Lán og ólán

Ég hef verið á fundi með loftinu um lánakjör.

Löngum hefur maður heyrt talað um hve yfirdráttarlán eru dýr. Fólk skyldi forðast þau eins og eldinn. Eru þau hinsvegar svo dýr? Jú, vissulega eru þau dýr. Reyndar á okurvöxtum. Reyndar eru öll lán meira og minna á okurvöxtum hér. Í samanburði við önnur lán eru þau samt kannski ekki svo dýr.

Yfirdráttarlán hafa kosti umfram önnur neyslulán. þegar öllu er á botninn hvolft eru þau jafnvel ódýrari.

Almennt neyslulán hjá Kaupþingi er á 23,15% vöxtum. Ofan á það bætist verðtryggingin. Ætli hún sé ekki í kring um 16% Í dag. Ofan á þetta bætast síðan 2% lántökugjald og 1,5% stimpilgjald. Samtals gera þetta 42,65%. Reyndar eru verðbæturnar breytilegar og því ekki gott að segja fyrir hvernig þær munu þróast.

Yfirdráttarlán eru almennt á um 29% vöxtum nú. Þau eru óverðtryggð og hvorki þarf að greiða lántöku- né stimpilgjöld.

Samanburðurinn er því auðveldur. Verðbætur þyrftu að hrapa niður í 2,35% til að neyslulánið verði á sömu kjörum og yfirdráttarlánið. Ég sé ekki fyrir mér að það muni gerast í bráð.

 

Útfrá þessum vangaveltum mínum fór ég að hugsa um verðtryggingu og húsnæðisverð.

Neysluvísitalan er reiknuð út frá verðlagsþróun hinna og þessara vara. Einhverra hluta vegna hafa menn haft húsnæðisverð þar inni, þrátt fyrir að tæplega geti það flokkast undir neyslu.

Á einhverju blogginu las ég rökstuðning fyrir verðtryggingunni. Þ.e. að sanngjarnt sé að verðtryggja lán ásamt því að rukka vexti.

Rökstuðningurinn var eitthvað á þessa leið, að ef A lánar B fyrir einum mjólkurlítra eigi verðtryggingin að sjá til að A geti á þeim tíma sem lánið er greitt, keypt einn mjólkurlítra fyrir peninginn. Vextirnir séu hinsvegar leiga sem B greiði fyrir afnotin af peningum A.

Ok. Ég get svo sem fallist á rökin, en hví er húsnæðislánið mitt verðtryggt með tilliti til verðþróunar á mjólk og appelsínum? Verð á neysluvörum hefur engin áhrif á verðgildi húsnæðisins. Því er blóðugt að hækkandi vöruverð hafi hækkandi áhrif á húsnæðislán, þegar verðgildi húsnæðisins fer lækkandi.

Fasteigna- og brunabótamat á að vera mælikvarði á verðgildi húsnæðis og er miðað við það þegar veðhlutfall er reiknað áður en lán er veitt.

Taki ég húsnæðislán fyrir 80% af verðgildinu er þá ekki rétt að lánið miðist við það? Hækki verðgildi húsnæðisins, hækki lánið og öfugt?

Ég tók lán í fyrra, fyrir 80% af verðgildi húsnæðisins samkvæmt fasteigna- og brunabótamati. Í dag stendur lánið í 100% af sama verðgildi. Lánið hækkar nefnilega með mjólkinni, appelsínunum og áfenginu, meðan fasteignin lækkar að raunvirði og jafnvel að nafnvirði.

Það er svona sem verðtryggingin brennir upp eigum landsmanna. Þess vegna er hún óréttlát.

Rök þeirra sem harðast vilja halda í verðtrygginguna eru þau að hún tryggi að sparnaður fólkst brenni ekki upp. Gott og vel.

Hvaða sparnað eru menn að tala um? Ég veit ekki til að Íslendingar hafi nokkurn tíma kunnað að spara. Jú, lífeyririnn. Við erum víst nauðbeygð að leggja hann til hliðar. Þó eru kannski ekki nema 50% líkur á að við náum nokkurntíma að nýta hann. Ég er nokk viss um að vera hrokkinn upp af áður en ég næ að kroppa í lífeyrinn. Gerist það hinsvegar tel ég litlar líkur á að ná að nýta hann allan.

Ég vil heldur bæta kjör mín nú, meðan ég er á lífi. Getað átt mínar eignir áfram, frekar en að láta þær brenna upp svo ég geti, kannski, orðið fátækt gamalmenni.


Mótmæli ehf

Ég fór á mótmælafund í dag. Gott mál. Þarna voru margir að mótmæla (með klappi)

Þegar ég var að ala upp mín börn, komast ég fljótt að því að þýddi ekkert að hafa í frammi hótanir væri þeim ekki fylgt eftir. Þannig yrði maður bara ómerkilegur larður. Sem maður og varð, gengi maður ekki eftir hótununum.

Í dag eru Íslendingar að mótmæla. Reyndar virðast mótmælin vera í eigu Harðar Torfasonar. Enginn flokksbundinn fær að mótmæla og ekki Stulli trukkakall. Ok, ég skil vel að vilja halda pólitíkusum frá. Hvers vegna fékk Stulli trukkur ekki að tala? (gerir of mikið vesen) og hvernig er fólk valið á mælendaskrá?

Listamenn og þeir sem hafa verið á félagsvísindabraut HÍ. Hvaða fávitaháttur er þetta? 

 

Ég taldi mig vera að taka þátt í mótmælum, en ekki útifundi áhugamanna um ljóðalestur. Fokk itt!

Er nema von að fólk hendi eggjum?


Ísland er...

...land þitt, eða ekki

 

lagið er í spilaranum

 

Höfundur lags: Magnús Þór Sigmundsson
Höfundur texta: Hallgrímur Helgason
Flytjandi: Mói Hallfreðs


Mótmæli dagsins

LoXins lætur maður af því verða að mæta.

Smá klippa í tilefni dagsins.


Nafnbreyting, en ekki kennitöluskipti

Bókarupplestur Seðlabankastjóra í gær hefur valdið því að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að gera skipulagsbreytingar í bankanum. Til greina kemur í því sambandi að skipta út stjórn bankans fyrir aðra, faglega, stjórn. Reyndar fátt annað sem komi til greina.

Reyndar hefur, óskiljanlega, ekki komið til tals að skipta ríkisstjórninni út fyrir faglega skipaða stjórn.

En aftur að Seðlabankanum...
Samkvæmt frétt á visir.is um þetta efni, segir forsætisráðherra „ekki gefið að Davíð Oddsson fari frá þó Fjármálaeftirlitið verði sameinað Seðlabanka Íslands“ eins og segir í fréttinni.

Utanríkisráðherra segir þó „Þessi faglegi bankastjóri á ekki að heita Davíð Oddsson“ samkvæmt sömu frétt.

Því er ljóst að ríkisstjórnin er ekki samstíga í málinu. Samkvæmt heimildum Bergmálstíðinda mun þó vera hugsanleg lausn í málinu. Sjálfstæðismenn vilja hlífa manninum í brúnni, meðan Samfylking vill Davíð burt.

Þann vanda megi hinsvegar leysa á einfaldan hátt.

Seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, taki sér nýtt nafn. Þannig megi á sama tíma halda manninum en losna við Davíð.

Heimildamaður segir Davíð vera helst að hugsa um fjóra möguleika:
Tanni Oddsson, Hannes Hólmsteinn Oddsson, Jón Steinar Oddsson eða Kjartan Oddsson.

Hvert nafnanna verður fyrir valinu mun skýrast eftir fáeina daga.


mbl.is Nauðsynlegt að vera samstiga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnuslysahrinan heldur áfram

Vinnuslys varð í morgun, við Egilsstaðahöfn. Maður yfir fimmtugt datt af vinnumarkaði og hlaut við það beinbrot og skrámaðist nokkuð.

Aðdragandi slyssins mun hafa verið sá að maðurinn var að gera upp sippuband sitt í lok morgunkaffitímans, er annað handfangið hrökk af. Við það brá manninum svo að hann missti jafnvægið, með fyrrnefndum afleiðingum.

Nokkuð hefur borið á, undanfarið, að menn hafi dottið á svipaðan hátt. Séu þeir yfir fimmtugt detta þeir frekar af vinnumarkaði, meðan hinir yngri detta frekar í það.

Stóraukin sippubandaeign manna yfir fimmtugt er talin líkleg orsök að þeir detti heldur af vinnumarkaði, meðan stóraukin skuldasöfnun er talin örsök þess að hinir detti í það.


mbl.is Detta út af vinnumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama hinn léttlyndi

Eric HarderNý kjörinn forseti alþyðulýðveldis norður-Kór Ameríku hefur nú tilnefnt klámmyndaleikarann Eric Harder í embætti dómsmálaráðherra ríkisstjórnar sinnar.

 

Eins og flestir vita er það regla að forseti alþýðulýðveldisins kjósi einn og sjálfur sína ráðherra, eins og gerist í öllum betri lýðræðisríkjum.

Eric þykir vel að embættinu kominn. Hann þykir frekar frjálslyndur. Hann hefur t.a.m. hvað hart barist fyrir réttindum fjölkynhneigðra sem og fyrir baráttu hryggleysingja og hryggðarlausra.

Hann hefur náð miklum vinsældum. Ekki síst í San Fransinco og er hans kjörorð „it's not a hard work. It's a Harder work“

 

Leiðrétting Bergmálstíðinda á fyrri frétt:

Myndabrengl urðu í fréttinni að framan og mun því vera um að kenna sérstakri hormottutísku norður-Kóre ameríkumanna.

Þetta mun vera vesturvíkingurinn Eiríkur hinn harði.

Eric Harder


mbl.is Obama velur dómsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttindanauðgun í Ésú nafni

Það er með ólíkindum að fyrir það fyrsta sé barn skírt í trássi við vilja forræðisforeldris. Síðan ekkert gert til að leiðrétta ruglið. Hvort um er að ræða vilja- eða getuleysi finnst mér ekki skipta öllu máli. Í það minnsta má lesa úr orðum áfrýjunarnefndar að viljann skorti.

Nefndin telur að það hafi verið í þágu barnsins að skíra það til kristinnar trúar

Á hverju er það mat byggt? Liggja einhver rök á bak við það mat?

Staðfest er sú ákvörðun úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar að hafna kröfu kæranda um að grípa til viðeigandi úrræða gagnvart séra Svavari.

Ergó, skilaboðin eru að það sé í lagi að brjóta á réttindum forræðisforeldra til að hafa forræði yfir börnum sínum. Svavar minn, gerðu þetta bara aftur og aftur. Það er í góðu lagi. Sick

Þeim kröfum kæranda, að skírn sú, sem að framan greinir, verði úrskurðuð marklaus eða óleyfileg

Hér er líklega um að ræða getuleysi, ekki síður en viljaleysi. Líklega er ekki hægt að afturkalla gjörninginn. Því þarf að breyta áður en guðsmaðurinn fótum treður réttindi fleira fólks.

og að hann eigi bótakröfu á hendur þjóðkirkjunni vegna skírnarinnar, er vísað frá.

Embættismaður brýtur lög og enginn sætir ábyrgð. Hvorki hann persónulega né stofnunin sem hann starfar í umboði fyrir.

 

Væri ég þessi faðir, færi ég norður undir eins og kúkaði í skírnarfontinn.


mbl.is Presturinn breytti ekki siðferðilega rétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólabókin í ár!

Á árlegum jólabókaupplestri Viðskiptaráðs las Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri, upp úr nýútkominni bók sinni „Fjölmiðlar í heljargreipum.“

Í bókinni lýsir Davíð samskiptum sínum gegn um tíðina, aðallega við fjölmiðla. Eins eru aðrar skemmtilegar sögur og frásagnir í bókinni. Þar má t.d. nefna söguna Lundúnaólundina. Davíð gerði vitanlega að gamni sínu, eins og honum einum er lagið og lét flakka nokkrar skemmtilegar sögur úr bankalífinu. Eina frá árshátíð banka þar sem ónefndir gerðu sér vefju úr íslenskum skuldabréfum, sem endaði með að brunabjallan fór í gang.

„Þarna stóðu menn í móki, reykjandi frá sér allt vit og enginn hlustaði á viðvörunarbjöllurnar“

Góð stemmning var á upplestrinum, mæting góð og margir keyptu árituð eintök.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver hringi í Dabba, strax!

Tanni er sloppinn út!

 

En að fréttinni. Svo bregðast krosstré sem önnur tré og HHG lætur út úr sér eitthvað sem ég er sammála. Þ.e. að með því að fella íslensku bankana hefði sá Brúni valdi breskum sparifjáreigendum meiri skaða en ella.


mbl.is Seðlabanki á hryðjuverkalista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband