Föstudagur, 22. janúar 2010
Réttlæti, sanngirni og heiðarleiki
Er ekki yndislegt að vera íslenskur ríkisborgari? Réttara sagt íslenskur gjaldborgari.
Nú er búið að bjarga fjármagnseigendum fyrir horn. Já og bönkunum. Bönkunum sem á sínum tíma veittu lán á útsölu og lánakjör sem áður ekki buðust. Ódýr lán, að því fólk hélt, sem almenningur nýtti sér til að greiða upp önnur og óhagstæðari lán. Lánakjör sem gerði fólki kleift að kaupa sér viðunandi húsnæði í stað þess sem skammtað var úr hnefa Íbúðalánasjóðs. Svo ég tali ekki um Verkamannabústaðina sálugu. Í nokkur ár lifði almenningur í þeirri trú að hann hefði gert sæmilegan díl og allir voru djollí.
Svo gerist að alltíeinu og obbossí, krónan fer að falla. Á þriggja mánaða fresti, árið 2008. Merkileg tilviljun hvað það hélst í hendur við ársfjórðungsuppgjörin. Stórmerkileg tilviljun. Allt í einu voru góðu ódýri lánin orðin stökkbreyttari en Teenage Mutant Ninja Turtles. Ekki síst erlendu myntkörfulánin sem reyndust svo ekki erlendari en Jón Sigurðsson, forseti. Aftanítakan á krónunni varð ekki bara til að hækka þau, heldur einnig lánin sem tryggð eru með svokallaðri verðtryggingu. Gegn um hækkandi verðlag.
Mikið er ég glaður að bönkunum hafi verið bjargað. Auðvitað erum við tilbúin að horfa fram hjá hverjir báru ábyrgðina á ódýru lánunum og stökkbreytingu þeirra. Er það ekki?
Reyndar má færa fyrir því rök að verðtryggingin sé réttlát, þar eð hún virki jafnframt á innlán í bönkunum. Þó er annar stór munur á réttindum þeirra sem lána bönkunum, með innlánum og þeirra sem fá lánað hjá bönkunum.
Sá sem leggur inn pening í banka lánar bankanum pening. Hann hefur enga tryggingu aðra en tryggingasjóð innlána fyrir að fá peningana sína til baka, eða réttara sagt lágmarksupphæð. Viðskiptamaður banka gæti aldrei sótt meira en það frá bankanum, eða þrotabúi hans.
Reyndar, í dag, með undantekningu neyðarlaganna eiga allar innlánstryggingar að vera tryggðar upp í topp. Neyðarlaganna sem almenningur nú bítur úr nálinni með, með Icesafe veseninu.
Hins vegar getur banki farið fram á veð fyrir því sem hann lánar út. Veð sem er í raun sýndarveð, því bankinn getur gengið að skuldaranaum langt umfram hið gefna veð. Fram á grafarbakkann og umfram það. Bankinn getur gengið að eignum sem aldrei komu til álita eða umræðu við lántökuna. Því síður að í þeim væri bundið veð. Eigandi innláns getur á hinn bóginn ekki gert slíkt gagnvart bankanum. Farið fram á að bankinn leggi fram veð fyrir innláninu. Hví ætti einhver ekki, á sama hátt, að geta krafið bankann um veð fyrir innláni? Spurning um að setja á stofn tryggingasjóð útlána og leggja af öll veð.
Nei bankarnir hafa lögbundin belti, axlabönd, kút og kork. Á meðan skuldarinn hefur í mesta lagi loftlausan kút.
Jafnræði? Einmitt.
Talað var um nýtt Ísland og að reisa ætti skjaldborg. Í raun hefur bara gamla rotna Ísland verið endurreist, með sínu maðkétna kerfi, klíkum og spillingu (eigum við að ræða Landsbankann?) og í stað skjaldborgar var reist myndarleg gjaldborg.
Ákveðið var að spóla bara til baka og spila sama gamla spillingarlagið aftur, í stað þess að setja eitthvað nýtt, ferskt og frumlegt á fóninn. Svona eins og í súru partýi þar sem allir eru nærri brennivínsdauða og í stað þess að slútta partýinu er opnuð enn ein flaskan og haldið áfram að sukka.
Réttlæti, sanngirni og heiðarleiki eiga að kallast hugtök. Á Íslandi eru þau hinsvegar einungis merkingar- og innihaldslaus orð.
Ómerkingar.
Ómerkingar eins og þeir einstaklingar sem töluðu um nýtt Ísland og skjaldborg um heimilin. Einstaklingar sem telja ekki í mannlegum mætti að vera menn orða sinna.
Athugasemdir
Góður pistill. Þú sýnir hér vel það hrópandi óréttlæti sem átt hefur sér hér stað.
Hve lengi ætlum við að sætta okkur við ruglið ?
hilmar jónsson, 22.1.2010 kl. 21:24
mælirinn er að fyllast
Brjánn Guðjónsson, 23.1.2010 kl. 00:55
hann fylltist hjá mér mælirinn fyrir nokkrum árum.. svo ég bara fór því ísland á sér ekki bjargar von..
Óskar Þorkelsson, 23.1.2010 kl. 10:27
Skari. Hvernig eru mælarnir í Noregi?
Brjánn Guðjónsson, 23.1.2010 kl. 14:33
hér eru mælarnir bara rólegir :) ef menn hafa vinnu þá er noregur auðveldur til að lifa í.
Óskar Þorkelsson, 24.1.2010 kl. 18:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.