Sunnudagur, 6. júní 2010
Lýðræði?
Ég hef lúmskt gaman að umræðunni í bloggheimum um meirihlutasamstarf Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Umræðan er helst drifin áfram af spældu sjálfstæðisfólki.
Ýmsar raddir. Sumar einfaldlega fúlar allsherjar. Margar enn í gömlu rullunni að Besti flokkurinn sé ekki alvöru og að atvinnupólitíkusar eigi að stjórna. Það er að segja fólk sem alið hefur verið upp, frá blautu barnsbeini, á uppeldisstofnunum flokkanna. Fólk sem klifið hefur hina hefðbundnu og grútmygluðu metorðastiga. Fólk sem hefur enga praktíska reynslu af neinu.
Heldur bara;
Morfís -> ungliðahreyfingarnar -> vinna á RÚV -> aðstoðarmenn -> borgarfulltrúar -> Alþingismenn -> sendiherrar eða Seðlabankafólk, áður en það á endanum fer sömu leið og allir aðrir. Undir græna torfu.
Allir eiga það þó sameiginlegt að vera bitrir yfir að Besti flokkurinn hafi valið að ganga til samstarfs við Samfylkingu, í stað þess að hafa kosið að ræða við Sjálfstæðisflokkinn. Minnir á viðbrögð afbrýðissams einstakling sem horfir á eftir þeim sem hann er hrifinn af í faðm einhvers annars.
Fyrir utan allar beinagrindurnar sem Sjálfstæðismenn þurfa væntanlega tíma og næði til að losa úr sínum skápum og ég geri ráð fyrir að Besti flokkurinn vilji ekki snerta með priki, hvað þá meir, finnst mér sú ástæða að Besti flokkurinn telji sig hugmyndafræðilega standa næst Samfylkingu nægjanleg.
Hinir bitru tala gjarnan um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að vera fyrsta val, sem næst stærsti flokkurinn. Kannski það. Ef við lítum framhjá hugmyndafræðinni og segjum sem svo að menn ættu að horfa til fylgisins eingöngu þegar kemur til þess að skoða væntanlega samstarfsaðila, hvað þá?
Ættu menn að horfa á fylgið eingöngu eða taka jafnframt tillit til fylgisbreytinga frá seinustu kosningum og lesa í skilaboðin?
Það má svo sem endalaust leika sér með tölur og fá úr rétta niðurstöðu ef maður vill. Bara spurning hvaða gildi maður kýs að setja í jöfnuna til að fá þá niðurstöðu sem maður vill.
Ég hef kosningatölur frá 2006 ekki á reiðum höndum, en miðað við fulltrúafjölda hefur Framsóknarflokkurinn tapað 100%, Frjálslyndi flokkurinn 100%, VG 50%, Sjálfstæðisflokkurinn tæpum 29% og Samfylking 25%.
Auðvitað segja hlutfallstölur ekki allt, en samkvæmt þeim er Samfylkingin sá flokkur sem tapar minnst hlutfallslega. sjálfstæðismenn hafa vísað í tölur úr Alþingiskosningunum í fyrra, en það er eins og að bera saman epli og appelsínur. Þá og nú var fólk ekki að kjósa um sömu hlutina, þótt einhverra áhrifa gæti þó.
Skemmtilegast af öllu þykir mér þó að ramba fram á blogg eins og þetta. Óborganlegt.
Þegar sjálfstæðisfólk sakar Besta flokkinn um vanvirðingu á lýðræðinu, fyrir að velja Samfylkinguna, á forsendum kjörfylgis hennar. Þeir hefðu átt að velja Sjálfstæðisflokkinn, sem réttilega hafði meira fylgi.
Á sama tíma gleymir sama fólkið að á síðasta kjörtímabili myndaði Sjálfstæðisflokkurinn þrjá meirihluta. Alla með minnstu flokkunum. Framsókn, Frjálslyndum og svo aftur Framsókn. Hvoru tveggja flokkar sem rétt náðu að slefa inn sínum fulltrúanum hvor.
Heitir þetta ekki að vera í mótsögn við sjálfan sig?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Áhugaverð grein frændi - en Besti flokkurinn hefði hrunið saman hefði JG þorað í samvinnu við Hönnu Birnu - og það veit JG mætavel.
Veraldarálfurinn (IP-tala skráð) 6.6.2010 kl. 06:49
Ragnar Reykás leynist víða.
Mama ma maður bara skilur ekki hvernig hægt er að mynda meirihluta með pínulitlum flokki.
Anna Einarsdóttir, 6.6.2010 kl. 10:36
Rétt Álfur. Gnarr er ekkert fífl.
Brjánn Guðjónsson, 7.6.2010 kl. 19:03
Anna. Reykás er vitanlega Sjálfstæðismaður. Já og Framsóknarmaður, Vinstri grænn og...og...og
Brjánn Guðjónsson, 7.6.2010 kl. 19:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.