Hindurvitni

Okkur vesturlandabúum þykja viðmið fjarlægra þjóðfélaga oft undarleg.

Fussað er og sveiað yfir því hvernig trúarbrögð eru sumsstaðar hryggjarstyggi þjóðfélaga. Ekki síst þegar Islam er annars vegar. Indíánar N-Ameríku lögðu mikið upp úr heiðarleika og virðingu fyrir öndum forfeðranna. Á Íslandi til forna þótti heiðarleiki dyggð. Það versta sem hent gat nokkurn mann var að missa æru sína.

Á Íslandi nútímans, sem og í hinum vestræna heimi, er þessu öðruvísi farið. Trúarbrögð eru ekki lengur hryggjarstykkið og heiðarleiki þykir í lagi þangað til...

...honum má sleppa til að græða pjéning.

Í dag er það hagkerfið og peningamálin sem öllu skipta. Jú jú, velferð borgaranna skiptir líka máli en ef um þarf að velja, hagkerfið eða velferð borgaranna, fær velferðin að víkja.

Þetta höfum við best séð síðasta eitt og hálfa árið. Í forgang var sett viðreisn bankanna og hagkerfisins. Það var ekki hægt að bæta andlega líðan borgaranna, sem voru að kikna undan hækkandi skuldum, hækkandi verðlagi, lækkandi launum og atvinnumissi. Fótunum var kippt undan margri fjölskyldunni en það var ekki hægt að endurreisa þær því púðrið fór í að endurreisa peningabáknið, svo það hefði styrk til að halda áfram að pönkast á alþýðunni.


Þessi hagkerfis- og peningamálatrú er nefnilega bara trú. Hagkerfið byggir í raun ekki á mikið vísindalegri grunni en Islam eða andar forfeðranna.

Sjáum t.d. hina ýmsu hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaði. Stundum, reyndar, stjórnast verð af framboði og eftirspurn en oftar en ekki eru það tilfinningasveiflur þeirra sem á mörkuðum versla sem stjórna verðinu. Eitthvert atvik á sér stað sem vekur upp ótta og kvíða á mörkuðum og þá lækkar verð og öfugt.

Svo eru einhverjar einkareknar sjoppur sem gefa út dóma sína, svona eins og erkiklerkar. Moody's, Fitch, Standard & Poor, eða hvað þær heita sjoppurnar.

Ein þeirra, Moody's hf. sf. lækkar eitthvert mat og við það fá menn úti í bæ svitakast. Við erum ekki að tala um einhverjar alþjóðlegar stofnanir sem hafa pólitískt vægi. Nei, bara einhverjar sjoppur hvar menn ákveða á morgunfundum að breyta lánshafismati þessa og hinns frá ABCD3 í ÞQWZ2, hvað sem það nú þýðir. Það merkilega er svo að aðrir taka þessu sem hinum heilaga sannleika og miða vexti sína af því. Svona eins og þegar predikari spáir einhverju og lýðurinn tekur því sem heilögum sannleika.

Það er stigsmunur á hagkerfinu og trúarbrögðum, en enginn eðlismunur.


mbl.is Seðlabankastjóri bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðlaun?

Nú er ég í sumarfríi og nýt þess að hafa ekkert fyrir stafni, annað en að strjúka á mér kviðinn.

Hef í vikunni gjarnan haft opið fyrir Rás 2 og leyft henni að malla í bakgrunni meðan ég geri eitthvað uppbyggilegt. Hvort heldur það er að gaufa á netinu W00t eða að reyna að gera kotið eilítið vistlegra.

Nú eru þeir rásarmenn að auglýsa árvissa tónleika rásarinnar á Menningarnótt. Tónleikar sem hingað til hafa verið kallaðir „Stórtónleikar Rásar 2.“ Nú vilja þeir finna annað heiti en stórtónleikar. Lýst hefur verið eftir tillögum um nýtt heiti. Svo eru verðlaun í boði fyrir bestu tillöguna.

Þá komum við að kjarnanum.
Ég lagði við hlustir þegar verðlaunin voru tilgreind.

Einhver gasaflottur 3G Nokia sími, var nefndur fyrst. Ég hugsaði með mér að kannski væri tilefni til að spreyta sig, þótt ég sé vel sáttur við minn gamla síma. Þá kom höggið. Böggull fylgdi nefnilega skammrifi því næst bætti Óli Palli (sá sem las auglýsinguna og er allt í öllu á Rás 2) „og heimsókn frá Ingó, sem mætir auðvitað með gítarinn.“ Síðan bættist við hvalaskoðunarferð, sem án efa væri gaman að fara í.

Ég hef ekkert á móti Ingó. Það gæti allt eins hafa verið Bubbi, Hörður Torfa, eða Óli Palli sjálfur, sem mættu í heimsókn með gítar. Ég gæti alveg hugsað mér síma og hvalaskoðunarferð, en frábið mér að fá til mín einhvern gítarglamrara ásamt fylgdarliði. Gæti kannski verið voða kósí að kveikja varðeld í stofunni og raula nokkur lög. Mig bara langar ekki til þess.

Þannig að ljóminn af fína flotta símanum hvarf í skuggan af samfylgjandi gítarglamursofbeldi.

Hví ekki frekar að bjóða upp á síma og flengingar?

 


Á ég að hlæja eða skellihlæja...

...yfir þessari frétt um afsakanir varðhunda auðvaldsins?

Hví ætti ríkisvaldið að þurfa að dæla fjármagni í gjaldþrota fjármálastofnanir, einkareknar?
Hvernig getur það varðað almannahagsmuni að þær fari yfir um?

Væntanlega með þeim rökum að falli þær, tapist einhverjar eigur almennings. Sparnaður.

Bankarnir hafa gefið það út að umræddur dómur og verstu afleiðingar hans muni ekki setja þá á hliðina. Eftir standa einhver smærri fyrirtæki sem einungis hafi stundað útlán en ekki innlán. Afsakið fávisku mína, en eru einhverjir innlánsreikningar hjá Lýsingu, SP fjármögnun, Avant, eða hvað þessi kompaní heita öll? Hvaða almannahagsmunir eru í húfi þótt þessi fyrirtæki deyi drottni sínum og rotni?

Spyr sá er ekki veit.

Svo klykkja þeir út með þessu; „Sú hætta geti skapast að erlendir aðilar endurmeti viðhorf þeirra til fjárfestinga á Íslandi til lengri tíma. Það myndi þýða minni erlenda fjárfestingu og verri kjör á erlendum lántökum og rýrari þjóðartekjur í framtíðinni með áhrifum á komandi kynslóðir.“

Eru það ekki aðallega gjaldeyrishöftin sem fæla erlenda fjárfesta frá? Hver hefur annars áhuga á að fjárfesta þar sem hann getur síðan ekki kassað út gróðanum?

Kannski ég sé í ruglinu. Gaman væri þá að fá að vita hvernig. Svo ég komist úr ruglinu.


Transparency International

Hét kompaníið ekki það? Þetta sem trekk í trekk lýsti yfir að Ísland væri laust við spillingu.

Mér datt það í hug við lestur þessarar fréttar.

Einhverjir njólar rotta sig saman. Ákveða að setja upp bindi og besservisserast.

Gekon og doktor Michaels Porter? Restin af fréttinni er eðal froða.

Kannski ég ætti að stofna fyrirtækið Hákon og magister Bjáni. Kaupa mér bindi og bókfæra bullið mitt sem ráðgjöf.

Gæti gefið góð ráð um allskonar klasa. Vínberjaklasa, eyjaklasa og C++ klasa.


Forsendubrestur

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lýsingar gegn skuldara hvers nafn skiptir ekki máli stendur:

„Dómurinn taldi gengistryggingu samningsins hafa verið verulega forsendu og ákvörðunarástæðu fyrir umræddri lánveitingu, sem báðum aðilum hefðu mátt vera ljósar en reyndust rangar, og var því fallist á með stefnanda að samningurinn væri ekki bindandi fyrir hann að því er vaxtaákvörðunina varðaði. Var litið til ákvæða 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og talið rétt að vextir yrðu reiknaðir til samræmis við þá vexti, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga.“

Þarna kemur fyrir orðið forsenda og vísað til brests hennar. Dómarinn byggir þá niðurstöðu sína, að Seðlabankavextir skulu gilda, á að forsendur fyrir hinum upprunalegu vöxtum hafi verið gengistrygging og fyrst hún hafi verið felld burt skulu umsömdu vextirnir falla burt jafnframt.

Málið mun fara fyrir Hæstarétt og því kannski ekki tímabært að leggja út af dómi þessum sem stendur. Þó vakna spurningar.

Komist Hæstiréttur að sömu niðurstöðu, er þá ekki ljóst að forsendur annarra lána, verðtryggðra með vísitölu neysluverðs, séu jafnframt brostnar?

Fyrir fáum árum var verðbólga hér í lægri kantinum. Alla vega á Íslenskan mælikvarða. Þetta 2 - 4%.

Þeir sem þá tóku verðtryggð lán sáu fram á 6 - 9% vexti. ca 4 - 5% ofan á verðbæturnar. Síðan féll Krónan. Hafði sunkað niður reglulega í lok mars, júní og september 2008, áður en fallið farð algert. Tilviljun að það gerðist alltaf kring um ársfjórðungauppgjörin.

Þeir sem lánuðu tóku stöðu gegn þeim sem lánað var og pumpuðu upp höfuðstóla og afborganir með hækkun vísitölunnar, sem afleiðingu af fallandi Krónu. Verðbólgan var pumpuð upp í 18% eða svo og át upp eiginfé landsmanna, hverra settu sparnað sinn í steinsteypu.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Hæstiréttur mun nálgast málið með vexti af gengistryggðu lánunum.

Enn fróðlegra hefur verið, er og verður að fylgjast með þeim stjórnmálamönnum sem gefið hafa sig út fyrir að vera málsvara fólksins, en hafa síðan opinberað sig sem úlfa í sauðagærum.

 


mbl.is Steingrímur: Átti von á þessari niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttatilkynning

Í ljósi nýfallins dóms í kjötbollumálinu svokallaða, hafa Húsmæðratíðindi sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu.


Mötuneyti Húsmæðratíðinda gerði, fyrir nokkrum árum, samning við matsölufyrirtækið Soðningu hf. Samningurinn hljóðaði upp á kjötbollur í brúnni sósu, einu sinni í viku til tíu ára, á verði sem næmi tvöföldum hráefnis- og framleiðslukostnaði. Í kjölfar falls Krónunnar og hækkandi heimsmarkaðsverðs á salti, fór verð hvers kjötbolluskammts úr 550 krónum í 1000 kall, á einu ári. Eins og hver maður getur gert sér í hugarlund var þessi stökkbreyting að sliga starfsmenn Húsmæðratíðinda, sem höfðu skuldbundið sig til að kaupa sinn hádegismat í mötuneytinu. Eftir nána skoðun þótti starfsmönnum ljóst að saltnotkun í kjötbollur væri hreinlega ólögleg. Því var höfðað mál á hendur Soðningu hf. og farið fram á að saltinu yrði sleppt úr uppskriptinni. Áhrifin yrðu þau að án salts færi skammturinn niður í 500 kall. Upphæð sem flestir starfsmenn Húsmæðratíðinda telja sig ráða við. Dómur féll og saltið var dæmt ólöglegt.


Upphófst þá undarleg umræða meðal ýmissa matsveina landsins, sem töldu að eitthvert annað krydd yrði að koma í stað saltsins. Starfsmenn Húsmæðratíðinda, ásamt fleirum, bentu á að einungis saltið væri ólöglegt og skyldi fellt úr uppskriftinni. Að öðru leiti héldi hún sér. Soðning hf. vísaði ágreiningsefni þessu til dómstóla, þar sem dómur féll nú árdegis. Uppskriftin skal ekki halda sér óbreytt án saltsins. Í stað saltins skuli koma kanill. Skammturinn skal vera ákveðinn af Matvælastofnun ríkisins. Í upprunalegu uppskriftinni voru 3 teskeiðar af salti, en samkvæmt útgefnum skammti Matvælastofnunar skulu hér eftir notaðar 3 matskeiðar af kanil.

Húsmæðratíðindi telja hina dæmdu breytingu uppskriftarinnar ranga og telja hana ganga stórlega gegn hagsmunum neytandans en sé matsveinum í hag. Þess skal getið að heimsmarkaðsverð á kanil hafi farið hækkandi, auk þess að þótt niðurfelling salts úr uppskriftinni hafi gert kjötbollurnar bragðminni gerir kanillin þær hreinlega óætar. Því mun dóminum verða áfrýjað til æðra dómstigs.


mbl.is Ekki ósanngjörn lending
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðabirðalög

Í vetur voru sett bráðabirðalög á verkfall flugumferðarstjóra.

Nú hafa brunaverðir boðað verkfall. Enginn er að tala um bráðabirðalög núna.

Þeir ætla ekki að sinna minniháttar útköllum, sem ekki varða heilsu og líf borgaranna.

Maður spyr sig hví þótti svo brýnt að setja lög á flugumferðarstjóra til að halda úti flugsamgöngum, en nú þykir ekki tiltökumál að brunaverðir fari í verkfall.

Getur verið að ástæðan sé sú að fari flugumferðarstjórar í verkfall komist ráðamenn ekki í sínar utanlandsreisur og Össur missi af humarveislum í Brussel?

Vonandi að ráðamenn verði ekki fyrir vatnstjóni, sem brunaverðir segjast ekki ætla að sinna. Annars munu verða sett bráðabirðalög undir eins.


mbl.is Dapurleg niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsing

Nei, ég er ekki að fara að skrifa um mafíósa með opinbert starfsleyfi. Fannst bara skondið að hafa fyrirsögnina í eintölu. Ætla að fjalla um íþróttalýsingar.

Mér hefur alltaf fundist það broslegt þegar íþróttaleikjum er sjónvarpað, að í sjónvarpssalnum sitji menn, ýmist einn eða tveir og lýsi því sem fyrir augu ber. Þess lags lýsingar eiga fullan rétt á sér í útvarpi, hvar hlustendur sjá ekki leikinn. Hins vegar finnst mér það frekar asnalegt þegar kemur að sjónvarpi. Nema tilgangurinn sé að gera blindum kleift að fylgjast með, sem er virðingarvert ef rétt reynist. Hins vegar efast ég um að tilgangurinn sé sá.

Ég sit og horfi á fótboltaleik. Ég sé þegar einhver tekur skot á mark. Skorar eða skýtur framhjá. Ég sé líka vel þegar einhver tæklar annann. Mér gengur bara bærilega að fylgjast með. Samt eru einhverjir njólar að segja mér hvað ég sé. Kannski ég og aðrir áhorfendur séum svo mikil fífl að þekkja ekki mun á tæklingu og skoti á mark, eða muninn á innkasti og markspyrnu. Það hlýtur bara að vera svo.

Jú, þeir hafa nöfn leikmanna á hreinu. Hafa yfir þá lista. Ég held að þeir áhorfendur sem lifa og hrærast í fótboltaheiminum viti það líka, svo nafngreiningar lýsendanna skipta varla máli fyrir þá. Er þá málið að geta nafngreint leikmennina fyrir okkur hin, sem hvorki lifum né hrærumst í fótboltaheiminum? Kannski.

Á móti, er okkur sem eigum líf utan íþróttaheimsins en höfum þó gaman að horfa á kappleiki annað slagið, nokk sama hvað leikmennirnir heita. Sjái ég leikmann tækla annan, eða skora mark, er mér nákvæmlega sama hvað hann heitir. Nafn hans hvorki breytir tæklingunni né markinu.

Það er ekki eins og það sé; „Glæsilegt mark! Ha, heitir hann Guðmundur? Þetta var rangstaða!“ eða „Þetta var ekki gróf tækling. Hann fór klárlega í boltann, en ekki manninn. Ha, heitir hann Pétur? Rautt spjald á kvikindið!“

Því sé ég ekki nokkurn tilgang í að hafa einhverja lýsendur, sem segja mér hvað ég sé.

Réttara væri að útvarpa lýsingunni en leyfa fólki að horfa á ómengaða sjónvarpsútsendingu. Lausa við mis djúpa speki lýsendanna. Þeir sem vita ekki hvað þeir sjá geti þá bara haft útvarpslýsinguna í eyrunum meðan þeir horfa.

 


Mol(dakofa)búar

Íslendingar eru sérkennilegur þjóðflokkur. Íslendingar eru og hafa ætíð verið svo fullvissir um eigið ágæti og lands síns að það hálfa væri nóg. Þar sem ég er sjálfur íslenskur get ég ekki undiðskilið sjálfan mig, eðli málsins samkvæmt. Það er bara einn íslendingur sem undanskilur sjálfan sig þegar hann talar um íslendinga sem fífl og hann heitir Jónas, en það er annað mál.

Þjóðrembingur Íslendinga er yfirþyrmandi. Tökum nokkur dæmi;

Fyrst. Íslendingar eru að rifna úr stolti yfir arfleifð sinni. Sögunum og tungumálinu. Þetta hefur ávallt gert mig hugsi. Hvernig get ég verið stoltur yfir einhverju sem aðrir hafa gert? Skrifað sögur eða mótað tungumál. Frekar en ég geti skammast mín fyrir gjörðir annarra. Kannski undantekningin, börnin mín, þar sem ég ber ábyrgð á uppeldi þeirra að hluta. Hvernig get ég verið stoltur af einhverju sem einhver gerði fyrir mörgum öldum og ég á enga hlutdeild í?

Svo er þetta klassíska sem íslendingar segja (og trúa) um Ísland og Íslendinga; Besta vatn í heimi. Hreinasta loft í heimi. Minnsta spilling í heimi. Gífurlega menntuð þjóð.

Hreint climax í þjóðernisrunkinu og allir taka undir. Hvað svo?

Ég hef engar vísindalegar staðfestingar séð um að íslenska vatnið sé best í heimi. Rámar meira að segja í einhverja rannsókn, sem ég kann ekki að nefna, þar sem niðurstaðan var að besta vatn í heimi væri einhversstaðar allt annarsstaðar en á Íslandi. Hvort Ísland var í 5. eða 6. sæti man ég ekki. Minnsta spilling í heimi. Já, eigum við að ræða það frekar? Hvar er staðfesting þess að hreinna loft sé hér en t.d á Grænlandi, eða Azoreyjum? Að síðustu er það mýtan um menntunina.


Fyrr á öldum bjuggu Íslendingar í moldarkofum. Í afdölum. Voru upp til hópa heimskir. Heimskur maður er sá sem þekkir einungis heimahagana, er illa upplýstur, vitgrannur. Með tíð og tíma fluttust Íslendingar úr moldakofunum. Þó virðist sem hugsun þeirra og hugarfar hafi orðið eftir í moldakofunum, því enn þann dag í dag telja Íslendingar sig vera mesta og besta án þess að hafa nokkuð til síns máls.

Birtingarmynd nútímans er sú að sumir Íslendingar vilja búa enn í sínum andlegu moldakofum og vilja ekki sjá neitt þess utan. Allt sem kemur utan frá (útlenskt) sjá þeir sem ógnun. Jafnvel án þess að vita hvað það er sem þeir óttast. Bara vissara að múra sig inni, in case.

Íslendingar eru því, upp til hópa, heimskir samkvæmt skilgreiningu þess orðs. Ekki síst þeir sem telja sig vita allt best. Hvort heldur þeir heiti Jónas eða Davíð. Það er eðal moldakofahugsunarháttur og í eðli sínu heimska.


Ég mæli með að einhver löggildur verði fenginn til að íslenska eftirfarandi og það verði sett í skjaldarmerkið;

„Ignorance is bliss.“


Réttlætistilfinning viðskiptaráðherra

Viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, hefur verið ólatur að tala fyrir að Seðlabankavextir skuli gilda um gengistryggðu lánin. Megin röksemd hans er sú að annað væri óréttlátt gagnvart þeim sem hafa verðtryggð lán. Þeir sæti þá uppi með mun óhagstæðari lán.

Gott og vel.

Í haust mun væntanlega skýrast hvaða vextir skulu leggjast til grundvallar og er það skoðun mín að dómstólar munu skera upp úr að hinir umsömdu vextir skulu gilda.

Hvað ætlar Gylfi að gera þá? Ætli hann að vera samkvæmur sjálfum sér hlýtur hann að sjá til þess að verðtryggðu lánin verði leiðrétt til samræmis við óverðtryggðu fyrrverandi gengitryggðu lánin, á lágu vöxtunum.

Svona til að gæta samræmis og réttlætis. Er það ekki eðlileg ályktun?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband