Sunnudagur, 9. október 2011
Vitleysingur vikunnar 2/10 - 8/10
Er Vigdís Hauksdóttir.
Reyndar skoraði landsstjórn Landssambands framsóknarkvenna hátt, en þar sem einungis einstaklingar eru kjörgengir í valinu á vitleysingi vikunnar hlotnast Vigdísi einni heiðurinn að þessu sinni.
Mér entust ekki dálkfermetrarnir sem mér eru úthlutaðir hér til að veggfóðra þetta blogg með allri vitleysu Vigdísar. Enda aðeins ein vika undir og því einungis vitleysa vikunnar sem kemur til álita. Af nógu er að taka samt.
Nú er starf þingmanns þess eðlis að viðkomandi þarf að halda ræður endrum og sinnum og á íslensku í ofanálag. Því má gera ákveðnar lágmarkskröfur um þekkingu þingmanna á íslenskri tungu.
Vitanlega má svo sem gera kröfur um almenna þekkingu líka. Í það minnsta um mál sem fólk tjáir sig um. Hvort heldur það er anarkismi eða annað. Kannski er það bara spurningin um að kynna sér mál eða máltæki, oggopínu, áður en þau eru höfð á orði.
Ég geri þá kröfu að þingmenn fari rétt með orðatiltæki í pontu, þótt innihaldið, að öðru leyti, sé steypa. Steypa er kannski lykilorðið? Stein-steypa hennar sem svo umhugað er um steina að þeir koma fyrir í öllum orðatiltækjum hennar.
Ég vil taka fram að með þessum skrifum er ég ekki að leggja Vigdísi í einelti.
Ég legg hana í steinelti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.