Efnahagslegur alkóhólismi

Fjallkonan er ung og saklaus. Eftir að hafa lifað við þröngan kost um langt skeið hefur hún hlotið talsvert frjálsræði. Aukið frelsi til orða og athafna.

Eftir mörg ár, undirokuð af umhverfi sínu, sem byggði innra með henni skert sjálfsmat hlaut hún skyndilegt frelsi.

Skyndilega gat hún verið lengur úti á kvöldin. Meira var í boði er ginnti unga sál. Meira fé milli handanna, að eyða.

Lífið var draumur. Hún kynntist hinu ljúfa lífi. Sem var nú eitthvað annað en í gamla daga.

Hún hóf að dreypa á lystisemdum lífsins. Kannski heldur ótæpilega á stundum. Hún komst að því að lífsins má njóta í dag, þótt það kostaði örlítinn hausverk á morgun. Nautnin nú skipti meira en vanlíðanin seinna. Ástandið ágerðist. Lengst af fór hún á stutt fyllerí, sem á eftir fylgdi stutt þynnka. Að lokum var svo komið að hún uppgötvaði að enginn þörf væri á að stoppa nautnina. Henni mætti viðhalda. Hún hóf sinn fyrsta almennilega fyllerístúr. Það sem gjarnan vildi fylgja fylleríunum var minnkandi sjálfstraust og sjálfsmat.

Vitanlega taldi hún sig samt allan tíman hafa stjórn á drykkju sinni. Hún lét lönd og leið raus annarra um að hún skyldi nú slaka á. Jafnvel gera eitthvað í sínum málum. Nei, henni þótti engin þörf á því. Hún réði við þetta sjálf. Því hélt hún fylleríinu áfram. Ein og sjálf. Hún lét ekki smá móral samfara fylleríi draga úr sér móðinn. Eftir fáeina daga byrjaði ballið á ný.

Margir höfðu varað hana við að án tilkomu annarra myndi hún verða sér til skaða. Hún hélt nú ekki. Hún væri sjálfstæð og gæti séð um sig sjálf. Þyrfti sko ekki leiðsögn einhverra annarra.

Því hélt hún áfram í sama mynstrinu, þar til botninum var náð. Hún drakk sig í þrot. Hún hlaut andlegt og líkamlegt skipbrot. Sjálfsvirðingin og sjálfsmatið var komið niður í núll. Enginn leit á hana sem ábyrgan aðila sem mark væri á takandi.

Þegar hér var komið við sögu hugsaði hún að kannski væri það rétt að hún þyrfti stuðning. Hún gæti ekki stjórnað sinni drykkju sjálf. Kannski það væri rétt eftir allt saman að án aðstoðar gæti hún þetta ekki. Sjálfsmatið var í algerri lægð. Nú væri tíminn, að læra af reynslunni og breyta, eða halda áfram í sama farinu. Ekki væri hægt að komast neðar.

Í áfallinu hugsaði hún hvort ekki væri rétti tíminn nú, að taka sér taki og ganga í félagsskap þeirra sem áður höfðu tekið sig saman um sameiginlega og gagnkvæma samvinnu um að eiga betra líf. Líf án rússíbanareiðar. Rússíbanareiðar þess sem stendur einn í vanmætti sínum.

Raddirnar sem til hennar töluðu voru þó margar og misjafnar. Sumar sögðu að hún gæti vel höndlað sína drykkju. Hún þyrfti bara aga og dugnað. Hún yrði fyrst og fremst að hugsa um sjálfstæði sitt. Raddir sem töluðu af vanþekkingu þeirra sem ekki þekkja til þess sjúkdóms sem hana hrjáði.

Nú situr hún, hvumpin og hugsar um framhaldið. Á hún að taka skrefið og ganga í hóp þeirra sem kjósa að vinna saman, eða standa áfram ein og óstudd. Hún veit að þótt vonleysið æpi á hana nú, kemur sú stund að sjálfsmatið lagast. Mórallinn þverr. Tekinn næsti túr með tiheyrandi skipbroti, verði ekkert að gert.

Hún veltir fyrir sér þeirri spurningu hvort skipti meira máli, fullkomið óskert sjálfstæði eða að lifa hamingjusöm?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband