Miðvikudagur, 9. desember 2009
Skjaldborg heimilanna
Við munum líklega flest eftir orðskrúðnum um skjaldborgina sem slá átti um heimilin. Í sumar var kynnt svokölluð greiðsluaðlögunarleið.
Greiðsluaðlögunin er hugsuð fyrir þá sem þegar eru komnir að hengifluginu og á að bjarga þeim frá að fara fram af því. Fólk fær settan yfir sig einhvern buddustjóra en fær jafnframt einhverjar niðurfellingar, eins og á námslánum. Mér finnst ekkert athugavert við niðurfellingarnar. Mér finnast þær eðlilegar. Málið snýst jú um að forða fólki frá gjaldþroti.
En...
Svo eru hinir sem ekki eru komnir alveg að hengifluginu, en stefna þangað verði ekkert að gert. Fyrir þá eru engin úrræði.
Þegar mat fer fram á greiðslugetu fólks er gjarnan miðað við skattframtöl fyrri ára. Þannig ákvarðar t.d. LÍN tekjutengdar greiðslur. Einnig eru úrskurðir til aukameðlaga miðaðir við tekjur 2 ár aftur í tímann.
Það vantar alveg rauntíma tekjuviðmið. Þ.e. hvernig tekjur fólks eru í núinu. Kannski 3 til 6 mánuði aftur, að hámarki.
Kerfið miðar sem sagt ekki við núverandi ástand heldur fyrrverandi ástand. Sá sem hafði rífandi góðar tekjur í fyrra, en hefur verið án vinnu síðan í janúar greiðir samkvæmt sínum fyrri rífandi tekjum. Vitanlega stendur hann ekki undir því í dag, hafandi hrapað í tekjum.
Þegar fólk missir vinnuna og hrapar í tekjum gerast hlutirnir hratt. Strax næstu mánaðamót, eftir að atvinnuleysisbætur taka við af fyrri launum, hættir fólk að geta greitt alla reikningana sína. Þá byrjar snjóboltinn að rúlla og stækka.
Fólk frestar greiðslu eins reikningsins til næsta mánaðar. Þá er hann greiddur og öðrum festað og svo koll af kolli þar til einhverjum reikningum hefur verið frestað nógu lengi til að greiðsluáskorananirnar fari að berast. Vitanlega engin úrræði að hafa enn, þar sem launin í fyrra voru svo ágæt. Það var hins vegar í fyrra.
Þannig getur fólk verið komið að hengifluginu, án þess að kerfið líti svo á. Því allt var svo sallafínt í fyrra, og/eða árið þar áður.
Þannig að, engin úrræði eru til til að forða fólki frá að fara fram að hengifluginu. Bara úrræði til að fólk fari ekki fram af því, hafi nógu langur tími liðið þannig að í fyrra" sé orðið að atvinnulausa árinu.
Þannig að sá sem missti vinnuna í desember 2008 og hefur verið á atvinnuleysisbótum síðan uppsagnarfrestur rann út, má líklega fyrst vænta úrræða í mars eða apríl 2010, þegar atvinnuleysisárið 2009 verður orðið að fyrra ári, samkvæmt skattaskýrslunni sem skilað er í mars - apríl.
Fólk greiðir ekki reikningana sína í dag með tekjunum frá í fyrra eða árinu þar áður, heldur með tekjum dagsins í dag. Þess vegna er skjaldborgin lítið annað en gjaldborg, því hún bjargar engum fyrr en allt er komið í óefni. Í stað þess að reyna líka að bjarga fólki frá að komast í óefni.
Einn ráðherra gjaldborgarinnar taldi ekki í mannlegum mætti að fella niður skuldir almennings, að neinu leiti. Þrátt fyrir að þær séu mannanna verk.
...
Fólk hefur kallað eftir réttlátri leiðréttingu skulda.
Allir vita hvernig gengið hrapaði árið 2008, vegna leikfimi bankanna og annars pengingafólks. Þeir sem tóku gengistryggð lán máttu svo sem vita af áhættunni, en boy oh boy. Hver gat ímyndað sér að hinir sömu og gáfu góð ráð um hve gott væri að taka gjaldeyrislán myndi síðan hafa sig alla fram við að fella gengið. Gengið hrapaði í lok hvers ársfjórðungs árið 2008, muni ég rétt. Tilviljun? Lyktar eins og svik í mínum huga.
Svo voru hinir sem vildu hafa vaðið fyrir neðan sig og tóku hefðbundin verðtryggð lán. Reiknuðu væntanlega með hærri verðbólgu yfir lánstímann en aftur, boy oh boy. Vitanlega hefur hið fellda gengi hækkað til muna innkaupsverð innfluttra vara og þar sem margar þeirra eru notaðar til reiknings vísitölu neysluverðs hefur hið fellda gengi óbeint hækkað verðtryggðu lánin líka. Svo við tölum ekki um undanfarnar hækkanir á gjöld sem lögð eru á hinar og þessar vörur. Allt hækkar það verðlagið, sem aftur hækkar vísitöluna, sem aftur hækkar lánin. Kaupmátturinn semsagt lækkaður beggja megin frá. Í hækkuðu vöruverði og í hækkuðum afborgunum lána, sem afleiðing hækkaðrar vísitölu.
Við lifum í absúrd umhverfi, verandi með verðtrygginguna.
Í eðlilegu umhverfi, án verðtryggingar, skiptir ekki öllu máli hvort auknar skattaálögur eru lagðar á beint með hækkun tekjuskatts eða annarra beinna skatta, eða með hækkun virðisaukaskatts. Virðisaukaskattshækkanir hafa áhrif á verðlag. Í umhverfi án verðtryggingar snerta þeir skattar neytandann á sama hátt og hækkun tekjuskatts. Þ.e. kaupmátturinn minnkar. Punktur.
Í kerfi verðtryggingarinnar verður vissulega líka lækkun kaupmáttar, en sú lækkun verður meiri þar sem hækkanir virðisaukaskatts og vörugjalda hækka neysluverðsvísitöluna og þar með líka höfuðstól hinna verðtryggðu lána sem almenningur skuldar. Því ættu menn að forðast hækkanir virðisaukaskatts og vörugjalda í lengstu lög en reyna fyrst að hækka beinu skattana, sem hækka ekki lánin.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa hingað til verið fólgnar í að hækka óbeinu skattana sem hafa bein áhrif á verðlag, t.d. með hækkun á áfengisgjaldi og olíugjaldi. Þær hækkanir hafa ekki bara hækkað verð á áfengi og eldsneyti, heldur ekki síst hækkað húsnæðislán fólks, hversu absúrd sem það nú er.
Ráðherrar ríkisstjórnar Íslands telja ekki hægt að afnema verðtryggingu. Þrátt fyrir að hún sé mannanna verk, en láta það hins vegar verða sín fyrstu verk að hækka óbeina skatta og gjöld, sem fara beint út í neysluverðsvísitöluna og auka þar með á greiðslubyrði fólks.
Svona er skjaldborgin í hnotskurn. Gjaldborg.
Námslánaskuldir felldar niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill hjá þér....
Helga , 10.12.2009 kl. 11:25
Kjarni málsins. Þegar þetta er haft í huga og það kerfi sem okkur er boðið uppá er auðvelt að álykta sem svo að greindarvísitala embættismanna og stjórnmálamanna sem leggja línurnar sé í lægri kantinum.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 10.12.2009 kl. 12:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.