Mánudagur, 7. júní 2010
Hið háa og virðulega Alþingi
Eftir að hafa fylgst með uppákomunni í þingsal í dag, fór ég að velta því fyrir mér hví Alþingismenn tali sí og æ um hið „háa og virðulega“ Alþingi.
Alþingi er stofnun og það sem gerir Alþingi að því sem það er, er hvorki Alþingishúsið, ræðupúltið, mötuneytið né stólaáklæðin.
Það sem gerir Alþingi að því sem það er, er fólkið sem þar starfar. Rétt eins og fyrirtæki verður aldrei traustara en stefna þess og starfsfólk. Eins að skóli verður ekki góður nema hafa góða námsskrá og góða kennara.
Hvað er það sem gerir Alþingi svo „hátt og virðulegt?“
Við að horfa á uppákomurnar þar og þrasgirnina, er „virðing“ ekki fyrsta hugtakið sem kemur upp í hugann.
Reyndar er starfsfólk þar innan veggja sem sjálfsagt er ágætt. Það er að segja þingverðir og þess konar. Jafnvel þótt þeir telji það ógnun við þingið að detta á ofna við það að einhver hrasi og detti á þá.
Hvað er svo „hátt og virðulegt“ við fólk sem sóar tíma sínum í Morfísræður og orðhengilshátt? Svona einskonar „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn“ samræður og keppikeflið að eiga síðasta orðið. Fyrir mér er Alþingi frekar lágkúruleg samkunda gapuxa og argaþrasara, upp til hópa, en að vera „há og virðuleg.“
Í stað þess að gera gagn og hefjast handa við að reisa hina frægu skjaldborg, sem væri ágætis byrjun, er tímanum sóað í þras og sandkassaslag.
Margt fólk á í neyð, eða stendur frammi fyrir að eiga í neyð innan skamms. Er hið „háa og virðulega“ Alþingi að hjálpa því? Það er jú Alþingis að setja lögin. Svo situr þarna fólk sem hefur skitið svo stórt á sig, að fnykurinn kæfir nærstadda, en vilja ekki yfirgefa salinn svo lofta megi út.
Ég er bara ekki að sjá hvað er svona „hátt og virðulegt“ við þessa samkundu.
Eins mætti tala um fagran lort eða virðulegan útikamar.
Munurinn á Alþingi og kamrinum er þó sá að kamarinn gæti orðið mörgum til gagns, í neyð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:03 | Facebook
Athugasemdir
Sjúklegt viðhorf klúbbs sem er sannfærður um að hann hafi einhvern tilgang. ÞJóðin hlær.
Finnur Bárðarson, 7.6.2010 kl. 20:32
þurfum við ekki önnur mótmæli ?!?! Hér virðist ekkert vera á leiðinni að lagast. Spilling á spillingu ofan og þeir komast upp með það sbr. neðangreint og eins og Birgitta Jóns benti á í gær að þá er mál níumenningana blásið út og upp eins og þeir séu hard core glæpamenn. Það fer um mig hrollur og ekki ber ég mikla virðingu fyrir þessari stofnun Alþingi eins og hún er í dag. Þó eru nokkrir þar starfandi sem fá mitt atkvæði og ég hef enn trú á
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/06/07/ekki_tilefni_til_rannsoknar/?ref=fphelst
Jóka (IP-tala skráð) 8.6.2010 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.