Sunnudagur, 11. maí 2008
Bílar og ég
Bílar eru svo sem ágætir, sem slíkir. Koma manni milli staða, svona yfirleitt. Ég hef aldrei haft sérstakan áhuga á bílum, né öðrum ökutækjum.
Þegar ég hugsa til baka, minnist ég þess þegar ég var stráklingur. Margir vina minna höfðu mikinn áhuga á bílum og mótorhjólum. Minningin um þegar verið var að spá í einhvern bílinn eða eitthvert hjólið. Menn stóðu í hálfhring, kring um hjólið, eða við bílinn og horfðu. Spáðu og spekúleruðu í fyrirbærinu (bílnum/hjólinu). Töluðu, en um fram allt horfðu. Þetta skildi ég aldrei og fannst hin mesta tímasóun. Enda fór ég fljótlega að skjálfa af kulda í þessari kyrrstöðu og kom mér bara heim.
Önnur minning. Þá var ég rúmlega tvítugur. Var að vinna við rafkerfi sem og ísetningar og viðgerðir á allskyns raf- og rafeindatækjum fyrir bíla. Í einni pásunni voru vinnufélagarnir að tala saman um bíla. Þ.e.a.s. hvað þessi eða hinn væri flottur eða kraftmikill, eða eitthvað á þeim nótunum. Ég þagði en fylgdist með. Ég man ekki hvort til mín var beint spurningu eða hvort ég bara kommentaði að eigin frumkvæði. Ég sagði að fyrir mér væru bílar eins og skór. Ég notaði skó til að ganga í og komast leiðar minnar (jú, reyndar eru einhverjir haldnir skóblæti). Svipað væri með bílana. Jújú, það er gaman þegar skórnir eru flottir og haganlega gerðir, en að ég hafi einhvern sérstakan áhuga á þeim...nei. Einn félaganna varð mjög hissa. Engan áhuga á bílum? En þú ert að vinna við bíla!" Þótt ég ynni við skúringar myndi ég ekki endilega þurfa að hafa brennandi áhuga á moppum og skúringafötum, er það?
Í dag átti ég erindi í verslun í Árbænum. Í bakaleiðinni ákvað ég að keyra hring á bílasölunum, sem þar eru allar í einum hnappi. Jújú, þarna voru alveg flottir og fínir bílar. Því ætla ég ekki að neita. Alla vega einn og einn innan um. En verðið! Einn og einn, á stangli voru á milljón mínus. Hinir á tvær, þrjár, fjórar, fimm, ... milljónir. Myndi ég fara að kaupa mér bíldruslu á fimm milljónir?!! Nei, ekki ég. Sér í lagi ekki þegar verðfall bíla er eins og það er, milli ára.
Ég keypti mér notaðan bílskrjóð fyrir þremur og hálfu ári, á 300.000 kall. Hann hefur sko þjónað mér vel sá. Fyrir utan venjulegt viðhald, eins og að endurnýja bremsuklossa og borða, skipta um dempara og slíkt, hefur hann einu sinni bilað og ég get sjálfum mér um kennt fyrir það. Var farinn að heyra dularfullt hljóð í vatnsdælunni árið 2005. Gerði samt ekkert í því þar til í fyrra, þegar dælan gaf sig. Þennan eðal hrísgrjónavagn hef ég keyrt um 80.000 kílómetra síðan ég keypti hann. Um langt skeið ók ég milli Kópavogs og Borgarfjarðar, í og úr vinnu. Aldrei hikst. 7-9-13. Mér þykir vænt um þennan dygga þjón minn og ef einhver ætti skilið Fálkaorðuna fyrir störf í almannaþágu, eða fyrir eflingu samgöngumála, er það hann. Hann er ekki fullkominn, frekar en nokkurt okkar. Hann er haldinn sama sjúkdómi og margir jafnaldrar hans sömu gerðar. Rafmagnsrúðurnar bila. Það kalla ég þó varla bilun, meðan vélin gengur eins og klukka og annað er í lagi. Meðan hann kemur mér í og úr vinnu, gerir mér kleift að sækja krakkana mína og koma þeim síðan í skólann eftir pabbahelgarnar, gerir mér kleift að fara að versla og sinna öðrum erindum. Þá er mér svo slétt sama þótt einhverjar fokkings rafmagnsrúður eru tip-top eða ekki. Ég er ekki tilbúinn að borga milljónir fyrir hágæða rafmagnsrúður. Ég mældi bensíneyðsluna hans á tímabili, þegar 99% míns aksturs var milli Borgarfjarðar og höfuðborgarsvæðisins. 6,4 ltr./100 Km. Þá þegar var hann ekinn yfir 100.000 Km.
Tölum heldur um rafmagnshljóðfæri, eða einhverjar þannig alvöru græjur. Þá skal ég standa í hálfhring og horfa...og hlusta.
Óseldir bílar hrannast upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mikið er þetta skemmtilega skrifað. Jákvætt og jarðbundið. Bíll er bara verkfæri þegar öllu er á botninn hvolft. Meiri verðmæti eru fólgin í tíma með börnum okkar en "rafmagnsrúðum" sem kosta peninga og þar með vinnutíma sem dregst frá samverustundum fjölskyldunnar. HÚRRA fyrir heilbrigðum Brjáni !
SKUGGI
PS Mér dettur í hug ein af fyrstu uppákomum listakonunnar Rúrí: Hún varð sér út um gamlan Mercedes Bens, málaði hann gylltan og fór með hann niður á Lækjartorg. Þar lagðist hún í bænastellingu fyrir framan bílin en sagði: AUMI ÞRÆLL ÉG VIL EKKI ÞJÓNA ÞÉR. Síðan dró hún upp stóra sleggju og lamdi "gullkálfinn" í spað. GOTT HJÁ RÚRÍ - GOTT HJÁ BRJÁNI.
Skuggi (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 10:52
Núna erum við að tala saman! Samt ekki þetta með skóna :)
Ofurskutlukveðja
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 11:35
Hahaha ... ég er sko sammála þér - og jammsí - ég er sko skóóður eða þannig, enda heilmikill labbari sko! Fyrir mér er bíll bara bíll - hlutur sem kemur mér einmitt eins og þú segir - á milli staða. Ef ég ætti heima nær miðborgarhringnum þá myndi ég losa mig við bílinn prontó og labba eða hjóla allt. En bíll er nauðsyn ef maður ætlar að geta farið eitthvað líka, ekki skreppur maður labbandi eða hjólandi í heimsókn til ættmenna í Keflavík t.d. .. Knús á þig ljúfurinn og takk fyrir mig þú eðalfjasari og masari..
Tiger, 11.5.2008 kl. 12:33
Bráðskemmtilegur pistill og ég tek undir heilshugar. Bílar eru tæki til að komast frá A til B - nema auðvitað í þeim tilfellum sem þeir eru atvinnutæki.
Ég hef svipaða reynslu... hef unnið fyrir sjónvarp í rúm 20 ár en hef engan áhuga á sjónvarpi og hef aldrei haft. Horfi á það í undantekningartilfellum - og auðvitað á fréttir. En sjónvarp er mitt atvinnutæki - og tölvan.
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.5.2008 kl. 12:50
skilðig Tígri, að maður myndi ekki nenna að skokka til ömmu gömlu í Kef á hverjum degi
ég var bíllaus þar til í okt. 2004 og fannst það alveg ágætt. ástæðan fyrir að ég fékk mér bíl þá er sú að ég var að eltast við kjellingu þar uppfrá
svo verður maður bara svo 'góðu' vanur og nennir ekki lengur að hreyfa á sér böttið nema akandi. ég er þó ekki enn búinn að afskrifa að fá mér hjól.
Brjánn Guðjónsson, 12.5.2008 kl. 01:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.