Jafnaðarmennska Árna Páls

Ég er svolítið hugsi yfir hvernig félagsmálaráðherra vor, Árni Páll Árnason, ætli að útfæra skuldaniðurfellingu.

Fyrir nokkrum dögum var svar hans eins drastískt og helst getur verið, að það væri ekki í mannlegu valdi að gera slíkt. Hallelúja, hugsaði ég þá. Eins gott þá að hafa biskupinn og Omega með í ráðum. Fyrst mannanna afglöp yrðu aðeins leiðrétt með guðlegri aðkomu.

Svo, fáum dögum síðar, hafði hann bakkað eitthvað og gefið í skyn að sértækar aðgerðir kæmu til greina. Alls engar almennar aðgerðir. Hann svaraði því til, í Kastljósinu ef ég man rétt, að ástæðan fyrir að almennar aðgerðir kæmu ekki til geina væri sú að til væru dæmi þar sem x% niðurfelling kæmi ekki að gagni. Það dygði ekki til. Sumir væru bara svo illa staddir. Kom mér pínulítið á óvart því rökin gegn almennum aðgerðum, fyrir kosningar, voru akkúrat á hinn veginn. Að þá gætu einhverjir hagnast sem þyrftu þess ekki.

En gott og vel. Örugglega eru margir sem vel ráða við sínar skuldbindingar. Hvernig ætlar ráðherrann samt að ákveða hve mikið skuli niðurfellt?

Ákvað að setja mitt eigið dæmi upp á tvenna vegu. Ég keypti íbúð á 20,8 millur haustið 2007. Tók Íbúðasjóðslán upp á 16,4 millur. Lauslega, miðað við fasteignaauglýsingarnar eru sambærilegar eignir (sami herbergjafjöldi og sama hverfi. meira að segja sama blokk) metnar á ca milljón undir því verði sem ég borgaði á sínum tíma. Á sama tímabili hefur vísitala neysluverðs til verðtryggingar hækkað úr 278,1 stigum í 344,5 stig. sem þýðir að lánið hefur hækkað úr 16,4 millum í 20,3 (tek ekki tillit til afborgana, enda er þar aðallega um greiðslu vaxta að ræða og höfuðstóllinn að mestu ósnertur). Semsagt búinn að greiða tæpar tvær milljónir af láninu en það hefur á sama tíma hækkað um fjórar milljónir. Ef það er ekki tær snilld veit ég ekki hvað tær snilld er.

Lánið er hærra en verðgildi eignarinnar.

Hefði Jón Jónsson keypt samsvarandi íbúð á sama verði og tekið myntkörfulán í jenum og svissneskum frönkum, eins og algengt var, upp á 16,4 millur að þávirði stæði hans lán í ca 33 til 46 milljónum króna. Allt eftir hlutfallinu milli jena og franka í körfunni.

Að því gefnu að ég og Jón Jónsson hefðum sömu tekjur og sömu útgjöld, önnur en afborganir lánanna þykir mér einsýnt að Jón stæði í talsverðu strögli. Þetta sleppur hjá mér en ekki mikið meira en það.

Við myndum síðan leita ásjár Árna Páls um niðurfellingu. Hvernig skyldi hann taka á okkar málum? Vill hann fella niður skuldir Jóns að því marki að hann geti greitt? Ætlar hann að fella niður allt umfram verðgildi húsnæðis hans? Gildir þá hið sama um mig eða þarf ég að greiða af 20,3 millunum því ég „ræð við það“?

Er ekki ráð að Árni Páll hætti að gapuxast og komi með svör? Á kannski að svæfa málið í einhverri vínarbrauðsnefndinni?

Vilji Árni Páll Árnason kalla sig jafnaðarmann, langar mig að vita hvað jöfnuður þýðir í hans huga. Að liðsinna sumum en ekki öðrum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband