Fúll fretur

Í vikunni hleypti gapuxinn í félagsmálaráðuneytinu af fúlum fret, þegar hann lýsti yfir að frysta þyrfti laun opinberra starfsmanna í fimm ár. Kallar svo eftir þjóðarsátt um það (!)

Kaupmáttur almennings hefur hrapað á tveimur árum. Fyrst með stöðutöku bankanna gegn krónunni fyrri hluta ársins 2008, sem lækkaði gengi krónunnar og þar með hækkaði verð á innfluttum vörum. Síðan með launalækkunum á vinnumarkaði, eftir hrun. Síðan með skattablæti Joðs, sem lítið virðist skila öðru en minnkandi neyslu og varla svo mikilli tekjuaukningu ríkisins í ljósi þess. Stalínhagfræðin á útopnu þegar fólk horfir ekki á heildarmyndina.

Gapuxinn vill frysta laun opinberra starfsmanna í fimm ár.

Gefum okkur að svo yrði og að kaupmáttur starfsmanna í einkageiranum batnaði á næsta eða þarnæsta ári. Jafn vel árið þar á eftir. Þá sætu opinberir starfsmenn eftir í frosti.

Er þetta skjaldborgin? 

Þessar hugleiðingar gapuxans ætti að setja á safn, sem viðvörun fyrir kjósendur framtíðarinnar.

Hér þarf að efla hagkerfið og auka veltu. Það gerist ekki með skattahækkunum eða öðru sem dregur úr kaupmætti og neyslu. Þau mistök voru gerð að lækka skatta meðan allt var í gúddí og menn hefðu frekar átt að safna í sjóði til mögru áranna. Í góðæri ætti ekki að lækka skatta, en lækka þá í hallæri, að því gefnu að menn hafi safnað sér í sjóði. Nú eru mögru árin og engir sjóðir, heldur er almenningur skattpíndur út í hið óendanlega. Sem skilar sér í enn minni neyslu, sem setur fyrirtæki í vanda, sem og minni skatttekjum. Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að sjá það.

Vitanlega veit enginn neitt um hvernig ástandið verður eftir ár, hvað þá tvö. Þótt einhverjir spekingar gefi út spár sem hafa ekki sterkari grundvöll en að byggja á kaffibollaskán eða heimsókn til spákonu. Bara eldgosið í jöklinum sem útlendingar kunna ekki að nefna sýnir að ekkert er öruggt eða fyrirséð í þessum heimi. Eins gæti eitthvað jákvætt gerst þannig að dagatalið verði fært aftur til 2007.

Fólk er enn, eftir heilt ár, að bíða eftir alvöru aðgerðum. Að lama þjóðfélagið enn meira en orðið er, er ekki lausn á vandanum. Þvert á móti.

Bankarnir tóku stöðu gegn viðsemjendum sínum. Samt ganga allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar út á að vernda hagsmuni bankanna, í stað þess að standa með almenningi. Ríkisstjórnin hafði tækifæri til leiðréttinga stökkbreyttra lána, meðan ríkið átti allt gumsið.


Niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin stendur ekki með skjólstæðingum sínum. Fólkinu í landinu. Heldur peningaliðinu. Líka Joð og félagar, sem vilja gefa sig út fyrir að standa fyrir annað.


Fleiri en gapuxinn eru að freta fúlu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Sæll Brjánn.

Þ.s. Jón Valur hefur lokað á aðgang minn eftir http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/1064973/ sem þú kommentaðir annars ágætlega á, þá vil ég benda þér á að það sem upp úr hefði átt að standa var að Jón Valur ER að styðja kúgara og morðingja, ekki að ég væri að benda honum á það.

Einnig þar að þar sem sækjast að sér um líkir ætti hann að hugsa sig um áður en hann fer að mæla yfirgangi og kúgun bót á þann smekklausa hátt sem hann gerir.

Hvorki þekki ég þig né hann, en fróðlegt er að sjá hversu langt þið voruð frá aðalatriðinu og gagnrýnið mig fyrir að dirfast að segja hið augljósa, þ.e. því að Jón Valur ætti að hafa áhyggjur af því með hverjum hann sest á bekk, því það segir margt um hann sjálfan sem hann vill greinilega ekki vita af.

Rúnar Þór Þórarinsson, 10.6.2010 kl. 13:52

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

fyrr mun líklega frjósa í helvíti en að ég og JV verðum skoðanabræður. þó finnst mér og reyni að fylgja þeirri reglu að koma fram skoðunum mínum og mótmælum af háttvísi og virðingu.

hinsvegar get ég leyft mér að vera strigakjaftur á mínu prívat bloggi, kjósi ég það.

ég var ekki að gagnrýna skoðanir þínar. er eiginlega meira fylgjandi þeim en á móti. það var hins vegar framsetning þín á þeim sem ég gagnrýndi.

:)

Brjánn Guðjónsson, 12.6.2010 kl. 17:59

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

"Gapuxinn vill frysta laun opinberra starfsmanna í fimm ár."

Ég held að það sé næsti formaður Samfylkingarinnar sem þarna talar. Ekki veit ég hvort þarf að frysta laun í fimm ár en það má þá alltaf breyta því ef blossar upp eitthvert góðæri á Íslandi. Ég er sammála því að frysta þarf hæstu launaflokka ríkisins og það held ég að hann hafi verið að tala um. Það er ófært að fjölga á ríkisspenanum þar sem menn njóta öryggis í vinnu og lífeyrissjóði og halda launum á við frjálsa markaðinn. Svo tala menn um að hagvöxtur aukist ekki. Skrýtið. Auðvitað átti að lækka skatta í "góðærinu" og draga úr umsvifum ríkisins samhliða en glórulaust að hækka skatta á krepputímum. Það hljóta allir að skilja hvar sem menn eru í pólitík. En Brjánn áttum við ekki að safna sjálf í sjóði í góðærinu eða á alltaf að treysta á ríkisforsjána Kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 12.6.2010 kl. 20:42

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

auðvitað áttu allir að safna í sjóði. jafnt einstaklingar sem ríkið. minn sjóður var fjárfesting í steinsteypu, sem ríkið hefur nú þurrausið, með sinni verðtryggingu. vitanlega átti ríkið einnig að safna í sjóði. leggja tekjurnar til hliðar í stað þess að draga úr þeim með skattalækkunum. nú sitjum við uppi með tóman ríkissjóð sem seilist í okkar vasa til að redda eigin klúðri. á sama tíma og vasar almennings eru meira og minna tómir.

Brjánn Guðjónsson, 13.6.2010 kl. 14:44

5 identicon

fyrirgefðu mér svelgist á að lesa það sem KS skrifar ekki nema ég sé að misskilja

Ég ásamt fjölda Íslendinga söfnuðu digrum sjóðum í góðærinu hvort heldur í formi peningamarkaðssjóða, séreignasparnaðar, hlutabréfa eða í annarri vitleysu sem bankarnir ráðlöggðu eða beinlínis "létu" fólk fjárfesta í.  Hvað gerðist Kolbrún ? Peningarnir sem voru á bak við sjóðina voru ekki til og bankarnir fóru á hausinn ie. sjóðir til mögru áranna tæmdust.  Sorglegast þó fyrir fólk eins og foreldra mína sem akkúrat voru t.d. að hætta á vinnumarkaði þegar kreppan skall á og ætluðu að  nota sjóðina svo kölluðu til að lifa af og njóta elliárana.  Get ekki annað en kallað þetta fúlan fret og eins og Brjánn orðar það " nú sitjum við uppi með tóman ríkissjóð sem seilist í okkar vasa til að redda eigin klúðri. á sama tíma og vasar almennings eru meira og minna tómir.

 Varðandi Gapuxann sem allir vita hver er þá var hann svo sannarlega ekki að tala um hæst launuðu starfsmennina.  Hvað heldur þú að fólk við hjúkrun og önnur umönnunarstörf séu með í laun, ekki er ég með tölurnar en það eru klárlega með lægst launuðu starfsmönnum í landinu og í Kastljósi þá tók ÁP sérstaklega fram þennan hóp.  Það mætti kannski frysta laun Alþingismanna í smá tíma og jafnvel lækka til að koma þessum vitfirringum niður á jörðina. 

Jóka (IP-tala skráð) 14.6.2010 kl. 08:51

6 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Brjánn. Það er alveg rétt að við sitjum uppi með tóman ríkissjóð og það er líka rétt að verðtryggingin var glórulaus. Það var því áhættufjárfesting í steypunni eins og hlutabréfunum, verðbréfasjóðunum og lífeyrissjóðum þó mismunandi eftir áhættustigi. Ekki veit ég hvenær þú keyptir/byggðir en það var ljóst fljótlega upp úr 2005 að íbúðarverð var langt yfir því sem eðlilegt gat talist og neyslan var algerlega óstjórnleg og þar sem við tengdum allt neysluvísitölu hækkaði allt í sama hlutfalli. Ég t.d. vissi að ég ætti að selja og kaupa mér minna og setja mismun í minn einkasjóð t.d, bankabók. Því tímdi ég ekki og sit því uppi með íbúð sem hefur hrapað í verði. Ef ég væri að drepast yfir því gæti ég engum kennt um nema sjálfri mér fyrir fyrirhyggjuleysi og slatta af sjálfselsku. Nú er ég ekki að tala út frá þinni stöðu því hana þekki ég ekki heldur minni. Mín sannfæring er sú að þó ríkisstjórnin hefði ekki lækkað skatta hefðu hún eytt peningunum í einhvern óþarfann rétt eins og almenningur gerði. Við erum ríkið, okkar er sjóðurinn, tómur eða fullur og ábyrgð okkar liggur í kjörklefanum.  

p.s. ég skrifast helst ekki á við nafnlausar IP- tölur enda yfirleitt sami boðskapur þar á ferð.

Fúll fretur stafar yfirleitt af ofáti ekki satt  

Eigi skal gráta Björn bónda heldur leita hefnda og kjósa rétt næst.

Kveðja Kolla. 

Kolbrún Stefánsdóttir, 14.6.2010 kl. 21:26

7 identicon

ef ég er óskráða IP talan sem þú treystir þér ekki til að svara Kolbrún nú þá bara set ég punkt hér og logga mig útúr samræðunum.

Jóka (IP-tala skráð) 15.6.2010 kl. 00:00

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Ég get vottað að Jóka er ekki einhver nafnlaus IP tala og hennar rödd á fullan rétt á sér hér.

Ég keypti mér 30 ára gamla blokkaríbúð. fjögurra herbergja, þar sem ég á tvo unglinga sem koma stundum til mín. Bruðl segja sumir þar eð samkvæmt pappírunum er ég einstæður. Á þó þessi börn og vil veita þeim mannsæmandi aðstöðu þegar þau koma til mín. Ekki að ríkið eða samfélagið taki tillit til þess. Ég tók eins lágt lán og ég gat. átti sjálfur milli 4 og 5 milljónir, sem ég setti í púkkið. Þær nú gufaðar upp. Í boði bankanna, HorTes og Joðs.

Brjánn Guðjónsson, 15.6.2010 kl. 17:15

9 identicon

takk elsku Brjánn fyrir að gefa mér vottun á blogginu þínu ;)

Jóka (IP-tala skráð) 15.6.2010 kl. 19:33

10 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Takk fyrir hreinskilið og gott svar Brjánn. Jóka er fyrir mér iptala. Þannig fólk hefur oft ekki verið hægt að rökræða við. Það hafa líka verið önnur dæmi um nafnleynd þar sem skemmtilegustu og skeleggustu bloggararnir hafa haldið sig en verið samt málefnalegir. Þú virðist þekkja til og þá tek ég það gott og gilt þó ég þekki þig ekki neitt. Seint mun ég álasa þér fyrir að vera ábyrgur faðir, það er ekki allt of mikið af þeim. Ef þú hefur átt ca 20% eigið fé þá er það ekkert bruðl. Ekki hef ég mótmælt því að staðan er kolsvört og ómöguleg í dag en vildi bara benda á að við verðum að sýna smá aðgát og ekki treysta því sem aðrir segja og síst þeir sem alhæfa um hlutina. Ég vona sannarlega að þú fáir sanngjarna meðferð og að stjórnin komi með raunhæfar leiðir áður en þeir fara í sumarleyfi. Óska þér alls hins besta og vona að þú látir ekki reiðina leiða þig langar leiðir. Það er nóg að tapa helv. íbúðinni þó gleðin fari ekki líka frá manni  kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 15.6.2010 kl. 21:10

11 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Jóka. Ég vona að þér svelgist ekki á við þennan lestur en ég get giskað á hvern Brjánn kallar gapuxann. Það hlýtur að vera Árni Páll Árnason sem hefur vaxið mjög í starfi að mínu mati en ég tek það fram að ekki hafði ég mikla tiltrú á honum í upphafi. Ég held, eins og hann, að það megi taka til í ríkisbúskapnum ekki síst í heilbrigðisgeiranum. Það er mjög misjafnt innan umönnunargeirans hvað fólk hefur í laun. Best væri að allir hefðu góð laun en meðan öryrkjar þurfa að vera undir fátæktarmörkum þá þarf að gera einhverjar ráðstafanir. Við á frjálsa markaðnum búum við óöryggi, launalækkanir og ótrygga lífeyrissjóði (skerta sem óskerta) en ríkisstarfsmenn ekki.

Varðandi foreldra þína þá er það afar sorglegt og í raun mesta óréttlætið því það er líklega sú kynslóð ( mín  ) sem hefur byggt upp það góða samfélag sem örfáir glæpagaurar hafa lagt í rúst með fyrrgreindum afleiðingum. Með hjálp auðtrúa ungmenna. Samkvæmt þinni upptalningu á sjóðum hér á undan þá hefur mér aldrei dottið í hug að koma nærri þeim nema auðvitað séreignasparnaði en lét hann fara inn á bankabók en ekki í sjóðasukkið. Mér fannst þetta alltaf augljóst enda eins og þú sagðir sjálf, engir raunverulegir peningar á bak við þetta. Þannig að nú þarf bara að opna hugann og kjósa rétt næst. Ps. Það er ekki séríslenskt fyrirbæri á ferðinni. Fólk um alla Evrópu er í sömu sporum og við, þó það sé ekki eins áberandi. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 15.6.2010 kl. 22:31

12 identicon

Mér hefur alltaf þótt skemmtilegast að ræða þessi mál við Brján augliti til auglits en ekki í gegnum netið.  Það hefur veitt mér mikla fullnægju að ræða pólitík við Brján fés to fés en umræður á netinu veita mér ekki mikla fróun.  Hann veit hvað mér finnst um netsamskipti og því ætla ég mer að halda áfram að vera IP tala hér en ekkert meira enda er ég "þannig" fólk í þínum huga Kolbrún sem ekki er hægt að rökræða við og því hef ég ekki áhuga á frekara spjalli.  góðar stundir, ást og umhyggja "All you need is love, love is all you need!" / Jóka xoxo

Jóka (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 10:03

13 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Jóka ég þakka sömuleiðis fyrir samskiptin. Ég efast ekkert um þína mannkosti og það er þitt val að fara huldu höfði í netheimum. Þú velur sjálf að fara í þennan hóp ekki ég. Ég vel hinsvegar hvort ég tek þátt í samskiptum við IP-tölu og gerði það í þínu tilfelli, þar sem Brjánn( sem ég hef oft lesið á blogginu ) þekkti til þín. Barnalegt að móðgast yfir því. Ég er nú svo heppin að búa við mikla ást og elska mikið sjálf en takk fyrir góðar óskir. Vonandi skortir þig ekki neitt. Lifðu heil eða heill eftir atvikum kveðja Kolla

ps. Brjánn ég vona að niðurstaða Hæstaréttar komi að gangi fyrir þig þó ég sé ekki búin að átta mig á hvað þetta þýðir í raun og veru fyrir skuldara gengistryggðra lána. Varla verður leiðrétting á þeim en ekki verðtryggingunni. Kveðja Kolla. 

Kolbrún Stefánsdóttir, 16.6.2010 kl. 18:40

14 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

takk fyr það Kolbrún. reyndar þarf ég ekki að spá svo mikið í dóm hæstaréttar. hef engin slík lán. er einungis afétinn af ríkinu og öðrum óbreyttum afætum.

Jóka er fullgild hér. ég sé ekki að skráning á blog.is geri fólk eitthvað betra. því er „IP tala skráð“ jafn gjaldgeng hér sem og einhver skráður gapuxi.

Brjánn Guðjónsson, 17.6.2010 kl. 21:39

15 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Brjánn. Ég er ekki alveg með það á hreinu hvernig gapuxi er en það kemur ekki málinu við. Ég er bara að segja að ég veit ekki við hvern ég er að tala þegar ekkert nafn kemur fram. Ekki hvort það er karl eða kona t.d. Þetta er ekkert persónulegt og ég hélt að það ætti að taka fyrir þetta á mbl.is . Þekkti nokkra ágæta bloggara sem skrifuðu undir dulnefni en þeir yfirleitt kynntu sig í skilaboðunum, ef maður var að skiptast á skoðunum við þá. Suma bloggara hef ég ekki samband við þar sem sjá má á þeirra skrifum að þeir séu trúlega "gapuxar" þó þeir séu undir fullu nafni :)

Eins og ég segi þá vona ég að það verði þá tekið á vísitölulánum í leiðinni ef þetta verður leiðrétt. Það ætti að hafa bætandi áhrif á hagvaxtahraðann og atvinnulífið allt saman. Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 18.6.2010 kl. 06:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband