Niðurfelling skulda. Hver skal njóta vafans?

Hugmynd framsóknarmanna, sem Tryggvi Þór Herbertsson hefur einnig talað fyrir, hefur hlotið dræmar undirtektir ráðamanna, vægast sagt. Í morgunblaðinu í dag fjallar viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, um hana. Ég hef ekki lesið téða grein en samkvæmt útdrættinum sem visir.is birtir, má þar vel greina háð.

Hafandi lesið þennan útdrátt hefur styrkst sú tilfinning mín, að helsta ástæða þess að menn setji sig á móti hugmyndinni sé sú að einhver, sem ekki hefur þörf fyrir niðurfellingu skulda, muni hagnast. Í því ljósi hafa menn sagt hugmyndina óréttláta.

Gylfi tekur dæmi af Tryggva, Þór og Herberti. Í dæminu gefur Gylfi sér þær forsendur að Þór nýtist ekki 2ja milljóna niðurfelling skuldar sinnar. Hann fari í gjaldþrot hvort eð er. Á sama tíma græði Tryggvi 2 milljónir, sem skuldeigandinn, Herbert, „tapar.“ Síðan klikkir Gylfi út með að nefna að Tryggvi ætli að kaupa sér vélsleða eða mótorhjól fyrir „gróðann.“

Að því gefnu að hugmyndin um 20% niðurfellingu skulda yrði að veruleika mun vissulega einhverjir „hagnast“ og einhverjir færi hvort eð er á hausinn. Hinsvegar mun mörgum fjölskyldum og einstaklingum verða bjargað frá þeim harmleik sem gjaldþrot er.

 

Hver skal njóta vafans?

 

Það er einhverskonar eitur í beinum sumra að hugsanlega geti einhver hagnast og þá sé betra að einhver annar blæði, til að koma í veg fyrir það.

Í dæmi Gylfa verða 10 milljóna skuldir að 8 milljónum. Fyrir þorra fólks þýðir það lækkun mánaðarlegra greiðslubyrðar um ~10 þúsund kall. Munar marga um minna. Þar sem líklega megi gera ráð fyrir að skuldir fólks séu tvöfalt hærri en það, þýðir það annan 10 þúsundkall á mánuði. Prófið að reikna fyrir ykkur sjálf. Kannski munar Gylfa ekki um 2 millur til eða frá, en mig myndi muna verulega um þann 20 þúsundkall sem þetta myndi spara mér.

Ég vil setja fram mitt eigið dæmi af þeim bræðrum, Gylfa og Magnúsi. Gylfi er í góðum málum og á ekki í vandræðum með að greiða af sínum skuldum. Magnús hinsvegar, hangir á horriminni. Hann rétt nær að láta enda ná saman og þarf annað slagið að ýta reikningum undan sér milli mánaða. Að öllu óbreyttu er það ekki hvort, heldur hvenær, þeim leik lýkur með gjaldþroti.

Gylfi græðir ekkert, en Magnús fer í gjaldþrot.

Einn góðan veðurdag ákveða stjórnvöld að afskrifa 20% af skuldum þeirra beggja.

Eftir það er Gylfi í betri málum og Magnúsi tekst að ná endum saman, án þess að þurfa að geyma reikninga milli mánaða. Hvílíku fargi sem af honum er nú létt. Ekki síst andlegu fargi.

En nei. Það að Gylfi verði í betri málum má alls ekki. Þá er betra að Magnús fari á hausinn.

Er það virkilega þannig sem sósíaldemókratar hugsa? ööhh, ríkisstjórnarflokkarnir vilja jú kenna sig við þá stefnu, er það ekki? Ég hef hingað til flokkað mig sem sósíaldemókrata, en ég kæri mig lítið um félagsskap fólks sem hugsar á þann hátt sem ríkisstjórnin virðist gera.

Fyrir mér er þetta sama og að af tveimur slæmum kostum er sá verri, að saklausum manni sé refsað en að sá seki sleppi. Stjórnvöld vilja hinsvegar setja þá báða inn, svo þeim seka verði nú allavega örugglega refsað.

Menn vilja heldur fara sértækar leiðir, sem alltaf munu skilja einhverja útundan sem þurfa á leiðréttingunni að halda, en lenda utan rammans. Er það réttlæti?

Eins og einhver hefur kannski tekið eftir að ofan, setti ég orðin tapar, gróðann og hagnast, innan gæsalappa. Ástæðan fyrir því er sú að sé niðurfelling skulda framkvæmd sem handvirk lækkun á vísitölu til verðtryggingar, er í raun enginn sem hagnast né tapar. Þá er hagnaðurinn í raun aðeins sá að sleppa við aukin útgjöld og tapið í raun bara það að missa af hagnaði. Svona eins og að eiga miða í happadrættinu og fá milljónavinning, hafandi gleymt að endurnýja. Ekki raunverulegt fjárhagslegt tap.

En allavega. Gylfi, úr dæminu mínu, mun allavega halda áfram að græða á daginn og grilla á kvöldin. Spurningin er bara sú hvað Magnús muni gera á daginn. Gleðjast eða gráta áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Brjánn, mér finnst bara að það sé grunsamlegt að svona miklir peningar verði til úr engu. Loftfimleikar framsóknarmanna hafa hingað til ekki reynst vel. Þú gerir að aðalatriði að einhverjir óverðugir græði hugsanlega, en svo er ekki.

Sæmundur Bjarnason, 20.3.2009 kl. 12:52

2 identicon

Það virðist vera að svona hugsi socialdemokratarnir, því miður. Vilja ekki velta þessu fyrir sér en hæða hugmyndina og í leiðinni gera grín að þeim sem eiga erfitt. Þetta er ljótt af þeim og ættu að skammast sín.

Soffía (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 13:14

3 identicon

Af hverju er talað um gróða og tap ? af hverju er ekki tlað um LEIÐRÉTTIRNGU ? Við erum að tala um peninga sem við fengum ekki að láni en við þurfum samt að borga. Þessu var smurt á lánin okkar vegna aðgerða(leysi) stjórnvalda.

 Ég vil sjá þessa aðferð vel útfærða fyrir svona venjulegt fólk og ég trúi ekki öðru en þetta sé vel framkvæmanlegt. Þessi kjánalega grein viðskiptaráðherra segir mér ekkert nema það að ráðherrann hefur lélegan húmor. Mér finnst ekkert grín gerandi að skuldaaukningu heimilanna.

Björg (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 13:19

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Nákvæmlega, Björg.

Sæmumdur. Einu loftfimleikarnir er verðtryggingin sjálf. Skuldaaukning í formi lofts. Það er rangt hjá Viðskiptaráðherra að setja dæmið upp á þann hátt að Herbert hafi lánað 10 milljónir sem af verði teknar 2 milljónir, þannig að hann komi út í tapi. Réttara hefði verið að setja dæmið upp þannig að upphaflega lánið hefði verið 8 milljónir, sem hefði síðan vaxið í 10 milljónir vegna verðbóta. Sem er ekkert annað en 2ja milljóna hagnaður til handa Herberti. Afskriftin myndi því fjarlægja það loft sem verðbæturnar eru. Lánið færi í upphaflegu upphæðina. Eftir sem áður væri Herbert í plús, því skuldin sem hann á útistandandi hjá hvorum um sig er enn sú sama og í upphafi, þrátt fyrir að allan tímann hafi þeir greitt af lánum sínum.

Hver er að tapa? Enginn. Ekki frekar en í dæmi mínu um happadrættisvinninginn.

Brjánn Guðjónsson, 20.3.2009 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband