Miðvikudagur, 23. apríl 2008
Um viðrun stefnuljósa og raus um ljósabúnað bifreiða
Ljósabúnaður bifreiða getur stundum verið fagur á að líta. Þó er tilgangur hans ekki þess eðlis að vera skraut. Tilgangur hans er er fyrst og fremst að vera leiðbeinandi fyrir aðra í kring um mann.
Eiginlega eru háu ljósin (og kannski þokuljós að framan) einu ljósin sem ætluð eru fyrir ökumann bifreiðarinnar sjálfrar, til að sjá fram á veginn í niðamyrkri. Lágu ljósin kannski að hluta til, en þau veita afar takmarkaða lýsingu og gegna því frekar því hlutverki að þeir sem mæti bílnum sjái hann.
Öll önnur ljós bifreiðarinnar hafa þann tilgang að leiðbeina hinum. Afturljósin eru kannski ekki alltaf sjálfvirk en [eiga að] loga allan tímann sem bifreiðin er í gangi. Bakkljós og bremsuljós eru, sem betur fer, sjálfvirk. Bakkljósið kveiknar um leið og bifreiðin er sett í bakkgír og gefur þá þeim sem aftan við bílinn er vitneskju um að nú verði bílnum bakkað.
Bremsuljósin kveikna að sama skapi um leið og stigið er á bremsuna. Þótt tæknilega séð segi ljósið að nú sé verið að bremsa, en ekki að viðkomandi sé í þann mund að fara að bremsa, er það þó þannig að sjaldnast nauðhemla menn og því gefur ljósið, þeim sem fyrir aftan er, góða vitneskju um að nú skuli hann jafnframt hægja á sér ætli hann ekki að lenda aftan á þeim sem fyrir framan er. Til að forðast nauðhemlunartilfellið eiga menn vitanlega að hafa nægilegt bil milli bílanna, miðað við hraða þeirra.
Stefnuljósin eru aðeins annars eðlis. Tilgangur þeirra er að láta aðra vita að maður sé í þann mund að fara að beygja. Ekki að maður sé að beygja. Menn hafa ekki fundið tæknilega lausn á að gera stefnuljósin sjálfvirk. Því er það algerlega undir ökumanninum komið að nota þau rétt. Öryggismarkmið stefnuljósa kann þó að vera óljóst, a.m.k. í mínum huga. Að mínu mati eru tilgangur stefnuljósa fyrst og fremst sá að liðka fyrir umferðinni. Vissulega má segja að það snerti öryggi að gefa stefnuljós ætli maður sér að skipta milli akreina, en þó finnst mér liðkunarelementið vega þyngra. Til þess að það virki sem slíkt verða menn að nota stefnuljósin rétt. Annars geta þau gert meira ógagn en væru ekki notuð yfir höfuð. Fólk notar gjarnan stefnuljós til að gefa þeim sem fyrir aftan er merki um að honum sé óhætt að taka fram úr. Eins gefur fólk stefnuljós tímanlega áður en það beygir, eða hvað? Þar kemur að þeirri spurningu um gagn og ógagn.
Ef allir gæfu stefnuljós tímanlega áður en þeir beygðu inn í aðra götu og einhver biði við gatnamótin og biði þess að komast inn á, vissi sá er biði að honum væri óhætt að fara strax inn á gatnamótin. Þannig liðkar fólk fyrir. Hinsvegar er allt of algengt að fólk annaðhvort gefi ekki stefnuljósið eða allt of seint (þegar byrjað er að beygja) og láta þ.a.l. þann sem bíður bíða lengur en annars þyrfti. Hitt er öllu verra. Þegar fólk fer að viðra stefnuljósin sín. Er með stefnuljósin blikkandi, til merkis um að það ætli sér að beygja, en beygir svo ekki. Það getur valdið hættu. Oft, vegna þessa, treystir fólk ekki stefnuljósum og bíður með að aka inn á gatnamót eða inn á götu. Þar er tilgangur stefnuljósanna fyrir bí.
Ég var einmitt áðan á heimleið úr vinnunni. Beið eftir að komast inn á götu, út af bílaplani. Ætlaði að beygja til hægri inn á götuna og beið eftir umferðinni sem kom frá vinstri. Þar kom bíll með blikkandi hægra stefnuljós, sem sagði mér að viðkomandi ætlaði sér að beygja inn á planið sem ég var að fara út af og ég dreif mig þess vegna inn á götuna. Þá ók hann bara áfram og ég þakka fyrir að hafa ekki fengið hann inn í hliðina á bílnum mínum.
Ég vil af þessu tilefni biðja alla þá sem skreppa vilja út að viðra stefnuljósin sín að gera það á lokuðu svæði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.