Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 28. janúar 2011
Viktoría Törudóttir (2. 4. 1991 - 23. 1. 2011) - Minning
Viktoría Törudóttir, hefðarköttur, er látin 19 ára að aldri. Hún lést að heimili sínu, að Safamýri 35, þ. 23. janúar sl.
Hún hefði því orðið tvítug í vor.
Viktoría fæddist að Bjargtanga í Mosfellshreppi, þann 2. apríl 1991.
Viktoría var fjórburi.
Ég tók hana að mér í fóstur, barnunga.
Hún var skemmtilegur karakter. Fjörug og mjög hænd að mér.
Hún var ávallt einörð og stefnuföst og lét ekki segja sér fyrir verkum.
Sannur kjarnaköttur.
Viktoría var áhugasöm um umhverfi sitt og að kynnast heiminum.
Kannski heldur áhugasöm, enda tókst henni að týnast á gelgjuskeiðinu.
Það ævintýri hennar endaði þó vel.
Ég tók þá ákvörðun, í samráði við foreldra mína, sem ég bjó hjá á þeim tíma,
að Viktoría skyldi fá að kynnast móðurhlutverkinu í það minnsta einu sinni.
Árs gömul eignaðist hún þríbura. Faðirinn er óþekktur en ljósritunarvél þykir líklegust, þar eð afkvæmin voru nákvæmar eftirmyndir hennar.
Afkvæmunum var síðan komið í fóstur í Reykjavík, Laxárdal og Skriðdal.
Eðalgenum hennar þannig tryggð dreifing um land allt.
Um svipað leiti og Viktoría varð móðir fluttist ég úr foreldrahúsum og tóku foreldrar mínir við hlutverki tilsjónarmanna hennar.
Hjá þeim var Viktoría sátt við menn.
Ég veit ekki með Guð, þar eð við Viktoría ræddum aldrei trúmál.
Hún virtist frekar jarðbundin.
Fyrir 13 árum fluttist faðir minn, þá fóstri hennar, búferlum og Viktoría var sett í fóstur hjá systur minni að Langholtsvegi.
Viktoría lét ekki bjóða sér slíkt og tók sér á hönd gönguferð heim í Safamýrina.
Þar var henni tekið opnum örmum af fjölskyldunni á miðhæðinni, sem tók hana að sér.
Þar bjó hún, í góðu yfirlæti, allt til dauðadags.
Árið 2000 flutti ég aftur í Safamýrina. Í Safamýri 27. Þá hitti ég Viktoríu oft og þótt hún væri farin að reskjast fannst mér hún þekkja mig. Hún virtist muna eftir gamla fóstra sínum.
Árið 2002 flutti ég þaðan aftur og eftir það hittumst við sjaldan. Börnin mín hafa búið í hverfinu síðan og fært mér fréttir af henni.
Svo vill til að systurdóttir mín og sonur hjónanna á miðhæð Safamýrar 35 eru vinir. Þannig bárust mér þær fregnir, fyrir viku, að Viktoría lægi á dánarbeðinu.
Nú er hún Viktoría öll.
Einhvern tímann var það að ég notaði orðið elskan" við hana. Ekki man ég kringumstæðurnar. Hvort hún stökk í kjöltu mína þar sem ég horfði á sjónvarpið, eða ég bara tók hana í fangið.
Ég man alltaf orð móður minnar sálugu, sem fannst nú ekki við hæfi að ávarpa kött á þennan hátt.
Kallar hann ekki köttinn elskuna sína!"
Mamma var nú aldrei mikið fyrir ketti.
Málið er að á þessum tíma var ég frekar lokaður, tilfinningalega. Ég lærði hins vegar að tjá væntumþykju mína þegar ég sat með Viktoríu í fanginu og talaði til hennar.
Ekki ósvipuð tilfinning og þegar ég tjái væntumþykju mína við börnin mín í dag. Þótt sú tilfinning risti mun dýpra. Stigsmunur frekar en eðlismunur.
Viktoría kenndi mér að elska.
Viktoría mín. Takk fyrir að hafa verið til.
Bloggar | Breytt 29.1.2011 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 6. janúar 2011
Bleikt.is
Á Facebook er margt um manninn. Þar hef ég megnið af mínum vinum, kunningjum, gamla skólafélaga og fjölskylduna. Svo slangur af fólki sem ég hef kynnst þar eða annarsstaðar á netinu.
Á síðunni er svokallað 'news feed' þar sem ég sé hvað Facebook-vinirnir eru að pósta hverju sinni. Oftar en ekki sér maður einhvern (les konur) pósta einhverjum linkum á greinar á bleikt.is.
Mér þykir alltaf kostulegt að lesa þær.
Bleikt.is er svona týpískur vefur fyrir týpískar konur. Þ.e. vefur fyrir konur á aldrinum 20 - 30 ára sem telja lífið snúast um að fitta inn í staðalímyndina. Líklega fyrir konur með brotna sjálfsmynd. Svona týpískar konur sem fengju að sjá undir iljarnar á mér, færu þær að leggja lag sitt við mig.
Svo ég linki eina grein þaðan. Þær eru flestar í svipuðum stíl.
http://www.bleikt.is/lesa/kaeroedaekki
Málið snýst, sem sagt, um að nota rétta ilmvatnið. Segja þetta en ekki hitt. Vera svona en ekki hinsegin. Hann á að segja þetta en ekki annað og vera svona en ekki hinsegin og bla bla bla.
Heilinn í svo miklu spinning að þær fatta ekki að málið er að vera bara þær sjálfar. Vera púkalegar, ef þær vilja. Tala tóma steypu ef þær vilja. Umfram allt, að koma hreint fram og ekki þykjast vera annað en þær eru.
Lykilsetning: fólk fer jafnvel kannski að fara út fyrir reglurnar og kemst þá kannski að því að þau eiga engan vegin saman, eiga ekkert sameiginlegt og hefur í raun engan áhuga á hvort öðru.
Einmitt.
Hvers vegna að sólunda hellings tíma í gervitilhugalíf, byggt á visku bleikt.is og skrúfa sig upp í einhverja staðalímynd? Komast síðan að því löngu síðar að það er ekki málið. Verða loks eðlilegur og þá kemst makinn að því að maður var feik allan tímann og lætur sig hverfa.
Betra að koma hreint fram strax. Ef draumaprinsinn- eða prinsessan lætur sig hverfa strax þá er betra að vita það, heldur en að leika eitthvert leikrit og komast að því löngu síðar, eftir að hafa sólundað tíma sínum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 19. nóvember 2010
Skór
Smá pæling hér.
Nú eru konur, upp til hópa, uppteknar af skóm.
Meðan karlmenn kaupa sér einhverjar tækniafurðir, eða gott viskí og koníak, kaupa konur sér skó.
Það er eitthvert órjúfanlegt tilfinningasamband milli kvenna og skóa.
Svo virðist sem þetta búi í genum og litningum þeirra, kvenna.
En.
Hvernig ætli þetta hafi verið fyrir 300, 500 eða 1000 árum síðan, þegar skóbúðir voru ekki til og einu skórnir voru heimasmíðaðir sauðskinnsskór.
Hvert skyldi hafa verið blæti íslenskra kvenna þá?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. október 2010
Þrískipting valdsins
Þrískipting valds er skilgreint í stjórnarskrá.
Löggjafar- framkvæmda- og dómsvald.
Það tæki enginn í mál að eitt valdanna væri yfir annað sett?
Það myndi enginn taka í mál að dómarar landsins sætu í hásætum inni á Alþingi.
Þó er tilfellið að framkvæmdavaldið er sett yfir löggjafarvaldið og það á samkundu löggjafarvaldsins sjálfs.
Á Alþingi, löggjafarsamkundunni, sitja fulltrúar framkvæmdavaldsins, ráðherrar, í hásæti og skulu ávarpaðir hæstvirtir meðan almennir þingmenn skulu einungis kallast háttvirtir.
Segir það ekki eitthvað um súra stjórnsýslu?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. júlí 2010
Hindurvitni
Okkur vesturlandabúum þykja viðmið fjarlægra þjóðfélaga oft undarleg.
Fussað er og sveiað yfir því hvernig trúarbrögð eru sumsstaðar hryggjarstyggi þjóðfélaga. Ekki síst þegar Islam er annars vegar. Indíánar N-Ameríku lögðu mikið upp úr heiðarleika og virðingu fyrir öndum forfeðranna. Á Íslandi til forna þótti heiðarleiki dyggð. Það versta sem hent gat nokkurn mann var að missa æru sína.
Á Íslandi nútímans, sem og í hinum vestræna heimi, er þessu öðruvísi farið. Trúarbrögð eru ekki lengur hryggjarstykkið og heiðarleiki þykir í lagi þangað til...
...honum má sleppa til að græða pjéning.
Í dag er það hagkerfið og peningamálin sem öllu skipta. Jú jú, velferð borgaranna skiptir líka máli en ef um þarf að velja, hagkerfið eða velferð borgaranna, fær velferðin að víkja.
Þetta höfum við best séð síðasta eitt og hálfa árið. Í forgang var sett viðreisn bankanna og hagkerfisins. Það var ekki hægt að bæta andlega líðan borgaranna, sem voru að kikna undan hækkandi skuldum, hækkandi verðlagi, lækkandi launum og atvinnumissi. Fótunum var kippt undan margri fjölskyldunni en það var ekki hægt að endurreisa þær því púðrið fór í að endurreisa peningabáknið, svo það hefði styrk til að halda áfram að pönkast á alþýðunni.
Þessi hagkerfis- og peningamálatrú er nefnilega bara trú. Hagkerfið byggir í raun ekki á mikið vísindalegri grunni en Islam eða andar forfeðranna.
Sjáum t.d. hina ýmsu hlutabréfa- og gjaldeyrismarkaði. Stundum, reyndar, stjórnast verð af framboði og eftirspurn en oftar en ekki eru það tilfinningasveiflur þeirra sem á mörkuðum versla sem stjórna verðinu. Eitthvert atvik á sér stað sem vekur upp ótta og kvíða á mörkuðum og þá lækkar verð og öfugt.
Svo eru einhverjar einkareknar sjoppur sem gefa út dóma sína, svona eins og erkiklerkar. Moody's, Fitch, Standard & Poor, eða hvað þær heita sjoppurnar.
Ein þeirra, Moody's hf. sf. lækkar eitthvert mat og við það fá menn úti í bæ svitakast. Við erum ekki að tala um einhverjar alþjóðlegar stofnanir sem hafa pólitískt vægi. Nei, bara einhverjar sjoppur hvar menn ákveða á morgunfundum að breyta lánshafismati þessa og hinns frá ABCD3 í ÞQWZ2, hvað sem það nú þýðir. Það merkilega er svo að aðrir taka þessu sem hinum heilaga sannleika og miða vexti sína af því. Svona eins og þegar predikari spáir einhverju og lýðurinn tekur því sem heilögum sannleika.
Það er stigsmunur á hagkerfinu og trúarbrögðum, en enginn eðlismunur.
Seðlabankastjóri bjartsýnn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 29. júlí 2010
Verðlaun?
Nú er ég í sumarfríi og nýt þess að hafa ekkert fyrir stafni, annað en að strjúka á mér kviðinn.
Hef í vikunni gjarnan haft opið fyrir Rás 2 og leyft henni að malla í bakgrunni meðan ég geri eitthvað uppbyggilegt. Hvort heldur það er að gaufa á netinu eða að reyna að gera kotið eilítið vistlegra.
Nú eru þeir rásarmenn að auglýsa árvissa tónleika rásarinnar á Menningarnótt. Tónleikar sem hingað til hafa verið kallaðir Stórtónleikar Rásar 2. Nú vilja þeir finna annað heiti en stórtónleikar. Lýst hefur verið eftir tillögum um nýtt heiti. Svo eru verðlaun í boði fyrir bestu tillöguna.
Þá komum við að kjarnanum.
Ég lagði við hlustir þegar verðlaunin voru tilgreind.
Einhver gasaflottur 3G Nokia sími, var nefndur fyrst. Ég hugsaði með mér að kannski væri tilefni til að spreyta sig, þótt ég sé vel sáttur við minn gamla síma. Þá kom höggið. Böggull fylgdi nefnilega skammrifi því næst bætti Óli Palli (sá sem las auglýsinguna og er allt í öllu á Rás 2) og heimsókn frá Ingó, sem mætir auðvitað með gítarinn. Síðan bættist við hvalaskoðunarferð, sem án efa væri gaman að fara í.
Ég hef ekkert á móti Ingó. Það gæti allt eins hafa verið Bubbi, Hörður Torfa, eða Óli Palli sjálfur, sem mættu í heimsókn með gítar. Ég gæti alveg hugsað mér síma og hvalaskoðunarferð, en frábið mér að fá til mín einhvern gítarglamrara ásamt fylgdarliði. Gæti kannski verið voða kósí að kveikja varðeld í stofunni og raula nokkur lög. Mig bara langar ekki til þess.
Þannig að ljóminn af fína flotta símanum hvarf í skuggan af samfylgjandi gítarglamursofbeldi.
Hví ekki frekar að bjóða upp á síma og flengingar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. júní 2010
Vaxtavangaveltur
Fram á þennan dag hef ég verið á þeirri skoðun að með dómi Hæstaréttar í gjaldeyrislánamálinu falli einungis gjaldeyristryggingin niður, en aðrir þættir samninga standi óbreyttir. Reyndar snerist dómurinn eingöngu um gjaldeyristrygginguna og því ekki fjallað um aðra þætti samningsins.
Nú eru uppi ýmsar skoðanir um hvað taki við. Sumir vilja að gjaldeyrislánum verði breytt í verðtryggð lán. Aðrir að vextir Seðlabankans skuli gilda og síðan þeir sem telja að umsamdir vextir (LIBOR + álag) gildi áfram. Ég þar með talinn. Líklega þarf að skera úr um þetta fyrir dómstólum.
Ég hef reyndar farið nokkra hringi í skoðunum mínum í dag. Algjör Ragnar Reykás. Held ég hafi hins vegar komist að niðurstöðu.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar eru umrædd lán íslensk krónulán og því hljóta að gilda um þau lög um vexti og verðtryggingu. Þar segir ma:
II. kafli. Almennir vextir.
3. gr. Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.
4. gr. Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.
Það er ekkert sem bannar að semja um lægri vexti en Seðlabankans. Aðeins talað um að séu vextir ekki tilgreindir, annað hvort í tölum eða vísun í vaxtaviðmið, skulu Seðlabankavextir gilda.
Sumir vilja meina að breyting vaxta úr umsömdum LIBOR vöxtum í vexti Seðlabankans brjóti gegn samningslögum (nr. 7/1937). Líklega rétt. Mér tókst ekki að finna þau í lagasafninu en gef mér að það sem ég fékk lánað hér sé satt og rétt.
36. gr. b. Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.
[Regla 2. málsl. 1. mgr. gildir ekki þegar aðilar eða stofnanir sem hafa það hlutverk að vernda neytendur geta gripið til aðgerða samkvæmt landslögum til að fá úr því skorið hvort samningsskilmálar sem ætlaðir eru til almennrar notkunar séu ósanngjarnir.]1)]2)
1)L. 151/2001, 1. gr. 2)L. 14/1995, 3. gr.
Ég tel að í flestum, ef ekki öllum gjaldeyrislánasamningum sé talað um LIBOR vexti umræddra mynta (plús álag). Að því gefnu hljóta þeir vextir að gilda, þar sem 4. grein 2. kafla laganna segir til um að Seðlabankavextir skulu [aðeins] gilda séu hundraðshluti eða vaxtaviðmiðun EKKI tiltekin. Sé talað um LIBOR vexti ákveðinna mynta eru klárlega vaxtaviðmið fyrir hendi. Að öðrum kosti skulu Seðlabankavextir gilda. Í þeim tilvikum þar sem LIBOR vextir ákveðinna mynta eru tilgreindir sé ég tæplega að þeim verði breytt.
Svo er málið hvort lánin skulu standa eftir sem óverðtryggð eða verðtryggð. Þá dettur mér í hug meðalhófsreglan, sem segir að aðeins skuli tekin íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
Vextir Seðlabankans af veðlánum eru nú 8,5% og verðbólgan 7,5%. LIBOR vextir (CHF & JPY) mun lægri. Hinsvegar felur verðtryggingin í sér verðbætur á höfuðstól, þannig að prósentutalan segir ekki endilega allt. Því myndi ég telja að verðtryggt lán á 7,5% vöxtum, plús álag, verri kost en óverðtryggt á 8,5% vöxtum, plús álag og enn verri en óverðtryggt lán á LIBOR vöxtum. Ég geri ráð fyrir að álagið sé hið sama. Það álag sem kveðið er um í lánssamningi. Það hlýtur að standa óbreytt.
Meðalhófsreglan fjallar um íþyngjandi ákvörðun. Miðað við að valið standi milli verðtryggðs og óverðtryggðs hlýtur verðtryggt að vera meira íþyngjandi fyrir lántakendur en óverðtryggt. Að sama skapi á hinn veginn fyrir lánveitendur. Þá komum við að 36. gr. b. samningslaganna.
Því tel ég rétta niðurstöðu vera þá að lánin muni verða óverðtryggð og bera upprunalega tilteknu LOBOR viðmiðunarvexti, eða vexti Seðlabankans hafi vaxtaviðmið ekki verið tiltekin, að bættu upprunalega umsamda álaginu.
Hins vegar vakti eftirfarandi athygli mína við garfið í lagasafninu:
VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]1)
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.
1)L. 51/2007, 1. gr.
VII. kafli. Viðurlög og málsmeðferð.
17. gr. Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.
Nú er óumdeilt að gjaldeyristryggingin var ekkert annað en ólögleg verðtrygging. Á þá ekki 17. grein 7. kaflans við?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 5. apríl 2010
Markleysingjar
Sumir bloggarar leyfa ekki öðrum að gera athugasemdir við skrif sín. Kjósa heldur að básúna úr sínum fílabeinsturni.
Þar á meðal eru Björn Bjarnason, Sóley Tómasdóttir, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Jón Bjarnason og Jónas Kristjánsson. Marga fleiri má telja til.
Yfirleitt eru fílabeinsturnabloggarar að freta úldnum fretum. Þó ekki alltaf. Jónas á til að freta ferskum fretum.
Svo eru þeir, sem vilja telja sig frelsishetjur og blogga um hve þjóðfélagið sé súrt, en bjóða þó ekki upp á umræðu um málin, eins og Bubbi. Hann bloggar á Pressunni en sér þó ekki ástæðu til að leyfa athugasemdir. Alþýðufretur, Þúsundþorskafretur, eða bara fúll fretur samkvæmt staðli?
Hver getur tekið alvarlega, fólk sem kýs að blammera án umræðu? Ekki ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 30. mars 2010
Krípí auglýsing
Ég hef gjarnan gaman að spá í auglýsingar og hvernig þær virka á mig og aðra.
Ein er sú auglýsing sem heyrist oft nú um mundir, í það minnstá á Rás 2. Ég hef ekki hlustað mikið á aðrar stöðvar undanfarið.
Þar er auglýst einhver vefsíða. Auglýsingin virkar þannig á mig að mig langar alls ekki að skoða vefsíðuna, sem ég hef og ekki gert.
Mjóróma karlmannsrödd spyr; Viltu vita leyndarmálið mitt? og segir manni síðan að fara þá inn á ákveðna vefsíðu. Vilji ég vita leyndarmálið.
Málið er að eftir að spurningin hefur verið borin upp, svara ég í huganum Öhhhh, nei.
Röddin sem spyr spurningarinnar virkar nefnilega frekar krípí á mig. Eiginlega frekar pervertaleg og ég kæri mig ekki um að vita neitt um leyndarmál spyrjandans.
Svona hljómar spurningin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 8. mars 2010
Útpæld æfing hjá Gæslunni?
Rakst á þetta í dag.
Æfing hjá Landhelgisgæslunni, þar sem þyrla tekur eldsneyti úti á hafi. Allt gott um það að segja.
Það sem vakti hins vegar athygli mína var að í upphafi (myndir 2 og 3) yfirgaf sigmaðurinn þyrluna og fór um borð í skipið. Á 4. mynd sést hann í forgrunni ganga burt, meðan hásetar skipsins sjást í bakgrunni bjástra við að undirbúa slöngu fyrir eldneytisdælinguna.
Síðan eru nokkrar myndir hvar sést þegar eldsneytinu er dælt á þyrluna. Hvergi á þeim myndum sést til sigmannsins.
Síðan birtist sigmaðurinn í lokin, á 12. mynd, hvar hann er hífður upp í þyrluna á ný.
Ég spyr...
Hvað var sigmaðurinn að álpast um borð, fyrst hann kom hvergi nálægt eldsneytistökunni? Hvað var hann að bauka á meðan? Þurfti hann að komast um borð í skipið til að gera nr. 2? Var það kannski partur af æfingunni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)