Fimmtudagur, 21. október 2010
Hagfræðismi
Þjóðfélög virðast alltaf hafa einhverja hluti sem verða þungamiðja þeirra. Eitthvað sem allt þarf að snúast um. Einhver lífsgildi sem sett eru ofar öllu öðru.
Hins vegar má setja spurningamerki við lífsgildin.
Þar sem ég hef hvorki þekkingu á mannfræði, þjóðfræði eða sagnfræði, ætla ég ekki að hætta mér út í að besservissera um gildi Rómverja eða forn-Grikkja. Held mig frekar á Íslandinu góða.
Á þjóðveldisöld þóttu heiðarleiki og sanngirni vera dyggðir. Það þótti svo sem ekki stórmál þótt einhver dræpi annan, en vígið þurfti að byggja á heiðarlegum og sanngjörnum grunni. Það mátti hefna. Að vega einhvern án ástæðu var illa séð. Að halda æru sinni var mönnum kappsmál og ef vegið var að henni réttlætti það mannvíg.
Forfeður okkar og mæður höfðu skynbragð á heiðarleika og sanngirni.
Hagfræði var þá óþekkt hugtak sem slíkt. Hver hugsaði bara um sinn bústofn og að nýta hann sem best. Sem er hagfræði í sjálfu sér.
Í dag er þessu öfugt farið. Nú skiptir æran ekki svo miklu. Heiðarleiki og sanngirni þykja ágæt svo langt sem þau ná. Sé hægt að græða má sópa þeim gildum undir teppið.
Þetta endurspeglast hvað best í því að í dag skiptir hagfræðin mestu máli. Þegar upp koma mál varðandi aðgerðir er alltaf fyrsta spurningin hvað það kosti, í peningum. Vöruskiptajöfnuður og hagvöxtur virðast vera málið.
Ein er spurning og stór, sem flestir hafa spurt sig. Hver er tilgangur tilveru minnar?
Svo ég svari fyrir mig, þá sé ég minn tilgang í þessu lífi að líða vel. Ég hef hvorki tryggingu fyrir að komast í englakór almættisins, né að fá stöðu sem undirleikari á hörpu eða trompet.
Því er minn eini tilgangur að njóta þess að vera til og láta mig líða vel.
Eins ætti það að vera spurning þeirra sem stjórna samfélagi. Hver er tilgangur samfélags okkar?
Hver er tilgangur samfélags okkar? Er hann sá að vöruskiptajöfnuður sé jákvæður, eða að hagvöxtur aukist? Kannski óbeint, en þó aðeins að það bæti líf, líðan og velferð þegnanna.
Þegar 500 manns þurfa að húka í biðröð eftir mat og enn stærri hópur veit ekki hvort hann verði á götunni eftir mánuð, hverju skiptir þá vöruskiptajöfnuður eða hagvöxtur?
Rétt eins og miðaldasamfélögin stjórnuðust af duttlungum kirkjunnar þá stjórnast samfélög nútímans af duttlungum hagfræðinnar. Hagfræðin byggir ekki á skotheldum staðreyndum, heldur meira á hugmyndum og tilfinningum, líkt og kirkjan. Fuzzy logic.
Þegar samfélag setur meðlimi sína og velferð þeirra til hliðar, en leggur meira upp úr trúarskoðunum (hagfræðinnar), hver er þá tilgangurinn með samfélaginu?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.