Vaxtavangaveltur

Fram á þennan dag hef ég verið á þeirri skoðun að með dómi Hæstaréttar í gjaldeyrislánamálinu falli einungis gjaldeyristryggingin niður, en aðrir þættir samninga standi óbreyttir. Reyndar snerist dómurinn eingöngu um gjaldeyristrygginguna og því ekki fjallað um aðra þætti samningsins.

Nú eru uppi ýmsar skoðanir um hvað taki við. Sumir vilja að gjaldeyrislánum verði breytt í verðtryggð lán. Aðrir að vextir Seðlabankans skuli gilda og síðan þeir sem telja að umsamdir vextir (LIBOR + álag) gildi áfram. Ég þar með talinn. Líklega þarf að skera úr um þetta fyrir dómstólum.

Ég hef reyndar farið nokkra hringi í skoðunum mínum í dag. Algjör Ragnar Reykás. Held ég hafi hins vegar komist að niðurstöðu.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar eru umrædd lán íslensk krónulán og því hljóta að gilda um þau lög um vexti og verðtryggingu. Þar segir ma:

II. kafli. Almennir vextir.
3. gr. Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.
4. gr. Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

Það er ekkert sem bannar að semja um lægri vexti en Seðlabankans. Aðeins talað um að séu vextir ekki tilgreindir, annað hvort í tölum eða vísun í vaxtaviðmið, skulu Seðlabankavextir gilda.

Sumir vilja meina að breyting vaxta úr umsömdum LIBOR vöxtum í vexti Seðlabankans brjóti gegn samningslögum (nr. 7/1937). Líklega rétt. Mér tókst ekki að finna þau í lagasafninu en gef mér að það sem ég fékk lánað hér sé satt og rétt.

36. gr. b. Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.
[Regla 2. málsl. 1. mgr. gildir ekki þegar aðilar eða stofnanir sem hafa það hlutverk að vernda neytendur geta gripið til aðgerða samkvæmt landslögum til að fá úr því skorið hvort samningsskilmálar sem ætlaðir eru til almennrar notkunar séu ósanngjarnir.]1)]2)
1)L. 151/2001, 1. gr. 2)L. 14/1995, 3. gr.

Ég tel að í flestum, ef ekki öllum gjaldeyrislánasamningum sé talað um LIBOR vexti umræddra mynta (plús álag). Að því gefnu hljóta þeir vextir að gilda, þar sem 4. grein 2. kafla laganna segir til um að Seðlabankavextir skulu [aðeins] gilda séu hundraðshluti eða vaxtaviðmiðun EKKI tiltekin. Sé talað um LIBOR vexti ákveðinna mynta eru klárlega vaxtaviðmið fyrir hendi. Að öðrum kosti skulu Seðlabankavextir gilda. Í þeim tilvikum þar sem LIBOR vextir ákveðinna mynta eru tilgreindir sé ég tæplega að þeim verði breytt.


Svo er málið hvort lánin skulu standa eftir sem óverðtryggð eða verðtryggð. Þá dettur mér í hug meðalhófsreglan, sem segir að aðeins skuli tekin íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Vextir Seðlabankans af veðlánum eru nú 8,5% og verðbólgan 7,5%. LIBOR vextir (CHF & JPY) mun lægri. Hinsvegar felur verðtryggingin í sér verðbætur á höfuðstól, þannig að prósentutalan segir ekki endilega allt. Því myndi ég telja að verðtryggt lán á 7,5% vöxtum, plús álag, verri kost en óverðtryggt á 8,5% vöxtum, plús álag og enn verri en óverðtryggt lán á LIBOR vöxtum. Ég geri ráð fyrir að álagið sé hið sama. Það álag sem kveðið er um í lánssamningi. Það hlýtur að standa óbreytt.

Meðalhófsreglan fjallar um íþyngjandi ákvörðun. Miðað við að valið standi milli verðtryggðs og óverðtryggðs hlýtur verðtryggt að vera meira íþyngjandi fyrir lántakendur en óverðtryggt. Að sama skapi á hinn veginn fyrir lánveitendur. Þá komum við að 36. gr. b. samningslaganna.

Því tel ég rétta niðurstöðu vera þá að lánin muni verða óverðtryggð og bera upprunalega tilteknu LOBOR viðmiðunarvexti, eða vexti Seðlabankans hafi vaxtaviðmið ekki verið tiltekin, að bættu upprunalega umsamda álaginu.


Hins vegar vakti eftirfarandi athygli mína við garfið í lagasafninu:

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]1)
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.
1)L. 51/2007, 1. gr.

VII. kafli. Viðurlög og málsmeðferð.
17. gr. Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.

Nú er óumdeilt að gjaldeyristryggingin var ekkert annað en ólögleg verðtrygging. Á þá ekki 17. grein 7. kaflans við?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birnuson

Þetta er góð samantekt. Það eina sem mér dettur í hug að sett geti strik í þennan reikning er eftirfarandi atriði, sem aðrir hafa bent á: Getur verið að afnám tengingar við erlenda mynt myndi um leið grundvöll fyrir afnámi tengingar við erlenda vexti?

Dæmi: Lán, sem svo átti að heita að væri veitt í erlendum gjaldmiðli, bar samkvæmt lánssamningi LIBOR-vexti fyrir þann gjaldmiðil að viðbættu álagi. Þar sem lánið telst nú hafa verið veitt í íslenskum krónum, er gjaldmiðillinn, sem miða ber við framvegis, þá einfaldlega íslenskar krónur og vextirnir, sem reikna ber, LIBOR-vextir fyrir ISK? 

Þetta kann að vera langsótt, en ræðst hugsanlega af orðalagi í lánssamningnum. Sjá til frekari skýringar athugasemd Steingríms Jónssonar við þessa færslu Marínós G.

Birnuson, 22.6.2010 kl. 23:20

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Lögin eru frá 1936 ekki 1937 og eru hér.

Marinó G. Njálsson, 22.6.2010 kl. 23:37

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

sorri Marínó. hvað er eitt ár milli vina? ;) Líklega ástæðan fyrir að ég fann þau ekki í lagasafninu. En þökk sé þér að ég hafði 36. greinina.

Brjánn Guðjónsson, 22.6.2010 kl. 23:51

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Birnuson (flott nafn. ég gæti tekið það upp)

það er ekkert í lögum sem bannar erlenda vexti. miðað við minn skilning á lögum um vexti og vertrðyggingu. sé í lánum tiltekið vaxtaprósenta eða skilgreint viðmið við tiltekna vexti er um löglegar gjörning að ræða.

Brjánn Guðjónsson, 22.6.2010 kl. 23:55

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

samt var linkurinn í breytingaviðaukunum við lögin brotinn. samanber http://www.althingi.is/altext/stjtnr.html#1936007 sem er linkurinn á lögin héðan; http://www.althingi.is/altext/stjt/1995.014.html

sannreynið sjálf.

Brjánn Guðjónsson, 22.6.2010 kl. 23:58

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Brjánn, samantektin er góð og heldur vel.

Það er nú hálf sikk að kunna laganúmer utanbókar, en svo hefur 20 mánaða hagsmunabarátta farið með mann

Marinó G. Njálsson, 23.6.2010 kl. 00:16

7 Smámynd: Birnuson

Sæll Brjánn, eins og þú segir er áreiðanlega ekkert í lögum sem bannar tengingu við erlenda vexti, en spurningin er hvort túlkun á dómi Hæstaréttar í tengslum við lánasamningana sem um ræðir (eða suma þeirra) geti haft þær afleiðingar sem ég nefndi. Ég tek þetta upp fyrst og fremst vegna þess að ég get ekki séð að tilgátu Steingríms Jónssonar í þessa veru hafi verið svarað.

(Birna er gott nafn og gott að tengja sig við það.)

Birnuson, 23.6.2010 kl. 08:13

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég get am.k. ekki séð neitt í vaxtalögunum sem bannar erlenda vexti heldur aðeins að eigi lán að vera vextir en þeir ekki tilgreindir né vaxtaviðmið ekki tilgreint (má vera frá Kína þess vegna) skulu vextir Seðlabankans gilda.

Brjánn Guðjónsson, 23.6.2010 kl. 10:22

9 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

sammála með Birnunafnið. móðir mín bar það og dóttir mín ber það :)

Brjánn Guðjónsson, 23.6.2010 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband