Sunnudagur, 30. mars 2008
Að vera málefnalegur
Ragnar hét köttur. Hann átti heimilisfesti á heimili mínu um eins og hálfs árs skeið, fyrir 15 áum eða svo. Ragnar var afar þægilegur í allri umgengni. Prúður og háttvís, þótt stundum ætti hann til galsa, enda ungur og óharðnaður. Ágengni og jafnvel smá frekju sýndi hann helst eftir að heimilisfólkið kom heim og hann hafði líklegast verið heldur einkatta yfir daginn. Hroka átti hann ekki til. Forvitinn var hann. Hann var áhugasamur og málefnalegur. Já hann var ætið málefnalegur. Hann átti alveg til að gagnrýna, á sinn hátt. Sú gagnrýni var þó ávallt málefnaleg. Aldrei gagnrýndi hann nokkurn fyrir skoðanir og aldrei gagnrýndi hann persónu manns, né kattar. Hann lét óánægju sína í ljós, þætti honum á sér brotið eða hann væri að öðru leiti ósáttur við einhverjar gjörðir. Þó ekki persónuna, heldur gjörðina. Ragnar tók lífinu eins og það birtist honum og reyndi aldrei að yfirfara sínar skoðanir á aðra né ganga á rétt annarra. Ragnar var æðrulaus.
Ég hef undanfarið lesið ýmis skrif og umræður um útlendinga á íslandi. Ég hef líka lesið skrif og umræður er tengjast trúmálum eða trúarhópum. Ýmis önnur skrif og umræður mætti líka tína til. Skrif og umræður fólks sem ekki er málefnalegt. Þar sem hópar fólks eru dregnir í svaðið fyrir gjörðir tiltölulega fárra einstaklinga innan hópanna. Þar sem persónur allra innan hóps eru gagnrýndar vegna gjörða tiltölulega fárra. Jafnvel þar sem fólk er rakkað niður fyrir það eitt að vera það sem það sem það er, eða þaðan sem það er. Það er ekki málefnalegt. Fólk tjáir sig um gremju sína yfir að aðrir, frjálsir, einstaklingar skuli kjósa að lifa sínu lífi á annan hátt en það sjálft, án þess þó að ganga á frelsi annarra.
Ég ætla ekki að skipta mér að hvernig aðrir haga sér, svo lengi sem þeir ganga hvorki á rétt minn né annarra. Þó tel ég að margir mættu taka sér Ragnar til fyrirmyndar.
Athugasemdir
Mér lýst mjög vel á hugarástand Ragnars og er sammála því að það mættu margir taka hann sér til fyrirmyndar. Mér finnst líka sannarlega að miklu fleiri mættu vera líkir þér og taka þig sér til fyrirmyndar kæri boxer, þá væri heimurinn slatta betri - þrátt fyrir smá box hingað og þangað...
Tiger, 30.3.2008 kl. 15:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.