stjórnmál Nýmynduð ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hyggst setja lög um séreignarsparnað svo sjóðsfélagar sem komnir eru í fjárhagskröggur geti fengið fyrirgreiðslu úr honum tímabundið til þess að borga skuldir sínar.
Í verkefnaskrá hennar sem kynnt var í gær segir: "Sett verða lög um séreignarsparnað sem veita sjóðsfélögum tímabundna heimild til fyrirframgreiðslu úr séreignarsjóðum til að mæta brýnum fjárhagsvanda."
"Það hringdi í mig kona norðan úr landi, atvinnulaus með þrjú börn, sem á talsverða peninga inni á svona reikningi en á í miklum erfiðleikum með að ná endum saman í dag. Orð hennar duga mér eiginlega sem rök, því hún sagðist heldur vilja að börnin sín fái að borða í vetur en að hún eigi einhvern sparnað þegar hún kemst á elliárin. Það er kannski einfalda röksemdafærslan í þessu," segir Steingrímur J. Sigfússon, nýr fjármála-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann segir ekki tímabært að lýsa mögulegum framkvæmdaleiðum nákvæmlega. "Hugsanlegar leiðir verða að sjálfsögðu ræddar við sjóðina áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Ætlunin er ekki að galopna þessa sjóði heldur að skoða hvernig þetta geti orðið fólki í knýjandi þörf til bjargar. Bæði er hægt að hugsa sér að þetta verði almennar reglur með tilteknum takmörkunum og líka að staða fólks verði skilgreind í þessu tilliti," segir Steingrímur.
"Ég var með frumvarp í smíðum sem kvað á um það sama og hefði verið kynnt fyrir ríkisstjórninni á þriðjudag í síðustu viku hefði hún fundað þá," segir Árni Mathiesen, fráfarandi fjármálaráðherra. Hann segir þó ákveðna hættu geta falist í þessari leið. "Sérstaklega fyrir minni sjóðina sem ekki hafa mikið lausafé," útskýrir hann. "Þeir gætu þá hugsanlega þurft að selja það sem er auðseljanlegast úr skuldabréfasafninu til að greiða út og þá sætu eftir bréf sem eru ekki jafn mikils virði. Þá gætu þeir sem ættu eftir í sjóðnum setið uppi með slakari eign."
Hann segist ekki sjá á verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar af hverju Samfylkingin hefði þurft að slíta samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn því á skránni séu meira og minna sömu mál og sami andi og unnið var eftir í síðustu ríkisstjórn.- jse,kg / sjá síður 4 og 6.
Athugasemdir
Ég er sammála þér með að það ætti hiklaust að setja af stað varnarborg um þá sem hafa staðið í skilum en sjá fram á að missa það framaf brúninni á næstu vikum/mánuðum. Hins vegar mætti alveg setja af stað einhverjar aðgerðir við hliðina á þeirri varnarborg - einhverjar aðgerðir sem miða að því að leita af leiðum til að draga upp á bjargbrúnina sem mögulega er hægt að draga til baka - og hlú að þeim sem fallið hafa á gilbotninn svo þeir geti í það minnsta lifað mannsæmandi lífi og hafi í sig og á allavega.
Kisskiss kroppur ..
Tiger, 2.2.2009 kl. 21:54
Ég er bara hjartanlega sammála konunni norðan heiða. Ég meina ég gæti verið dauð á morgun hvað veit ég. Ég vil lifa í núinu. Maður er búin að tapa helvíti nógu miklum peningum í þessu nú þegar. Þetta eru MÍNIR peningar og ég vil bara fá þá greidda án nokkurra vandkvæða hvort einhverjum þóknast að segja hvort ég sé að barmi gjaldþrots eða kannski á barmi gjaldþrots.eða ekki á barmi gjaldþrots. Ég veit bara að ég skulda eins og lungað af þjóðinni, skuldir sem hafa farið lóðrétt uppá við og ef þetta getur hjálpað fólki að létta á greiðslum þá er það góð leið að mínu mati .
Jóka (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 22:40
Ég deili þessum áhyggjum varðandi hítina með þér Brjánn. Þetta er erfið staða og nú er enginn tími til að læra af reynslunni.
Soffía Valdimarsdóttir, 3.2.2009 kl. 12:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.