fóstur í Reykjavík, Laxárdal og Skriðdal.
Eðalgenum hennar þannig tryggð dreifing um land allt.

Um svipað leiti og Viktoría varð móðir fluttist ég úr foreldrahúsum og tóku foreldrar mínir við hlutverki tilsjónarmanna hennar.
Hjá þeim var Viktoría sátt við menn.

Ég veit ekki með Guð, þar eð við Viktoría ræddum aldrei trúmál.
Hún virtist frekar jarðbundin.

Fyrir 13 árum fluttist faðir minn, þá fóstri hennar, búferlum og Viktoría var sett í fóstur hjá systur minni að Langholtsvegi.

Viktoría lét ekki bjóða sér slíkt og tók sér á hönd gönguferð heim í Safamýrina.
Þar var henni tekið opnum örmum af fjölskyldunni á miðhæðinni, sem tók hana að sér.

Þar bjó hún, í góðu yfirlæti, allt til dauðadags.

Árið 2000 flutti ég aftur í Safamýrina. Í Safamýri 27. Þá hitti ég Viktoríu oft og þótt hún væri farin að reskjast fannst mér hún þekkja mig. Hún virtist muna eftir gamla fóstra sínum.

Árið 2002 flutti ég þaðan aftur og eftir það hittumst við sjaldan. Börnin mín hafa búið í hverfinu síðan og fært mér fréttir af henni.

Svo vill til að systurdóttir mín og sonur hjónanna á miðhæð Safamýrar 35 eru vinir. Þannig bárust mér þær fregnir, fyrir viku, að Viktoría lægi á dánarbeðinu.

Nú er hún Viktoría öll.

 

Einhvern tímann var það að ég notaði orðið „elskan" við hana. Ekki man ég kringumstæðurnar. Hvort hún stökk í kjöltu mína þar sem ég horfði á sjónvarpið, eða ég bara tók hana í fangið.

Ég man alltaf orð móður minnar sálugu, sem fannst nú ekki við hæfi að ávarpa kött á þennan hátt.

„Kallar hann ekki köttinn elskuna sína!"

Mamma var nú aldrei mikið fyrir ketti.

 

Málið er að á þessum tíma var ég frekar lokaður, tilfinningalega. Ég lærði hins vegar að tjá væntumþykju mína þegar ég sat með Viktoríu í fanginu og talaði til hennar.

Ekki ósvipuð tilfinning og þegar ég tjái væntumþykju mína við börnin mín í dag. Þótt sú tilfinning risti mun dýpra. Stigsmunur frekar en eðlismunur.

Viktoría kenndi mér að elska.

 

Viktoría mín. Takk fyrir að hafa verið til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fallreg kveðja um köttinn þinn, ég hef átt marga ketti um æfina og grátið sárt við dauða þeirra og sakna þeirra mikið sem ég hélt mest upp á en nú á ég hund og er ósjálfrátt að bíða eftir því að hann mali. Ekkert kemur í stað katta sem eru miklir vinir manns.

Fór oft í langar gönguferðir með kettina mína því ég er svo heppinn að búa á svoleiðis stað að það var hægt. Kenndu börnunum þínum að elska dýr eins og þú gerðir og þau verða betri manneskjur fyrir vikið.

Ólafía Herborg (IP-tala skráð) 29.1.2011 kl. 02:53

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

takk fyrir það, Ólafía.

börnin mín héldu eitt sinn kött, sem lést eftir slys. það var mikil og djúp sorg.

Brjánn Guðjónsson, 29.1.2011 kl. 05:08

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 29.1.2011 kl. 10:52

4 identicon

mér þykir það leitt en hún hefur náð að eldast þrátt fyrir þvælingin og já  það er gott að elska í hvaða formi sem það nú er

Jóka (IP-tala skráð) 29.1.2011 kl. 20:19

5 Smámynd: Eygló

Eftir þennan lestur, hugsa ég nú helst með mér (ekki viðeigandi að skrifa það):

"Elskan hann Brjánn"  svo fallega og vel skrifað. 

Eygló, 1.2.2011 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband