Sunnudagur, 23. nóvember 2008
Lán og ólán
Ég hef verið á fundi með loftinu um lánakjör.
Löngum hefur maður heyrt talað um hve yfirdráttarlán eru dýr. Fólk skyldi forðast þau eins og eldinn. Eru þau hinsvegar svo dýr? Jú, vissulega eru þau dýr. Reyndar á okurvöxtum. Reyndar eru öll lán meira og minna á okurvöxtum hér. Í samanburði við önnur lán eru þau samt kannski ekki svo dýr.
Yfirdráttarlán hafa kosti umfram önnur neyslulán. þegar öllu er á botninn hvolft eru þau jafnvel ódýrari.
Almennt neyslulán hjá Kaupþingi er á 23,15% vöxtum. Ofan á það bætist verðtryggingin. Ætli hún sé ekki í kring um 16% Í dag. Ofan á þetta bætast síðan 2% lántökugjald og 1,5% stimpilgjald. Samtals gera þetta 42,65%. Reyndar eru verðbæturnar breytilegar og því ekki gott að segja fyrir hvernig þær munu þróast.
Yfirdráttarlán eru almennt á um 29% vöxtum nú. Þau eru óverðtryggð og hvorki þarf að greiða lántöku- né stimpilgjöld.
Samanburðurinn er því auðveldur. Verðbætur þyrftu að hrapa niður í 2,35% til að neyslulánið verði á sömu kjörum og yfirdráttarlánið. Ég sé ekki fyrir mér að það muni gerast í bráð.
Útfrá þessum vangaveltum mínum fór ég að hugsa um verðtryggingu og húsnæðisverð.
Neysluvísitalan er reiknuð út frá verðlagsþróun hinna og þessara vara. Einhverra hluta vegna hafa menn haft húsnæðisverð þar inni, þrátt fyrir að tæplega geti það flokkast undir neyslu.
Á einhverju blogginu las ég rökstuðning fyrir verðtryggingunni. Þ.e. að sanngjarnt sé að verðtryggja lán ásamt því að rukka vexti.
Rökstuðningurinn var eitthvað á þessa leið, að ef A lánar B fyrir einum mjólkurlítra eigi verðtryggingin að sjá til að A geti á þeim tíma sem lánið er greitt, keypt einn mjólkurlítra fyrir peninginn. Vextirnir séu hinsvegar leiga sem B greiði fyrir afnotin af peningum A.
Ok. Ég get svo sem fallist á rökin, en hví er húsnæðislánið mitt verðtryggt með tilliti til verðþróunar á mjólk og appelsínum? Verð á neysluvörum hefur engin áhrif á verðgildi húsnæðisins. Því er blóðugt að hækkandi vöruverð hafi hækkandi áhrif á húsnæðislán, þegar verðgildi húsnæðisins fer lækkandi.
Fasteigna- og brunabótamat á að vera mælikvarði á verðgildi húsnæðis og er miðað við það þegar veðhlutfall er reiknað áður en lán er veitt.
Taki ég húsnæðislán fyrir 80% af verðgildinu er þá ekki rétt að lánið miðist við það? Hækki verðgildi húsnæðisins, hækki lánið og öfugt?
Ég tók lán í fyrra, fyrir 80% af verðgildi húsnæðisins samkvæmt fasteigna- og brunabótamati. Í dag stendur lánið í 100% af sama verðgildi. Lánið hækkar nefnilega með mjólkinni, appelsínunum og áfenginu, meðan fasteignin lækkar að raunvirði og jafnvel að nafnvirði.
Það er svona sem verðtryggingin brennir upp eigum landsmanna. Þess vegna er hún óréttlát.
Rök þeirra sem harðast vilja halda í verðtrygginguna eru þau að hún tryggi að sparnaður fólkst brenni ekki upp. Gott og vel.
Hvaða sparnað eru menn að tala um? Ég veit ekki til að Íslendingar hafi nokkurn tíma kunnað að spara. Jú, lífeyririnn. Við erum víst nauðbeygð að leggja hann til hliðar. Þó eru kannski ekki nema 50% líkur á að við náum nokkurntíma að nýta hann. Ég er nokk viss um að vera hrokkinn upp af áður en ég næ að kroppa í lífeyrinn. Gerist það hinsvegar tel ég litlar líkur á að ná að nýta hann allan.
Ég vil heldur bæta kjör mín nú, meðan ég er á lífi. Getað átt mínar eignir áfram, frekar en að láta þær brenna upp svo ég geti, kannski, orðið fátækt gamalmenni.
Athugasemdir
Fysrt þúr ert búinn að reikna veistu hvað þú átt að gera
hætta að Borga
Kveðja
Æsir (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 17:00
Flott grein hjá þér, ekki gleyma að þegar þú verður gamall þá verða þér skammtaðir peningarnir þínir og ef þú deyrð þá gufa þessir peningar upp eins og þeir hafi aldrei verið til... ég skal kíkja með þér í rusladallana glaður þegar við verðum gamlir....
moi101 (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 21:24
Lán með 23,15% vöxtum er reyndar örugglega óverðtryggt. Nógu slæmt samt.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.11.2008 kl. 22:12
Brjánn manstu eftir okurlánaranum fræga sem var dæmdur fyrir okurlán. Hvað var hann aftur að taka í vexti? Ég efast um að hann hafi haft samvisku í þetta.
Thee, 23.11.2008 kl. 23:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.