Vinir verðtryggingarinnar

Ég hlusta ekki oft á útvarp. Helst að það gerist þegar ég skrölti á skrjóð mínum milli A og B, eða milli B og C. Fyrir mörgum árum, ca 2002 - 2003, hlustaði ég oft á útvarp Sögu. Þá helst á Sigurð G. Tómasson. Mér þykir hann skemmtilegur útvarpsmaður. Þá fékk hann reglulega til sín gest, hagfræðinginn Guðmund Ólafsson. Þeir skröfuðu og skeggræddu. Gamlir og góðir kommar. Að minnsta kosti í orði.

Síðan eru liðin mörg ár.

Það hefur komið fyrir að ég hafi hlustað á þessa sömu stöð á þessu ári. Þá helst á sunnudagsmorgnum. Þá eru endurfluttir þættir frá vikunni áður. Ég hef heyrt þátt Sigurðar, sem enn fær Guðmund í heimsókn. Ég hef gaman af að hlusta á þá. Ég er ekki alltaf sammála þeim. Stundum þó. Þeir eru samt skemmtilegir kumpánar.

Einu hef ég tekið eftir. Þeir og þá sérstaklega Guðmundur, eru einarðir stuðningsmenn verðtryggingar. Mér hefur alltaf fundist það skondið, þegar þeir tala gegn íhaldinu fyrir auglýsingar og dásama verðtrygginguna eftir auglýsingar.

Rökin eru þau að verðtryggingin tryggi sparnað fólks. Okei, það er rétt að vissu leiti. Hvaða sparnað þá? Jú, kannski er enn til fólk sem sparar á gamla mátann. Þ.e. leggur inn á sparnaðarreikning í banka. Hvað lífeyrirssjóðina varðar, ávaxta þeir meira og minna peningana okkar á annan hátt.

Annað, sem Siggi og Gummi hafa líklega ekki leitt hugann að, er að þorri fólks á engan sparnað, annan en hinn lögbundna lífeyrissparnað, ávaxtaðan annarsstaðar en á bankabókum. Frekar í skulda- og hlutabréfum. Þorri fólks, alþýðan, á hinsvegar nóg af skuldum. Líklega eiga flestir þeirra sem tilheyra alþýðunni aðallega skuldir.

Er verðtryggingin góð fyrir þá sem skulda?

Ég spyr. Ég er auðvitað bara aumur forritari sem veit ekkert um peningamál Blush


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tiger

 Uss jamm.. auðvitað er sparnaður til framtíðar góður fyrir þá sem hafa efni á því að spara. það er náttúrulega bara feiti kallinn sem hefur haft ráð á því að spara - horaður landslýðurinn hefur ætíð verið tilneyddur í að nýta hverja lausa krónu til að kaupa mat og nauðsynjar svo lifað gæti mannsæmandi - eða í það minnsta lifað allavega. Knús á þig ljúflingurinn og habbðu ljúfa viku framundan!

Tiger, 6.10.2008 kl. 21:24

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mitt er allt undir koddanum.  Verð að hafa hátt undir höfði.

Jenný Anna Baldursdóttir, 6.10.2008 kl. 21:29

3 Smámynd: Brattur

Það er náttúrulega algjör steypa að það skuli ekki vera búið fyrir langa löngu að afnema þessa verðtryggingu... það er hún sem er að sliga allt venjulegt fólk og það áður en kreppan skall á... en launin standa í stað... og venjulega fólkið blæðir eins og alltaf... urr...

Brattur, 6.10.2008 kl. 21:30

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

já, allavega held ég að ég hafi ekki lækkað jafnmikið og hratt í launum síðan um árið, þegar ég var atvinnulaus.

Brjánn Guðjónsson, 6.10.2008 kl. 21:45

5 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Það eru ávallt einhverjir sem eiga sparnað. Til að lána út peninga þarf lánveitandi að fá peninga lánaða einhvers staðar frá. Þá fær hann úr sjóðum lánastofnunarinnar  sem hafa myndast af hagnaði auk innlána sparifjáreigenda, eða frá öðrum lánastofnunum. Sá sem sparaði/lánaði (lagði inn á bókina hjá lánastofnuninni) þarf raunvirði til baka, ásamt eðlilegu afgjaldi (vöxtum). Það fær hann einungis ef vextir eru nægjanlega háir til að dekka bæði eðlilega ávöxtun sem og verðbólgu hvers tíma einnig.

Vilji maður lán þá er alveg öruggt að viðkomandi lánveitandi vill fá að lágmarki samsvarandi verðmæti til baka ásamt leigunni á fjármununum. Alveg eins og eigandi bílaleigu tekur gjald fyrir leigu á bílnum ásamt fjármagns- og rekstrarkostnaði bílsins. Hann þarf að geta náð inn að lágmarki fyrir öðrum bíl í stað þessa bíls þegar hann hefur verið ekinn að endimörkum akstursgetu bílsins, auk reksturskostnaðarins. Ef þetta væri ekki gert þá væri enginn tilbúinn að leigja okkur bíl.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 6.10.2008 kl. 22:05

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Guðmundur er líka mikill virkjana- og stóriðjusinni. Hann vill virkja ALLT sem virkjanlegt er og heldur að það hali inn peninga.

Þótt hann búi og starfi í Borgarfirði virðist hann ekki sjá fegurðina í kringum sig og honum er slétt sama þótt hún verði lögð í rúst með allri þeirri mengun sem því fylgir.

Ég er ekki sammála honum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 6.10.2008 kl. 22:19

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

predíkari: bissnessinn gengur út á að fá erlend lán og endurlána á hærri kjörum. til þess þarf, in theory, engin innlán. þetta stunduðu bankastofnanir. enda fullt af góðum ódýrum lánum í boði, en auðvitað fengu þeir innlán líka.

öll lánastarfsemi gengur út á að fá lán og endurlána á hærri kjörum. simple as that, svo ég sletti. ekkert nýtt undir sólinni.

Brjánn Guðjónsson, 6.10.2008 kl. 23:12

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ekki vera vondir. stýrivaxtagaurinn bauð í partí

Brjánn Guðjónsson, 7.10.2008 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband