Hvað er Best?

Nú eru aðeins tveir dagar til kosninga. Samkvæmt könnunum er útlit fyrir að ríkjandi meirihlutar munu falla víða. Ss. á Ísafirði, Akureyri og í Reykjavík.

bestiSamkvæmt könnunum mun Besti flokkurinn verða sá stærsti í Reykjavík og hugsanlega ná hreinum meirihluta. Þó verður að taka tillit til þess að um 40% virðast enn vera óákveðin og hætt við að einhverjir muni guggna í kjörklefanum og kjósa ekki eftir sannfæringu sinni, heldur af gömlum vana. Af því pabbi vildi það.


Eftir því sem fylgi Besta flokksins hefur mælst meira í könnunum hefur örvænting þeirra sem telja sig eiga einkarétt á stjórnmálum aukist.

Hafa þeir, ásamt skósveinum sínum, keppst við að reyna að gera Besta flokkinn ótrúverðugan. Hafa sagt hann ekki vera „alvöru“ stjórnmálaflokk. Hvað er „alvöru“ stjórnmálaflokkur? Varðandi þá spurningu vísa ég á síðasta pistil minn.


Ég ætla ekki að velta frekar fyrir mér hvað er alvöru og hvað ekki. Fólk er alvöru. Svo einfalt er það.

En er allt fólk trúanlegt og traustsins vert?

Sumir hafa vísað í kosningamál Besta flokksins sem merki um alvöruleysi og ótrúverðugleika. Ísbirni og íkorna, sem dæmi. Fólk sem líður greinilega betur með að vera svikið um loforð sem hljómuðu trúverðug og vöktu hjá þeim væntingar, heldur en loforð sem hver heilvita maður gerir engar væntingar til og er slétt sama hvort verða svikin eða ekki. Í því liggur háð Besta flokksins, að gefa loforð sem vitanlega verða svikin en allir vita hvort eð er að verða svikin, nema hinir últraferköntuðu. Trúum við og treystum þeim gapuxum sem hafa hagað sér eins og raun ber vitni, síðustu fjögur ár? Ekki ég. Mér þykir heldur ekki froðusnakk þeirra nú sérlega trúverðugt. Só sorrý.

Reyndar nefndi oddviti framsóknarmanna í þætti Sölva Tryggvasonar að jafn mikið kosti að búa til gervisnjó í Bláfjöllum og að útbúa aðstöðu fyrir ísbjörn. Kannski bara málið að sjóða báðar hugmyndirnar saman. Búa til gervisnjó í Bláfjöllum og sleppa ísbirninum þar? Enda kjöraðstæður fyrir ísbirni að spóka sig um í snjó.

allskonar

Þegar öllu er á botninn hvolft er liðsfólk Besta flokksins fólk eins og ég og þú og ekki síður til þess bært að stjórna borginni en áskriftapólitíkusarnir, nema síður sé. Besti flokkurinn hefur birt aðgerðaráætlun sem felur í sér allskonar nýjungar. Sem er nákvæmlega það sem við þurfum. Nýjungar í hugsun og gjörðum.


Ég vil gera lokaorð Sigurjóns M. Egilssonar, í pistli hans Besta leiðin, að mínum;

„Nei, fólk virðist vilja Besta flokkinn frekar en hina. Þykir hann betri kostur. Þrátt fyrir djókið, en ekki vegna þess.“

Hugsum út fyrir kassann. Stígum út úr þægindahringnum og þorum að breyta til! 

Þá mun Reykjavík Æ vera Best.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála !!  Fólk er svo hrætt og með svo mikla fordóma gagnvart þessu framboði.  Sumir þora t.d. ekki að stíga fæti inná skrifstofu Jóns Gnarr eða eru öllu heldur of stoltir til að gera það.  Hafa alltaf kosið íhaldið eða e-ð annað og vita ekki hvað gæti gerst ef þeir svo mikið sem gæjast útúr kassanum eða kíkja innum gluggann hjá Gnarr.   Það gæti orðið hættulegt enda maðurinn stórskrítinn að mati sumra.  Hann er alltaf að grínast e-ð og ekkert að marka hann

Varðandi hugmyndina með Bláfjöll og ísbjörninn þá er hún stórfengleg :D Mér sem skíðakonu þætti það ekki leiðinlegt að sleða fram hjá fallegum birni eða birnu og gauka kannski að honum góðgæti :D.  Kjörið !!

Ég segi bara áfram duglega og skemmtilega fólk sem skipar Besta flokkinn.  Þau eiga hrós skilið og eru fyllilega traustins verð.  Hef ekki áhyggjur af borginni í þeirra höndum.  Alls ekki

Jóka (IP-tala skráð) 27.5.2010 kl. 20:38

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ætti ég að velja einn oddvita framboðanna í Reykjavík til að gæta barnanna minna af ábyrgð í einn dag og gera þann dag jafnframt skemmtilegan fyrir þau, kemur aðeins einn til greina. Jón Gnarr. ég gæti alveg treyst hinum, flestum, fyrir öryggi barnanna en ekki fyrir skemmtilegheitunum.

Kjósum ábyrgð OG skemmtilegheit. það er ágætt að hugsa um efnahagsreikninga en börnunum okkar er skítsama um þá. við þurfum bland beggja. ábyrgð og skemmtilegheit. allir flokkar bjóða sjálfsagt upp á einhverja ábyrgð en einungis einn flokkur býður upp á skemmtilegheit.

ég mun kjósa Æ fyrir mig annars vegar og börnin mín hins vegar

Brjánn Guðjónsson, 27.5.2010 kl. 20:50

3 Smámynd: TómasHa

Gott og vel með gleðina núna, en hversu fyndið verður þetta eftir 4 ár?

TómasHa, 28.5.2010 kl. 19:07

4 identicon

Vonandi jafn fyndið. Vinnan á að vera skemmtileg hvort heldur þú vinnir fyrir eða hjá borginni eða í banka eða búð nú eða sem grínisti í leikhúsi. Skil ekki þetta viðhorf að fyndið fólk geti ekki verið með vit í kollinum og unnið að alvarlegum málum. Merkilegt alveg. Mér finnst alla vega ekki neitt fyndið og skemmtilegt að sjá hvernig er komið fyrir íslensku þjóðfélagi. Bara alls ekki fyndið.

Jóka (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 18:36

5 Smámynd: TómasHa

Það var enginn að efast um gáfur mannsins. Ég efast bara um að húmorinn verði jafn fyndinn eftir 4 ár.

TómasHa, 29.5.2010 kl. 18:56

6 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hann mun aðeins batna

Brjánn Guðjónsson, 31.5.2010 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband