Föstudagur, 26. desember 2008
blog.is
Eftirfarandi tilkynning hefur örugglega ekki farið fram hjá neinum sem hér bloggar.
Breytingar á fréttabloggi
Frá og með 1. janúar næstkomandi verður einungis hægt að blogga um fréttir á mbl.is ef fullt nafn bloggara birtist á bloggsíðu hans. Bloggarar geta eftir sem áður bloggað undir stutt- eða gælunafni, en fullt nafn viðkomandi þarf að koma fram á höfundarsíðu til þess að möguleikinn að blogga um fréttir sé til staðar.
Sú breyting verður einnig á að blogg þeirra sem ekki eru með fullt nafn sýnilegt á höfundarsíðu mun ekki birtast á forsíðu blog.is eða á öðrum síðum mbl.is.
Þessi breyting er að ákvörðun ritstjórnar mbl.is, en einnig hafa borist tilmæli frá talsmanni neytenda. Á næstunni verður sendur póstur til bloggara með leiðbeiningum hvernig þeir geta birt fullt nafn á höfundarsíðu bloggsins. Langstærstur hluti bloggara birtir þegar nafn sitt og því hefur þetta áhrif á lítinn hluta bloggara.
Oft hefur maður séð fólk gera athugasemdir við nafnlausa bloggara. Þá í því samhengi að þeir eigi ekki að geta drullað yfir menn og málefni í skjóli nafnleysis.
Ég get s.s. alveg tekið undir það, per se.
Hins vegar er það þannig að ýmsir aðrir drulla yfir menn og málefni undir fullu nafni. Allavega var eina drullið sem ég hef fengið inn á mitt blogg skrifað af fullnefndum bloggara, sem er frægur fyrir röfl sitt. Ég sýni honum þá virðingu að veita honum nafnleysi hér.
Á blogginu er fullt af skemmtilega skrifandi fólki. Sumt undir nafni, en sumt ekki. Mér er slétt sama hvort einhver kallar sig Jón Jónsson eða TheDude, meðan ég hef gaman að skrifum hans. Oft finnst mér meira að segja dálítið gaman að vita ekki hver skrifar, því þá læt ég örugglega ekki persónu hans lita túlkun mína á skrifunum.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar, orti skáldið. Það á við okkur öll. Nefnd sem ónefnd. Þeir sem fara offari í dónaskap skulu gjalda fyrir það með aðvörun og síðan lokun á blogginu þeirra. Þá gildir einu hvort viðkomandi heitir Jón Jónsson eða TheDude.
Það sem hefur gert bloggið svo vinsælt er flóran af alls kyns fólki. Nú mun stór hluti þess hverfa burt. Eftir standa hinir sem birta nöfn sín, sem þó er engin trygging fyrir að skemmtilegt sé að lesa þá.
T.d. þeir sem blogga úr fílabeinsturni og leyfa ekki athugasemdir. Flest ef ekki allt fólk/samtök sem skrifa undir nafni. Nöfn sem ég legg mig fram um að muna svo ég geti sniðgengið þeirra blogg.
Nær væri að níðast á þeim.
Bloggið er nefnilega ekki dagblað eða eins og gömul rykfallin bók, eða konungstilskipun.
Bloggið er og á að vera gagnvirt. Við lifum nefnilega á 21. öldinni.
Einhver tilfinning segir mér að þetta sé upphafið að endalokum Moggabloggsins, eða í það minnsta vinsælda þess.
Hér er ein gild ástæða fyrir að fólk bloggi nafnlaust. http://alkinn.blog.is/blog/alkinn/
Og hafiði það.
Athugasemdir
Staksteinar og Víkverji drulla oft yfir nafngreint fólk. Það þýðir ekkert að réttlæta þetta með því að segja að ritstjórn Morgunblaðsins beri ábyrgð á þeim skrifum fyrir dómi og þess vegna sé það nafnleysi allt í lagi. En þá er nafnleysi bloggara líka allt í lagi því ef menn vilja stefna þeim fyrir dóm þá eru þeir með kennitölu á skrá hjá Moggaum svo auðvelt er að vita hverjir þar blogga ef menn vilja.
Sigurður Þór Guðjónsson, 26.12.2008 kl. 10:48
nákvæmlega Sigurður. þegar fólk skráir sig er það undir kennitölu.
Brjánn Guðjónsson, 26.12.2008 kl. 11:29
Þetta er bein árás á mig.
nafnlaus (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 09:04
Annars held ég að þessi breyting sé tilraun ríkisstjórnarinnar til þess að hafa allt á borðinu varðandi bankahrunið
nafnlaus (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 09:13
nafnlaus: bloggar þú úr fílabeinsturni?
Brjánn Guðjónsson, 30.12.2008 kl. 01:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.