Fimmtudagur, 2. desember 2010
Hinn heilagi eignaréttur
Já, eignarétturinn er friðhelgur, samkvæmt stjórnarskrá. Eignarréttur hvers þá? míns og þíns, eða útvaldra?
Í 72. grein 7. kafla stjórnarskrárinnar segir;
Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Þessu ákvæði stjórnarskrárinnar beita lífeyrirssjóðirnir fyrir sig í umræðunni um leiðréttingu skulda heimilanna.
Þá vísa þeir til þess að verðbætur hafi fært þeim eignir sem varðar eru af ofantöldu ákvæði. Annað komi ekki til tals, þar sem m.a. hefur verið rætt, til dæmis, að færa vísitölu neysluverðs aftur til 1. jan. 2008. Skilningur lífeyrissjóðanna er að það væri eignaupptaka. Verðbæturnar hafi skapað þeim eignir, verndaðar af stjórnarskrá.
Eignir til komnar vegna verðbóta.
Verðbætur reiknast út frá verðlagi varalita, ilmvatna, áfengis, tóbaks, sem og fleiru. Eiga að endurspegla verðlag á markaði en án tillits til hvernig verðlagið kemur til. Olís hækkar álagningu á bensín = lánin hækka, þrátt fyrir að grundvöllur lánveitendans og lántakans breytist ekki. Það sér hver heilvita maður að þetta er tómt rugl.
Hvað eru verðbætur? Sýndarpeningar. Eignir lánþega eru færðar til lánveitenda samkvæmt ákveðnum reglum. Eigið fé fólks, er étið upp af lánveitendum. Hvað er það annað en hrein og klár eignaupptaka?
Lífeyrissjóðirnir berjast nú með kjafti og klóm að halda þýfinu hjá sér. Halda þeirri eign sinni sem verðtryggingin hefur veitt þeim. Fyrr mun frysta í helvíti áður en þeir verða tilbúnir að gefa eftir eitthvað af þeim sýndarpeningum sem verðbæturnar eru.
Brýtur það ekki í bága við 72. gr. 7. kafla stjórnarskráarinnar að hægt sé, með markvissum hætti, að færa eignir lánþega yfir til skuldara, í skjóli laga um verðtryggingu?
Eru lög um verðtryggingu í samræmi við stjórnarskrá?
Ég held ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.