Hornsteinn Íslands

Gerðist ég svo djarfur að móðga Danadrottningu opinberlega þætti mér koma til greina að biðja dönsku þjóðina afsökunar, ekki síður en drottninguna sjálfa.

Hví? Jú, ætli hún eigi ekki að heita einhverskonar sameiningartákn þjóðar sinnar og allt það. Hornsteinninn.

Hvað ef ég móðgaði framsóknarflokkinn, hvern bæði ég þá afsökunar?

Vigdís Hauksdóttir er með það á hreinu. Íslenska þjóðin skal beðin afsökunar, eins og hún leggur sig.

Það er ekkert minna! Framsóknarflokkurinn bara orðinn drottning samfélagsins. Hornsteinn þess og þungamiðja. Mikilvægari þjóðinni en sjálfur guð almáttugur, ésú og þeir allir. Jahéddnahér segi ég nú bara.

Það er aldeilis hve sumt fólk lítur stórt á sig, eða er svona veruleikafirrt. Nema hvort tveggja sé.


Vitleysingur vikunnar 2/10 - 8/10

Er Vigdís Hauksdóttir.


Reyndar skoraði landsstjórn Landssambands framsóknarkvenna hátt, en þar sem einungis einstaklingar eru kjörgengir í valinu á vitleysingi vikunnar hlotnast Vigdísi einni heiðurinn að þessu sinni.

Mér entust ekki dálkfermetrarnir sem mér eru úthlutaðir hér til að veggfóðra þetta blogg með allri vitleysu Vigdísar. Enda aðeins ein vika undir og því einungis vitleysa vikunnar sem kemur til álita. Af nógu er að taka samt.


Nú er starf þingmanns þess eðlis að viðkomandi þarf að halda ræður endrum og sinnum og á íslensku í ofanálag. Því má gera ákveðnar lágmarkskröfur um þekkingu þingmanna á íslenskri tungu.

Vitanlega má svo sem gera kröfur um almenna þekkingu líka. Í það minnsta um mál sem fólk tjáir sig um. Hvort heldur það er anarkismi eða annað. Kannski er það bara spurningin um að kynna sér mál eða máltæki, oggopínu, áður en þau eru höfð á orði.

Ég geri þá kröfu að þingmenn fari rétt með orðatiltæki í pontu, þótt innihaldið, að öðru leyti, sé steypa. Steypa er kannski lykilorðið? Stein-steypa hennar sem svo umhugað er um steina að þeir koma fyrir í öllum orðatiltækjum hennar.


Ég vil taka fram að með þessum skrifum er ég ekki að leggja Vigdísi í einelti.

Ég legg hana í steinelti.


Vitleysingur vikunnar 25/9 - 1/10

Hér eftir, svo lengi sem ég nenni, mun ég tilnefna vitleysing hverrar viku. Vikan nær frá sunnudegi til laugardags.

Fyrsti vitleysingurinn er Joð.

Hans nýjasta útspil er að bregðast við lækkandi tekjum af olíusölu, sem koma til af hærra verði, með að hækka verðið.

Í eftirfarandi texta er vitnað í frétt, svo vissara er að láta hana fylgja með.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/10/01/haekka_skatta_a_bensin/

Er þetta ekki til að toppa vitleysuna og opinbera skilningsleysi Joðs á eðli neytendahegðunar?

„Allir tekjuliðir sem tengjast eldsneyti og bifreiðum skila minni tekjum í ár en reiknað var með í fjárlögum. Samdrátturinn nemur eitthvað á annað milljarð króna. Til að bregðast við þessu verða svokölluð krónutölugjöld hækkuð um 5,1%“

Sem sagt. Minni tekjur af völdum minni neyslu, vegna of hás verðs, skal bæta með hækkun verðs. Sorrí. Ég er hvorki markaðsmógúll né jarðfræðingur, en ég tel þetta hreina snilld, eða ekki.

Í minni sveit kallaðist þetta að pissa í skóinn.


Viktoría Törudóttir (2. 4. 1991 - 23. 1. 2011) - Minning

ViktoríaViktoría Törudóttir, hefðarköttur, er látin 19 ára að aldri. Hún lést að heimili sínu, að Safamýri 35, þ. 23. janúar sl.

Hún hefði því orðið tvítug í vor.


Viktoría fæddist að Bjargtanga í Mosfellshreppi, þann 2. apríl 1991.
Viktoría var fjórburi.


Ég tók hana að mér í fóstur, barnunga.
Hún var skemmtilegur karakter. Fjörug og mjög hænd að mér.

Hún var ávallt einörð og stefnuföst og lét ekki segja sér fyrir verkum.
Sannur kjarnaköttur.

Viktoría var áhugasöm um umhverfi sitt og að kynnast heiminum.
Kannski heldur áhugasöm, enda tókst henni að týnast á gelgjuskeiðinu.
Það ævintýri hennar endaði þó vel.

Ég tók þá ákvörðun, í samráði við foreldra mína, sem ég bjó hjá á þeim tíma,
að Viktoría skyldi fá að kynnast móðurhlutverkinu í það minnsta einu sinni.

Árs gömul eignaðist hún þríbura. Faðirinn er óþekktur en ljósritunarvél þykir líklegust, þar eð afkvæmin voru nákvæmar eftirmyndir hennar.

Afkvæmunum var síðan komið í fóstur í Reykjavík, Laxárdal og Skriðdal.
Eðalgenum hennar þannig tryggð dreifing um land allt.

Um svipað leiti og Viktoría varð móðir fluttist ég úr foreldrahúsum og tóku foreldrar mínir við hlutverki tilsjónarmanna hennar.
Hjá þeim var Viktoría sátt við menn.

Ég veit ekki með Guð, þar eð við Viktoría ræddum aldrei trúmál.
Hún virtist frekar jarðbundin.

Fyrir 13 árum fluttist faðir minn, þá fóstri hennar, búferlum og Viktoría var sett í fóstur hjá systur minni að Langholtsvegi.

Viktoría lét ekki bjóða sér slíkt og tók sér á hönd gönguferð heim í Safamýrina.
Þar var henni tekið opnum örmum af fjölskyldunni á miðhæðinni, sem tók hana að sér.

Þar bjó hún, í góðu yfirlæti, allt til dauðadags.

Árið 2000 flutti ég aftur í Safamýrina. Í Safamýri 27. Þá hitti ég Viktoríu oft og þótt hún væri farin að reskjast fannst mér hún þekkja mig. Hún virtist muna eftir gamla fóstra sínum.

Árið 2002 flutti ég þaðan aftur og eftir það hittumst við sjaldan. Börnin mín hafa búið í hverfinu síðan og fært mér fréttir af henni.

Svo vill til að systurdóttir mín og sonur hjónanna á miðhæð Safamýrar 35 eru vinir. Þannig bárust mér þær fregnir, fyrir viku, að Viktoría lægi á dánarbeðinu.

Nú er hún Viktoría öll.

 

Einhvern tímann var það að ég notaði orðið „elskan" við hana. Ekki man ég kringumstæðurnar. Hvort hún stökk í kjöltu mína þar sem ég horfði á sjónvarpið, eða ég bara tók hana í fangið.

Ég man alltaf orð móður minnar sálugu, sem fannst nú ekki við hæfi að ávarpa kött á þennan hátt.

„Kallar hann ekki köttinn elskuna sína!"

Mamma var nú aldrei mikið fyrir ketti.

 

Málið er að á þessum tíma var ég frekar lokaður, tilfinningalega. Ég lærði hins vegar að tjá væntumþykju mína þegar ég sat með Viktoríu í fanginu og talaði til hennar.

Ekki ósvipuð tilfinning og þegar ég tjái væntumþykju mína við börnin mín í dag. Þótt sú tilfinning risti mun dýpra. Stigsmunur frekar en eðlismunur.

Viktoría kenndi mér að elska.

 

Viktoría mín. Takk fyrir að hafa verið til.


Bleikt.is

Á Facebook er margt um manninn. Þar hef ég megnið af mínum vinum, kunningjum, gamla skólafélaga og fjölskylduna. Svo slangur af fólki sem ég hef kynnst þar eða annarsstaðar á netinu.

Á síðunni er svokallað 'news feed' þar sem ég sé hvað Facebook-vinirnir eru að pósta hverju sinni. Oftar en ekki sér maður einhvern (les konur) pósta einhverjum linkum á greinar á bleikt.is.

Mér þykir alltaf kostulegt að lesa þær.

Bleikt.is er svona týpískur vefur fyrir týpískar konur. Þ.e. vefur fyrir konur á aldrinum 20 - 30 ára sem telja lífið snúast um að fitta inn í staðalímyndina. Líklega fyrir konur með brotna sjálfsmynd. Svona týpískar konur sem fengju að sjá undir iljarnar á mér, færu þær að leggja lag sitt við mig.

Svo ég linki eina grein þaðan. Þær eru flestar í svipuðum stíl.

http://www.bleikt.is/lesa/kaeroedaekki

Málið snýst, sem sagt, um að nota rétta ilmvatnið. Segja þetta en ekki hitt. Vera svona en ekki hinsegin. Hann á að segja þetta en ekki annað og vera svona en ekki hinsegin og bla bla bla.

Heilinn í svo miklu spinning að þær fatta ekki að málið er að vera bara þær sjálfar. Vera púkalegar, ef þær vilja. Tala tóma steypu ef þær vilja. Umfram allt, að koma hreint fram og ekki þykjast vera annað en þær eru.

Lykilsetning: „fólk fer jafnvel kannski að fara út fyrir reglurnar og kemst þá kannski að því að þau eiga engan vegin saman, eiga ekkert sameiginlegt og hefur í raun engan áhuga á hvort öðru.“

Einmitt.

Hvers vegna að sólunda hellings tíma í gervitilhugalíf, byggt á visku bleikt.is og skrúfa sig upp í einhverja staðalímynd? Komast síðan að því löngu síðar að það er ekki málið. Verða loks eðlilegur og þá kemst makinn að því að maður var feik allan tímann og lætur sig hverfa.

Betra að koma hreint fram strax. Ef draumaprinsinn- eða prinsessan lætur sig hverfa strax þá er betra að vita það, heldur en að leika eitthvert leikrit og komast að því löngu síðar, eftir að hafa sólundað tíma sínum.


gjaldeyrislánafyllerý

Það gefur löngum verið sagt að fólk skyldi ekki taka lán í annarri mynt en það fær greidd laun í.

þetta var gjarnan sagt við þá sem vildu taka lán í erlendum myntum, fyrir hrun.

Þetta er rökrétt. Hins vegar, miðað við þetta ætti enginn að taka lán. 'not so ever'

Einungis lán til skemmri tíma en 2ja ára eru veitt óverðtryggð. það er í sama gjaldmiðli og launafólk fær greitt í.

Hins vegar tekur fólk yfirleitt lán til lengri tíma, s.s. vegna húsnæðiskaupa. Þá hefur fólk ekki val um að taka lánið í sama gjaldmiðli og það fær greidd laun í.

Þarf að fá lánað í verðtryggðum krónum meðan það þiggur laun í óverðtryggðum krónum.

Það er langt í frá sami gjaldmiðill og dæmin sanna að fólk hefur farið flatt á því.


Just-in-beeper

Þjófavörnin í ár er just-in-beeper

Þú færð hljóðmerki um leið og einhver er fer inn í bílinn, bátinn, eða bókhaldið.

Just in beeper, lætur vita um leið.

 

Just-in-beeper

If your just-in-beeper beeps, just call us and we'll just be here.

Just there, and just in there, and beeping.


Hinn heilagi eignaréttur

Já, eignarétturinn er friðhelgur, samkvæmt stjórnarskrá. Eignarréttur hvers þá? míns og þíns, eða útvaldra?

Í 72. grein 7. kafla stjórnarskrárinnar segir; 
„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Þessu ákvæði stjórnarskrárinnar beita lífeyrirssjóðirnir fyrir sig í umræðunni um leiðréttingu skulda heimilanna.

Þá vísa þeir til þess að verðbætur hafi fært þeim eignir sem varðar eru af ofantöldu ákvæði. Annað komi ekki til tals, þar sem m.a. hefur verið rætt, til dæmis, að færa vísitölu neysluverðs aftur til 1. jan. 2008. Skilningur lífeyrissjóðanna er að það væri eignaupptaka. Verðbæturnar hafi skapað þeim eignir, verndaðar af stjórnarskrá.

Eignir til komnar vegna verðbóta.

Verðbætur reiknast út frá verðlagi varalita, ilmvatna, áfengis, tóbaks, sem og fleiru. Eiga að endurspegla verðlag á markaði en án tillits til hvernig verðlagið kemur til. Olís hækkar álagningu á bensín = lánin hækka, þrátt fyrir að grundvöllur lánveitendans og lántakans breytist ekki. Það sér hver heilvita maður að þetta er tómt rugl.

Hvað eru verðbætur? Sýndarpeningar. Eignir lánþega eru færðar til lánveitenda samkvæmt ákveðnum reglum. Eigið fé fólks, er étið upp af lánveitendum. Hvað er það annað en hrein og klár eignaupptaka?

Lífeyrissjóðirnir berjast nú með kjafti og klóm að halda þýfinu hjá sér. Halda þeirri „eign“ sinni sem verðtryggingin hefur veitt þeim. Fyrr mun frysta í helvíti áður en þeir verða tilbúnir að gefa eftir eitthvað af þeim sýndarpeningum sem verðbæturnar eru.

Brýtur það ekki í bága við 72. gr. 7. kafla stjórnarskráarinnar að hægt sé, með markvissum hætti, að færa eignir lánþega yfir til skuldara, í skjóli laga um verðtryggingu?


Eru lög um verðtryggingu í samræmi við stjórnarskrá?


Ég held ekki.


Snilldarlegur leiðarvísir umboðsmanns skuldara

Á vef umboðsmanns skuldara er að finna leiðavísi vegna greiðsluerfiðleika. Þar er spurt hvort maður geti greitt alla reikninga sína í hverjum mánuði og svarmöguleikarnir eru tveir. Nei og já.

 ums1

Sé maður í basli og velji nei, fylgja aðrar spurningar á eftir. Sé maður hins vegar í góðum málum og velji já, þá birtist þessi gluggi:

ums2

Þetta er hrein snilld!

 

Ég legg til að SÁA setji samskonar könnun á sinn vef. Spurningin gæti verið eitthvað á þessa leið:

„Kemur fyrir að þú neytir áfengis eða annara vímugjafa?“

Svarmöguleikarnir, já og nei.
Velji maður já, fylgi ítarlegri spurningar í kjölfarið. Velji maður nei, birtist textinn:

„Miðað við upplýsingarnar sem þú settir inn getur hentað þér að fá áfengis- og vímuefnaráðgjöf.“

 


Skór

Smá pæling hér.

Nú eru konur, upp til hópa, uppteknar af skóm.

Meðan karlmenn kaupa sér einhverjar tækniafurðir, eða gott viskí og koníak, kaupa konur sér skó.

Það er eitthvert órjúfanlegt tilfinningasamband milli kvenna og skóa.

Svo virðist sem þetta búi í genum og litningum þeirra, kvenna.

En.

Hvernig ætli þetta hafi verið fyrir 300, 500 eða 1000 árum síðan, þegar skóbúðir voru ekki til og einu skórnir voru heimasmíðaðir sauðskinnsskór.

Hvert skyldi hafa verið blæti íslenskra kvenna þá?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband