Laugardagur, 2. október 2010
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar
Norræna velferðar- og skjaldborgarríkisstjórnin bjó svo um hnútana að nýju bankarnir högnuðust á hruninu á kostnað almennings.
Hvað hefur ríkisstjórn JoðHönnu gert fyrir almenning?
Þegar ég las fyrirsögn þessarar fréttar hugsaði ég Nei. Ekki meira.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til handa fólki í skuldavanda hafa ekki verið upp á marga froska. Margar segja sumir. Fáar segja aðrir. Fyrir mér hafa þær í senn verið nokkrar en þó engar.
Ríkisstjórnin hefur boðið leiðir fyrir fólk sem komið er fram á hengiflugið og einungis þá. Hinir, sem enn hafa möguleika á að forðast hengiflugið, verða að bíða þar til þeir eru komnir að hengifluginu.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa nefnilega á engan hátt stefnt að því að forða fólki frá hengifluginu.
Svo ég taki líkingu af manni sem til stendur að taka af lífi.
Ríkisstjórnin myndi ekkert reyna til að koma í veg fyrir aftökuna, sem væri í raun eina almennilega aðgerðin. Hún býður hins vegar manninum að velja milli mismunandi aftökuaðferða. Mismunandi leiða til langs og hægfara dauðdaga í stað þess að fá kúlu í hausinn. Í þeirri von að vinna honum tíma (?!). Jú það er alltaf von til þess að manni sem fláður er lifandi, hægt og rólega, verði óvænt bjargað af Superman. Maðurinn mun þó alltaf standa eftir mikið laskaður. Halffláður.
Þetta eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem eru þó engar aðgerðir.
Auðmenn græða á uppboðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 23. september 2010
Enn um verðtryggingu
Ég þreytist seint á að bölsótast út í verðtrygginguna. Enda lít ég á hana sem eignaupptöku í boði ríkisins.
Rökin fyrir henni eru að raunvirði peninga skuli halda sér.
Hvert er hins vegar raunvirði peninga og hvernig ber að reikna það?
Í hinum siðmenntaða heimi ákvarðar gengi gjaldmiðla verðgildi þeirra. Einn gjaldmiðill getur hækkað eða lækkað gagnvart öðrum og hefur það þar af leiðandi áhrif á verð varnings sem keyptur er frá einu gjaldmiðilssvæði til annars.
Þannig að ef Evran lækkar meðan Dollarinn hækkar ættu vörur keyptar frá Evrusvæðinu að lækka í verði meðan bandarískar vörur hækka, og öfugt.
Verðtryggingin byggir á vísitölu neysluverðs, reiknaðri af Hagstofu Íslands. Hún er reiknuð út frá mörgum vöruflokkum, sem væntanlega eru keyptir hvaðanæva að.
Búum til einfalt dæmi þannig að vísitala neysluverðs byggi einungis á verði á Chanel ilmvötnum, sem eru frönsk.
Falli Evran gagnvart Krónunni lækkar vísitalan, þar eð inkaupsverð ilmatnanna lækkar, en hækkar að sama skapi hækki Evran. Verðið á Chanel ilmvötnunum í Krónum talið mun breytast eftir því.
En jafnframt, þótt gengi Evrunnar og Krónunnar breytist ekki, en Chanel ákveði að hækka verðið á sínum ilmvötnum hækkar vísitalan samt. Þrátt fyrir að gengi Krónunnar gagnvart Evru hafi ekki breyst. Því vísitalan miðar einungis við verð vörunnar, án tillits til gengis.
Þannig að jafnvel þótt gengi Krónunnar væri stöðugt, eða styrkist, þá hækkar vísitalan svo lengi sem innkaupsverðið hækkar.
Hvaða heilvita manni datt þetta í hug?
Samt fékk einhver þá hugmynd að skilgreina verðgildi krónunnar þannig að miðað yrði við verð innfluttra vara.
Vísitalan er þó samsett úr fleiri vöruflokkum. Súkkulaði, tannkremi, smokkum og tóbaki, ásamt ýmsu fleiru. Hver maður verður að sætta sig við hana, þótt hann kaupi aldrei neitt af því sem notað er til viðmiðunar.
Þar af leiðir að ef arabarnir í Asíu ákveða að hækka olíuna, eða þegar Chanel hækkar verð á sínum ilmvötnum fellur krónan í verði. Eins ef einhverjir miðlarar á Wallstreet fá kvíðakast sem leiðir til breytts verðs á hinum og þessum vörum, breytist skilgreint verðgildi krónunnar þótt gengi hennar breytist ekki.
Þetta er absúrd.
Láni ég vini mínum bokku, geri ég þá kröfu að fá borgað í sama. Mér er slétt sama hvort bokkan hafi hækkað eða lækkað í verði, í Krónum. Ég get hinsvegar ákvarðað vexti. Skilgreinda fyrirfram.
Láni ég þessum sama vini Krónur, geri ég þá kröfu að fá borgað í sama. Mér er slétt sama hvort Krónurnar hafi hækkað eða lækkað í verði, Í bokkum. Að sama skapi get ég tilgreint vexti.
Málið er að verðgildi hluta hvort heldur það eru peningar eða annað er óskilgreint. Verðgildið verður aðeins til þegar skipta á einum hlut í annan. Það kallast gengi. Krónan hefur ekkert verðgildi í sjálfu sér. Það er ekki fyrr en maður vill skipta henni yfir í eitthvað annað sem verðgildið verður til.
Nú er Krónan verðtryggð. Í það minnsta þegar kemur að fjárhagslegum skuldbindingum. Hvað varðar laun er hún óverðtryggð.
Helstu rök þeirra sem styðja verðtrygginguna eru þau að hún komi í veg fyrir rýrnun lífeyris fólks.
Ok. Fyrir 30 árum plús, var verðbólgubál sem át upp sparnað fólks, sem og gerði lán að litlu sem engu. Þar er um að kenna íslenskri hagstjórn, sem sjaldan hefur verið upp á marga froska. Þá var verðtryggingunni komið á til að plástra skítinn.
En OK. Segum sem svo að verðtryggingin sé nauðsynleg. Hví gildir hún þá bara sumsstaðar?
Kaupi ég mér hlutabréf sem hafa verðgildi í Krónum eru þau óverðtryggð.
Sem dæmi. Ég tek bankalán upp á milljón til að kaupa hlutabréf upp á milljón, síðan fellur Krónan 50% í verði. Þá sit ég uppi með bréf sem hafa helmingi lægra raunvirði en þegar ég keypti þau. Á sama tíma tvöfaldast lánið sem ég tók fyrir þeim. Ég skulda 2 milljónir vegna kaupanna.
Þetta er sama dæmi og húsnæðisaupendur hafa upplifað.
Verðtryggingin hækkar ekki, eða lækkar, verð hlutabréfanna, né heldur verð fasteignanna. Hún ver aðeins þá sem lánuðu Krónurnar. Fjármagnseigendur. Á alþýðumáli kallast það að hafa belti og axlabönd.
Eins og ég gat að framan eru helstu rök þeirra sem aðhyllast verðtryggingu þau að hún verji sparnað almennings.
Nú er það þannig að lífeysissjóðir ávaxta sig með allskyns skulda- og hlutabréfakaupum. Sé tap á rekstri sjóðsins fá sjóðsmeðlimir kurteislega tilkynningu um að lífeyrir þeirra skerðist að sama skapi.
Hins vegar sé hagnaður á rekstri sjóðsins fá sjóðsmeðlimir ekki tilkynningu um aukinn lífeyri. Nei, gróðanum er spanderað í laun háttsettra og kannski betri vínarbrauð á stjórnarfundum. Sjóðsmeðlimir fá ágóðann ekki í sinn vasa.
Hví þarf verðtryggingu til að verja lífeyrissjóði sem hafa skotsilfur til að fjárfesta í milljarðadæmum?
Verðtrygging er slæmur plástur á vonda hagstjórn. Þeir sem vilja viðhalda henni hljóta, eðli málsins samkvæmt, að aðhyllast vonda hagstjórn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 22. ágúst 2010
Vinir og vandamenn
Viðtengd frétt er svona týpísk vina og vandamanna.
Síungir silungar er félagsskapur einhverra kumpána úti í bæ, hver hvorki ég né landsmenn aðrir hafa heyrt af. Það er til fullt af slíkum félögum. Sjálfur á ég aðild að nokkrum.
Þótt einhverjum detti í hug að sprella með félögum sínum þykir það ekki tiltökumál og því síður efni á forsíður fréttamilða.
Hví ratar frétt af sprelli manna úti í bæ á mbl.is?
Jú, fréttaritari mbl er meðlimur sprellsins og þurfti í gúrkutíðinni að skrifa eitthvað.
Ég vonast til að fá fleiri fréttir. Til dæmis af inniskóm Hannesar Hólmsteins eða af einhverju skemmtilegu sprelli í Kópavogi.
Vissi að það kæmi eitthvað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. ágúst 2010
Hýenufréttamennska
Lögregla rannsakar nú þann hörmulega atburð er átti sér stað um helgina, hvar maður var sviptur lífi sínu.
Án þess ég sé einhver sérfræðingur í framgangi slíkra rannsókna, þykir mér eðlilegt að litið sé til þeirra sem með einhverjum hætti tengjast fórnarlambinu. Oftar en ekki eru gerendur í slíkum málum tengdir fórnarlömbum sínum með einhverjum hætti.
Í gær tók lögreglan ungan mann til yfirheyrslu. Milli hans og hins látna voru tengsl sem lögreglunni hefur þótt ástæða til að skoða nánar. Ástæða þótti til að hafa hann í haldi þar til yfirheyrslum lauk. Það er ekki það sama og að hann hafi haft réttarstöðu grunaðs. Ég hef reyndar ekkert heyrt um að svo hafi verið og legg því út af því að hann hafi haft réttarstöðu vitnis þar til annað kemur í ljós. Maðurinn var ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hvað sem síðar kann að verða skal viðkomandi teljast saklaus í þessum skrifuðu orðum.
Þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir annað en að lögreglan hafi aðeins verið að skoða lausa enda í málinu, sáu a.m.k. þrír fjölmiðlar, DV, Pressan og Eyjan ástæðu til að nafngreina þann sem yfirheyrður var, ásamt myndum og fleiri atriðum. S.s. hvað hann setti í facebook-status og ábendingar um myndbrot sem hann setti inn á Youtube í fyrra.
Hverskonar fréttamat liggur að baki slíku er mér algerlega óskiljanlegt. Maðurinn var einungis í yfirheyrslum. Ekkert gæsluvarðhald. Hvað þá ákæra. Hver er fréttin við að einhver sé yfirheyrður þegar slík rannsókn er í gangi? Ég las ekki alla fjölmiðla heimsins, en í það minnsta sáu Mbl og RÚV sóma sinn í að birta hvorki nafn né mynd.
Seinni partinn í dag, eftir að yfirheyrslum lauk og viðkomandi hafði verið látinn laus, renndi ég yfir nokkra facebook-veggi hvar umræður um málið voru í fullum gangi. Á einum veggnum, hvar veggeigandi og blaðamaður DV hafði birt mynd af hinum yfirheyrða, svarar Reynir Traustason gagnrýni á nafn- og myndbirtingarnar með þessum orðum;
Fyrst:
Áhugaverð umræða. Sorpkjaftar stíga á stokk og krefjast þagnar. Þetta er eins og hjá Biskupsstofu.
Síðan:
Það er nákvæmlega ekkert sagt í fréttinni annað en þessi tilgreindi maður er í gæsluvarðhaldi. Hann er grunaður. Fréttin er sú en ekkert fram yfir það. Þeir sem gagnrýna þá fréttamennsku vilja væntanlega háklfkveðnar vísur á borð við að æskufélagi unnustunnar sé í haldi. Kannski má heldur ekki fjalla um mál af þessari stærðargráðu. Við eigum að þegja um það sem óþægilegt er.
Að lokum:
Umræðan um nafnbirtingar hefur staðið í áraraðir. Hreinlegast er að nafngreina menn undir langflestum kringumstæðum í stað þess að benda á hóp manna með því að þrengja hringinn. Ef ekki er hægt að nafngreina af einhverjum ástæðum verða menn að láta sér nægja að segja aldur og kyn einstaklingsins sem í hlut á. Ef hinir ásökuðu reynast vera saklausir eftir að hafa verið hnepptir í varðhald er algjörlega nauðsynlegt að láta slíkt koma fram með skýrum og áberandi hætti. Við höfum óteljandi dæmi um hræsnisfulla fjölmiðla sem hafa bent á þröngan hóp manna og boðið almenningi að velja meintan sökudólg.
Reynir vill sem sagt skjóta fyrst og spyrja síðan. Með orðunum Hreinlegast er að nafngreina menn undir langflestum kringumstæðum í stað þess að benda á hóp manna með því að þrengja hringinn geri ég ráð fyrir að hann eigi við að betra sé að nafngreina en að segja aðeins frá tengslum viðkomandi við hinn látna. Málið er hins vegar að engin ástæða var til að segja svo mikið sem frá tengslum viðkomandi við hinn látna, þar eð einungis var um að ræða yfirheyrslu. Yfirheyrslurnar í málinu eru/verða örugglega miklu fleiri. Það er engin frétt að maður sem tengist hinum látna sé yfirheyrður. Það er common practice. Þarna náði Reynir ágætis skitu. Reynir 1, mjóbak 0.
Ég renndi yfir annan facebook-vegg, hvar veggeigandi skrifaði; finnst DV á næfurþunnum ís, jafnvel í krapinu, að birta nafn og mynd af grunuðum manni í morðmáli, áður (og ekki öruggt að verði) en játning liggur fyrir. Ekki fréttamennska sem er mér að skapi..
Þar svaraði Jónas Kristjánsson;
Fyrst:
Í stað þrengingar eiga að koma nöfn og myndir. Það er ekki dómur, bara frétt. Nöfn og myndir hindra, að óviðkomandi fólk sé í kjaftasögum. Yfirleitt hindra fréttir kjaftasögur. Nafnbirting mannsins var rétt og siðleg afgreiðsla.
Síðan:
Frá tíma Ísafjarðarperrans hafa skoðanir mínar harðnað. Ég tel, að sakamál eigi að vera opinber eins og fjármál. Hrunið leiddi mig að þeirri niðurstöðu, að leyndó sé forsenda ógæfu Íslendinga. Áherzla þjóðarinnar á leyndó gegnum tíðina er að mínu viti sjúkleg.
Þar næst:
Fréttir eru ekki ígildi neins, til dæmis ekki sektar. Fréttir eru bara fréttir, tilraun til endurspeglunar sannleikans.
Að lokum:
Satt að segja veit ég ekki um fréttalegar forsendur málsins. Almennt finnst mér bara, að eftir hrun ættu menn að vera farnir að átta sig á, að satt má ekki kyrrt liggja.
Þarna slær Jónas Reyni algerlega út. Jónas 3, herðablöð 0. Þarna talar hann um Ísafjarðaperrann sem reyndist síðan ekki vera meiri perri en Jónas sjálfur. Saklaus. Þar kvittar Jónas undir blæti sitt á nornaveiðum. Eða eins og Reynir; Skjótum fyrst. Skítt með saklausan mann fyrir vestan. Ráðumst á þann næsta. Ekki bara að hann leggi að jöfnu umræðu um fjármál og mannorð fólks, eins ómerkilegt og það nú er, heldur klykkir hann út með þeirri steypu að segja; Nöfn og myndir hindra, að óviðkomandi fólk sé í kjaftasögum. Yfirleitt hindra fréttir kjaftasögur. Ég get alveg sagt honum Jónasi að það þarf hvorki nöfn né myndir í fjölmiðlum til að óviðkomandi fólk verði fyrir kjaftasögum. Ég þekki það á frá fyrstu hendi. Þarna gerir Jónas snilldarlega það sem hann gerir best og ég kalla (háttprúðir sleppi restinni og færi sig að næstu greinarskilum) að tala með rassgatinu.
Þarna tala tveir menn sem lifa og hrærast í fjölmiðlum og lesa sjálfsagt upp allar fréttir sem birtast, enda báðir blaðamenn. Villa þeirra er hins vegar sú að halda alla aðra vera eins og þeir sjálfa. Fjöldi fólks sýnir fréttum lítinn áhuga. Áhugaleysið eyks eftir því sem fólk er yngra. Stór hluti þjóðarinnar gefur lítið fyrir þjóðfélagsumræðuna, sér í lagi yngra fólk, en þegar stórar fréttir dúkka upp, svona eins og flennisttórar myndir af meintum morðingjum, fær það veður af því. Frétt eins og sú að hinn myndbirti hafi verið látinn laus er ekki eins krassandi og fer ekki eins hátt. Því fullyrði ég það að í þessum skrifuðu orðum eru margir sem standa í þeirri trú að hinn myndbirti sé sekur.
Hinn myndbirti er rétt liðlega tvítugur. Það getur ekki kallast hár aldur og varla eru vinir hans, félagar og aðrir jafnaldrar hans jafn tjóðraðir við fréttajötuna og Jónas. Því er líklegra að stærri hópur hans (hins yfirheyrða) jafnaldra standi enn í þeirri trú að hann sé sekur þótt Jónas telji annað. Enda fólk á Jónasar reki, sem löngu er komið af léttasta skeiði, gjarnan duglegra að japla úr fréttajötunni. Kannski einhverjir hafi gleymt hvernig er að vera ungmenni og að lifa í samfélagi ungmenna. Líklega eykst sú gleymska með aldrinum. Ég man það þó þokkalega og unglingarnir, börnin mín, hjálpa mér að viðhalda þeirri minningu.
Já, ég sagðist þekkja mátt kjaftasagnanna frá fyrstu hendi.
Þegar ég var 15 ára tók ógæfusamur jafnaldri minn líf annars jafnaldra okkar. Aldrei lék vafi á hver gerandinn var, enda var hann handsamaður á vettvangi. Þrátt fyrir það þurfti ég að þola margra vikna athugasemdir vegna þess eins að ég líktist gerandanum að einhverju leiti í útliti. Þannig er ungmennasamfélagið sem ritstjórinn góði þekkir ekki eða er búinn að gleyma. Það var þó hvergi birt mynd af mér né nafn. Líklega hefði einhver hýenan viljað gera það. Ekki veit ég hvort blóðbragð fannst á ritstjórnarskrifstofu DV í þá tíð, hvers umræddur matgæðingur stýrði. Kjaftasagan lifði góðu lífi lengi eftir að öllum átti að vera ljósar staðreyndir málsins. Gerandinn var ólögráða og þ.a.l. voru hvergi birta myndir né nöfn. Ég þakka því fyrir að hafa sloppið við ótímabærar og innihaldslausar aftökur matgæðingsins. Kjaftasagan er nefnilega þannig að hún öðlast líf í þriðju kynslóð. Ég hefði haldið að lífshoknir menn eins og ritstjórarnir vissu það.
Fyrsta kynslóð, A við B: Var það þessi sem gerði þetta?
Önnur Kynslóð: B við C: Ég heyrði að þessi hefði gert þetta.
Þriðja kynslóð. C við D: Það var þessi sem gerði þetta.
Þar með hefur kjaftasagan öðlast eigið líf og gapuxar eins og Jónas og Reynir geta ekkert gert nema kannski að slá sér á brjóst fyrir að hafa skapað hana.
Þeir félagar hafa örugglega eitthvað til síns ágætis, s.s. hattaburð og matarát. Kannski málið að menn haldi sig við það sem þeir kunna best.
Um gapuxa þjóðarinnar hef ég eitt að segja: When you talk like an idiot, and you act like an idiot, you become one.
Maðurinn látinn laus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. ágúst 2010
Skattablæti
Joð, skattablætisráðherra, hefur kynnt hugmyndir sínar um auknar skattaálögur.
Dauðaskattur verður hækkaður til muna, enda þykir ótækt hve dautt fólk sleppi vel undan skatti og ótækt að þeir sem eftir sitji, eftir að fólk tekur upp á því að drepast, skuli fá erfðagóssið upp í fangið án verulegrar aðkomu ríkisins.
Annar tekjustofn hefur ennfremur verið í skoðun. Fæðingarskattur. Enda þetta tvennt sameiginlegt með öllum mönnum, fæðingin og dauðinn.
Hið þriðja sem þykir eins víst og fæðingin og dauðinn er skatturinn. Því þykir það álitlegur kostur að skattleggja skattinn.
Ætla að hækka skatta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. ágúst 2010
Nýtt flugfélag
Tilkynnt var um samruna tveggja stærstu flugfélaga Íslands í gærkvöldi. Icelandair og Iceland Express.
Hlutabréf hækkuðu ekki fyrir vikið en samlokurnar um borð hafa hækkað í fimmhundruðkall.
Sammælst var um að taka mið af mismun nafna félaganna við smíði nafns á nýja félaginu; Air og Express. Taka þar með Iceland út úr myndinni.
Nýja félagið heitir Ass.
LAN og TAM að sameinast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. ágúst 2010
Svíþjóð AA land
Svíþjóð hefur, fyrst ríkja, tekið upp opinbera stefnu AA samtakanna.
Hér eftir verður aðeins boðið upp á límonaði í opinberum veislum ríkisins, sem og fjárlög einungis samin til eins dags í senn. Eða eins og forsætisráðherrann segir Við tökum bara einn dag í einu.
Svíþjóð AAA land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 4. ágúst 2010
Staðfesting frá fyrstu hendi
Aðspurður, staðfesti Narfi Garðarsson að féttin sé á rökum reist.
Konur laðast að rauðum körlum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. ágúst 2010
Hversu original?
Oft heyrir maður ný lög sem maður telur sig hafa heyrt áður.
Kannski er ég fimm árum of seinn með þessa færslu, því ég ætla að fjalla um lag sem kom út árið 2005.
Lagið heitir Talk og er flutt af hljómsveitinni Coldplay. Flott lag. Spurning þó hvort þeir hafi tekið sér lagið að láni.
Hlustum fyrst á lagið Computer love, með Kraftwerk, sem kom út árið 1981. Síðan á Talk með Coldplay, sem kom úr árið 2005.
Dæmi hver sem vill.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 1. ágúst 2010
Lágdeyða í Eyjum
Það er hið besta mál að hátíðahöldin í Herjólfsdal hafi farið að mestu vel fram. Ein og ein meiriháttar líkamsárás, en þó ekki alvarleg (!?).
Ég hef alltaf undrast yfir Þjóðhátíðar-hæpinu. Sem unglingur man ég eftir því hvað fólki fannst Þjóðhátíð vera æðisleg. Svo kom að því að ég lét til skarar skríða og skellti mér. Hafði þá áður ynnst hátíðahöldum í Þjórsárdal og Húsafelli, hvar ávallt var eitthvað um að vera á sviðinu/sviðunum. Man að í Þjórsárdalnum lá dagskráin niðri í klukkutíma á sólarhring, milli 7 og 8 á morgnana minnir mig. Enda væntanlega flestir þá í fastasvefni hvort eð er.
Svo mætti ég, ásamt félaga mínum, á Þjóðhátíð með miklar væntingar um fjör. Komum á föstudagskvöldi og þá var fjörið byrjað og hljómsveitir að spila á sviðinu. So far so good.
Þegar vaknað var á laugardagsmorgni, líklega upp undir hádegi, var hins vegar dalurinn steindauður. Ekkert um að vera á sviðinu og dalurinn hálf tómur. Heimamenn farnir heim til sín, úr hvítu tjöldunum. Eftir að hafa vafrað þarna um tóman dalinn ákváðum við félagarnir að labba inn í bæ og fá okkur að borða og svo var að sjá að flestir hátíðargestir hafi gert slíkt hið sama, enda ekkert við að vera í dalnum nema kannski að sitja utan við tjaldið og glamra á gítar, en engann höfðum við gítarinn meðferðis.
Undir kvöld fór síðan að lifna yfir dalnum á ný, en sagan endurtók sig síðan á sunnudeginum. Steindauður dalur.
Í minningunni situr þetta helst eftir, lágdeyðan. Fjörið á kvöldin var svo sem ágætt, en ekki neitt meira eða merkilegra en ég hafði áður upplifað í Þjórsárdalnum og Húsafelli.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég opnaði vefmyndavél mbl, á sviðinu í Herjólfsdal og sýnir svæðið fyrir framan og brekkuna. Ég fylgdist með henni í smá stund og sá á þeim tíma þrjár manneskjur ganga fram hjá sviðinu. Síðan eftir einhverja stund gengu sömu þrjár manneskjurnar til baka. Þetta er allt fjörið í Herjólfsdal um kl. 14 á sunnudegi.
Fylgjast má með vefmyndavélinni hér.
Óvenju þægir þjóðhátíðargestir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 2.8.2010 kl. 06:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)