Sílspikun landans

Úr fílabeinsturninum #1

Margir beturvitringarnir hafa komið fram gegn um tíðina að tjá sig um aukna sílspikun landans, sem og alls hins vestræna heims. Ég ætla hér með að skrá mig í þann hóp.

Eitt af því fáa gáfulega sem sagt hefur verið varðandi þau mál, las ég í frétt á mbl.is um helgina. Þar er þessi setning höfð eftir Vilmundi Guðnasyni forstöðulækni Hjartaverndar: „Ef maður fitnar borðar hann meira en hann brennir. Svo einfalt er það.“

Svo má skilja á öðrum beturvitringi, sem og fleirum, að megin ástæða aukinnar sílspikunar sé meira skyndibitaát. Gott og vel. Kannski spurning um að skilgreina skyndibita. Er það einungis fæða sem er fljótelduð eða þarf hún jafnframt að vera löðrandi í fitu? Nú hafa ýmsir haldið fram að hamborgarar og flatbökur séu ekki endilega svo óhollur matur, nema hvað á hamborgurum er sósa sem ekki þyki æskileg.

Í umræddri frétt er talað um þróun frá árinu 1967. Nú var ég ekki mættur í heiminn það ár en ég man vel hvernig fæðuumhverfi venjulegra íslendinga var á áttunda áratugnum. Þá var það vitanlega mánudagsýsan, með hamsatólg. Á sunnudögum tilheyrði að borða feitan labbahrygg. Svo má ekki gleyma kjötbollum og bjúgum, sem og allskyns annarri unninni fæðu. Vitanlega alltaf sósa með. Uppbökuð úr hvítu hveiti og smjörlíki. Væri borðað skyr eða súrmjólk setti fólk vel af sykri úr á. Svo vitanlega settur rjómi út á skyrið. Brauðúrval var minna en í dag og mun meiri neysla franskbrauðs vs grófs brauðs. Smjör var jafnan notað sem viðbit, meðan í dag nota flestir einhverskonar jurtaolíuafurðir. Á þessum tíma var reyndar ekki eins fjölbreytt úrval skyndibita eins og nú. Helst það væru sjoppupulsur og samlokur. Hinsvegar var sælgætisúrval ágætt, sem og úrval gosdrykkja. Allir gosdrykkir, utan kannski Fresca, innihéldu sykur.

Ég er bara ekki að sjá að fæða íslendinga hafi verið fitu- eða kolvetnaminni þá en nú, nema síður væri.

Það sem helst hefur breyst er að í dag nartar fólk meira milli mála og innbyrðir mun meira magn allskyns aukaefna. Ekki veit ég hvernig þessi aukaefni hafa verið rannsökuð með tilliti til áhrifa á brennslu eða matarlyst.

Allavega, þá eru kolvetni og fita aðaluppistaðan í mínu fæði. Seint verður sagt um mig að ég sé spikaður.

 

 

Athugið. Ofangreint eru skoðanir fílabeinsturnspersónuleika míns og þarf ekki endilega að endurspegla skoðanir mínar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband