Skýjað með kartöflum og blautt að kalla

Þá er upp runnin sú stund að ég veðurbloggi. Veðurfréttabloggi, réttara sagt.

Þær eru notalegar bernskuminningarnar, þegar fjölskyldan sat saman við eldhúsborðið. Gjarnan að borða hádegis- eða kvöldmat og útvarpið mallandi í bakgrunni. Ef ekki Jón Múli eða Pétur þulur að lesa fréttir, þá veðurfréttir frá Veðurstofu Íslands. Veðurfregnir voru þær ávallt kallaðar þá, en veðurfréttir í dag. Veðurfræðingurinn sat í stúdíói Veðurstofunnar og reglulega heyrðist bank frá klukku í bakgrunni.

Vinalegt.

Ég man vel að í þá tíð, þegar talað var um ský og kafla, að alltaf var talað um að væri skýjað á köflum. Það þykir mér enda eðlilegt, þar sem veðrið er köflótt og á sumum köflum eru ský og á öðrum ekki.

Í dag heyrir maður þetta ekki lengur. Allir sem á annað borð segja fregnir af veðri segja núorðið skýjað með köflum. Fyrst þegar ég heyrði þetta sagt hélt ég að þetta væri stytting á kartöflum.

Skýjað með kartöflum. Já og sósu.

Þar sem skýjað er með köflum, er þá líka skýjað á köflunum? Kannski engin ský. Bara sósa. Kannski þetta sé munurinn sem gerir veðurfregnir æskuáranna að veðurfréttum nútímans?

 

Einu sinni átti að vera þurrt að kalla. Ég fór út og kallaði ekki, heldur þagði. Það var líka þurrt þannig. Þurrt að þegja.

Nú í kvöld er hinsvegar blautt að þegja. Kannski ég skjótist útfyrir og kalli út í nóttina. Kannski þá stytti upp?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Brjánzi, þúrt ~znilld~ ..

Steingrímur Helgason, 2.1.2009 kl. 22:24

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hafðu bestu þakkir fyrir mat þitt á persónu minni.

var þetta nokkuð of háfleygt?

Brjánn Guðjónsson, 2.1.2009 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband