Klósettferðir alþýðumanns

Þessa frétt var ég að reka augun í, rétt í þessu. Fréttin fjallar í smáatriðum um för belgísks manns á salerni lögreglunnar.

Allt í lagi, svo sem, að segja frá að ólögleg efni hafi fundist í fórum manns. Jafnvel að fram komi að efnin hafi hann falið í iðrum sér.

Þó vekur athygli mína að tiltekin eru smáatriði sem ég veit satt að segja ekki hversu fréttnæm eru, ef nokkuð.

Fyrst Vísir hefur ákveðið að fara út í smáatriðin finnst mér hann hafi átt að gera það almennilega. Maður er skilinn eftir algerlega í lausu lofti. Það er ekki fallega gert af Vísi.

Vitandi að hægðir mannsins áttu sér stað seint í gærkvöldi, verð ég ekki í rónni fyrr en ég veit klukkan hvað þær áttu sér stað. Var það fyrir miðnætti eða eftir?

Mér er þó létt að vita til að maðurinn hafi notað laxerolíu. Þó er ég skilinn eftir í lausu lofti þar líka.

Drakk hann laxerolíuna eða notaðist hann við stíl? Fékk hann aðstoð við inntöku olíunnar og hver veitti þá aðstoð? Fagaðili eða þvagleggsmaður?

Eins kemur hvergi fram hvort maðurinn hafi brúkað salernispappír eður ei, að athöfn lokinni. Ég geri þó ráð fyrir að maðurinn hafi sjænað sig eilítið á eftir.

Þá vaknar enn fleiri spurningar. Var það gert með eða án aðstoðar? Var notaður dagblaðapappír í sovéskum gúlag-stíl, eða var notaður mjúkur pappír, eins og mannréttindasáttmálinn kveður á um? Hvar er Amnesty?

Ég vona Vísismenn bæti fréttaskrif sín í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband