Fimmtudagur, 28. maí 2009
Þetta er nú öll skjaldborgin
Þegar menn reisa múra, til að halda öðrum úti, múra þeir sjálfa sig um leið inni.
Nú hefur ríkisstjórnin hafið byggingu hinnar margumtöluðu og margeftirlýstu skjaldborgar. Nú sér fólk loksins hvers eðlis sú skjaldborg er.
Múr umhverfis þjóðina.
Múr sem lokar úti; áhyggjuleysi, lífsgæði og velsæld. Múr sem lokar landsmenn inni, í fangelsi hækkandi skulda og hækkandi vöruverðs. Kaupmátturinn rýrður tvöfalt. Frá báðum áttum.
Vissulega er það rétt, að þegar að kreppir, fjárhagslega, þarf fólk að gera a.m.k. annað af tvennu. Draga úr útgjöldum og auka tekjur. Reyndar er yfirleitt auðveldara að draga úr útgjöldunum en auka tekjurnar, því tekjuaukningin felst í að búa eitthvað nýtt til. Hér er engin raunveruleg tekjuaukning á ferðinni. Reyndar fær ríkið fleiri krónur í ríkiskassann, en íslenska þjóðin er ekki að auka tekjur sínar því þessar tekjur eru jafnframt útgjöld fólksins sem myndar þjóðina sem á ríkið.
Fjármunir eru færðir úr hægri vasanum í þann vinstri (græna).
Standi ég frammi fyrir að þurfa að gera skurk í fjármálum mínum, byrja ég á að líta á útgjaldahliðina. Skoða hvort og hvar ég geti skorið niður. Ég byrja ekki á að seilast í vasa barnanna minna og skikka þau til að borga (meira) til heimilisins.
Þessi aðgerð er svolítið þannig, að mér finnst. Hví var ekki byrjað á niðurskurði?
T.d. á 600 milljóna króna sendiráðinu í Japan. Einhver hundruð milljóna mætti spara til viðbótar með fækkun (sameiningu) annarra sendiráða.
Þessi hækkun álaga er tíkallabissness. Hverju mun 10% hækkun vörugjalda á bifreiðar skila þegar bílasala er við alkul?
Ég var fyrr í dag að ræða við mann um lífsins gagn og nauðsynjar. Hann sagði eitthvað á þessa leið; Fyrst við höfum þessa ríkisstjórn, er ég hræddur um að aðgerðir verði ekki nógu markvissar. Ég svaraði; Þú meinar að þetta verði bara tíkallabissness?
Svei mér þá. Dagurinn ekki liðinn og maðurinn kominn á stall með Nortradamusi í mínum huga.
Í viðtengdu fréttinni segir; Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessu eru áætlaðar samtals 4,4 milljarðar króna á ársgrundvelli, en áhrif þeirra á tekjur ríkissjóðs á þessu ári nema um 2,7 milljörðum.
Skilji ég málið rétt eru brúttótekjurnar 4,4 milljarðar, en nettótekjurnar ekki nema 2,7 milljarðar. Væntanlega vegna einhvers kostnaðar sem þeim fylgir, í formi aukinna endurgreiðsna úr ríkissjóði.
Það þarf ekki mörg sendiráð til að ná þessarri upphæð. Sér í lagi ef útgjöld til varnarmála eru tekin með, ásamt mörgum öðrum óþarfa útgjöldum.
Síðast en ekki síst munu hækkanirnar hækka vísitölu neysluverðs um 0,5%. Sem munu auka skuldir heimilanna að sama skapi.
Þetta er nú öll skjaldborgin.
Minnir mig á það, að trommusettið í skúrnum myndi sóma sér vel á Austurvelli.
Mælt fyrir hækkun gjalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Amen og bless fagra Ísland! Hvenær fer næsta flugvél héðan? Eða bara einhver dallur? Mér er slétt sama hvert, bara burt héðan!!!!
Himmalingur, 28.5.2009 kl. 22:56
klukkan sjö, til Honolulu. Við þangað.
Ukulele og blómameyjar. Hvað getur maður beðið um meira?
Brjánn Guðjónsson, 28.5.2009 kl. 23:59
Enn eitt dæmið um það hvers vegna við megum ekki þagna í kröfunni um algert afnám verðtryggingar! Þvílíkt bull. Ég er ekki að fara að kaupa mér nýjan bíl, ég kaupi nánast aldrei áfengi og þessa stundina á ég ekki einu sinni bíl til að kaupa bensín á, þó ég kaupi það á lánsbílinn. Samt munu lán mín hækka um 250 Þkr bara vegna þessarar pennastriksráðstöfunar.
Karl Ólafsson, 29.5.2009 kl. 01:21
ok, ég nota allt af þessu þrennu. tóbak, áfengi og bensín.
samt finnast örugglega einhverjir sem bara taka sinn strætó og reykja hvorki né drekka.
þeir munu samt að súpa seiðið af þessum hækkunum.
Blessuð sé verðtryggingin.
Brjánn Guðjónsson, 29.5.2009 kl. 01:46
Áttu trommusett, Brjánn? Kanntu að spila á trommur?
Lára Hanna Einarsdóttir, 29.5.2009 kl. 02:50
Ég mæli með annarri búsáhaldabyltingu. Láta í okkur heyra again
Jóka (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 09:33
það tilheyrir syninum. hann var að læra en hættur því.
ég er nú enginn atvinnutrommari, en með lagni tekst mér að tromma og halda takti.
Brjánn Guðjónsson, 29.5.2009 kl. 11:55
ég mæti með mín búsáhöld; tappatogarann, sjússamælinn og hristarann.
Brjánn Guðjónsson, 30.5.2009 kl. 15:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.