Félag áhugamanna um óánægju

Úr fílabeinsturninum #3 

Félag áhugamanna um óánægju er ekki raunverulegt félag, eða hvað? Hugtak sem ég hef notað um þá sem virðast fá mest út úr lífinu með að vera á móti öllu og tuða yfir öllum sköpuðum hlutum. Þar sem félagið er hvergi til nema í hausnum á mér, hef ég titlað mig formann. Í athugasemd á bloggi um daginn stakk hið fjaslega sjálf mitt upp á því að bjóða Steingrími Joð aðild að félaginu, ásamt formannsstólnum. Mér finnst hann eins og sniðinn í hlutverkið. Nú sé ég að hann á keppinaut. Sá er flokksbróðir Steingríms og heitir Ögmundur. Þeir gætu kannski tekið formannsslaginn.

Nú er, enn og aftur, verið að jagast yfir að tveir ráðherrar hafi leigt flugvél undir sig og fylgdarlið sitt til Rúmeníu heldur en að kaupa miða á ódýrasta farrými með einhverju lágfargjaldafélaginu.

Hefur Ögmundur aldrei þurft að ferðast vegna vinnu sinnar?

Látum vera ef um væri að ræða að þetta fólk þyrfti aldrei að ferðast vegna starfs síns. Þá væri þeim engin vorkunn að fljúga með Iceland Express og Ryan air. Gista í svefnpokaplássi einhvers farfuglaheimilisins og lifa á samlokum og Trópí.

Það er bara ekki þannig.

Ráðherrarnir þurfa að ferðast talsvert vegna starfs síns. Það er fátt jafn leiðinlegt og slítandi en endalaus ferðalög. Sólarhrings löng, eða tvegga. Skreppitúrar þar sem meirihluti tímans fer í ferðalög. Það eru engar afslöppunar- og djammferðir. Því er það ekki nokkur spurning, þegar svo til engu munar í verði, að leigja undir þá vél og gera ferðina þægilegri, skemmtilegri og losna við óþarfa hangs sem kostar pirring, aukinn hótelkostnað og aukna dagpeninga.

Vera síðan talandi um flottræfilshátt, misskiptingu, óhóf og bruðl. Ögmundur ætti bara að skammast sín og fara að hugsa um eitthvað sem skiptir máli, heldur að að vera að slá sig til riddara með bananahýði.

 

 

Athugið. Ofangreint eru skoðanir fílabeinsturnspersónuleika míns og þarf ekki endilega að endurspegla skoðanir mínar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband