Laugardagur, 25. apríl 2009
Með frið í hjarta
Þá er mitt atkvæði komið í kjörkassann.
Sem háaldraður maður hef ég kosið nokkrum sinnum áður. Ég hef ávallt kosið til vinstri. Þó ekki fyrr en síðustu ár að ég hafi tekið út þann þroska að getað staðsett mig fyrir alvöru í pólitík. Hægri krati. Sem slíkur kaus ég Samfylkinguna síðast, líka þar áður og þar áður. Fyrir tilstuðlan tregðulögmálsins kom Samfylkingin því ein til greina framan af fyrir kosningarnar nú. Þá fór ég alvarlega að velta fyrir mér Borgarahreyfingunni og því sem hún stendur fyrir og stendur ekki fyrir.
Mér varð hugsað til baka, aftur til vetrarmánaðanna og rifjaði upp hvernig mér leið þá. Í nokkra daga stóð valið milli S og O. Að lokum fann ég að í hjarta mínu vil ég breytingar. Ég vil nýtt Ísland. Eins og eflaust margir aðrir, velti ég fyrir mér hvort atkvæðinu yrði ekki kastað á glæ með að kjósa örframboð. Ef allir hugsuðu þannig gerðist aldrei neitt nýtt. Kannski einmitt þess vegna sem aldrei hefur neitt nýtt gerst hér og við sitjum uppi með sama liðið, trekk í trekk.
Ég tók þá afstöðu að láta ekki 5% múr og hræðsluáróður hamla mér frá að fylgja sannfæringu minni og hjarta. Gott ef það var bara ekki daginn eftir sem örframboðið mældist yfir 5% í könnun. Ég hefði betur tekið ákvörðunina fyrr.
Ég minnist þess ekki að hafa liðið jafn vel á leið úr kjörklefanum. Vitandi að ég hafi fylgt hjarta mínu alla leið. Ég geri mér alveg grein fyrir að það verður engin bylting á þingi, en dropinn holar steininn.
Ég skora á alla að fylgja hjarta sínu í kjörklefanum. Hvar svo sem það slær.
PS. Fyrir þá sem eru óákveðnir, má kjósa líka út frá fegurðarsjónarmiðinu eins og ég sá í athugasemd á einu bloggi. Æfa sig að setja X við alla bókstafi og velja þann sem lítur best út.
x|_|_
_|o|_
|x|o
ekki flókið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.