Mánudagur, 7. apríl 2008
Trukkarnir burt
Úr fílabeinsturninum #2
Nýjustu fréttir herma að trukkakallarnir ætli ekki að vera í umferðinni (framar?). Þeir hafa söðlað um og bjóða nú gestum og gangandi upp á kaffi og vöfflur. Þeir lærðu að baka vöfflur í liðinni viku, sem þeir buðu síðan laganna vörðum.
Þetta eru góðar fréttir. Best hefði þetta gerst svona eins og nokkrum árum fyrr. Þá hefðu þeir ekki verið að þvælast fyrir mér og öðrum heiðvirðum borgurum úti á þjóðvegum landsins. Um skeið ók ég mikið um þjóðveg 1 á vesturlandi. Bíllinn ber þess líka merki. Mjög freknóttur í andliti sökum grjótkasts, frá trukkum fyrst og fremst. Það staðfestist í síðustu viku, svo ekki er um að villast, að það sem trukkar gera best er að þvælast fyrir og tefja almenning. Því eru góðar fréttir að þeir hafi nú ákveðið að hverfa af vegum landsins og fyrrverandi trukkabílstjórar haldi nú kökubasara í staðinn. Það fer vel á því.
Athugið. Ofangreint eru skoðanir fílabeinsturnspersónuleika míns og þarf ekki endilega að endurspegla skoðanir mínar.