Færsluflokkur: Bloggar

Allt er nú til.

Aldrei hefði mér dottið í hug að til væri formlegt ákærendafélag. FootinMouth

Hvað skyldu Sakborningasamtök Íslands segja við þessu?


War on whatever

Fór á fund með loftinu. Leitaði að frétt sem ég sá um daginn, en fann hana ekki.

Fréttin var um stríð Ronalds Reagans gegn eiturlyfjum. Nafnið á herferðinni hljómaði svo kunnuglega; „War on drugs“ svona ekki ósvipað og stríðsyfirlýsing flokksbróður hans síðar, herra Runna; „War on terror.“

Eiginlega svolítið skondið, að öll stríð sem bananaríkjamenn hafa stofnað til, að undanskyldu Víet nam, sem formlega hófst í tíð Lyndons Johnson, hófust í tíð repúblikana.

Skondið.

„War on welfare“


Ráðgjafar

Ég man að í kring um gjaldþrot Björgólfs Guðmundssonar var eitthvað haft eftir talsmanni hans í útvarpinu og mér varð á orði við vinnufélaga minn, „Hve gjaldþrota er sá sem efni hefur á prívat talsmanni á fullum launum?“ Hann svaraði með einu orði, „Nákvæmlega.“

Nú er komið í ljós að ráðgjafinn hætti fjótlega upp úr því, enda til lítils fyrir hann að gaspra áfram á skókassanum þegar kýrin er hætt að mjólka.

Vitanlega sneri hann sér að ráðgjöf. Það er trendið í dag. Allir sem annaðhvort voru í ruglinu eða tengdust því á einhvern hátt, hafa snúið sér að ráðgjöf.

Ekki veit ég hvers eðlis ráðgjöf Ásgeirs er. Hann er líklega frekar gapuxi en fjármálamaður. Hins vegar virðist sem allflestir aflóga útrásarvíkingarnir og fyrrum bankamennirnir hafi snúið sér að ráðgjöf. Fjármálaráðgjöf, af öllu undir sólinni.

Þyrfti ég ráðgjöf varðandi frið og umburðarlyndi, myndi ég snúa mér til George Bush?
Þyrfti ég ráðgjöf varðandi menntun og sjálfstæði dóttur minnar, myndi ég snúa mér til talibana?
Þyrfti ég ráðgjöf varðandi fjármál, myndi ég snúa mér til manna sem í heimsku sinni og græðgi settu banka og heila þjóð á hausinn og í spennitreyju?

Eru þessir menn virkilega að fá viðskiptavini í ráðgjöf?


Smáauglýsingar

Kjötketill fæst gefins


Lítið notaður kjötketill fæst gefins. Hann hefur einungis verið notaður tvisvar, af fyrrum stjórnmálamanni og útrásarvíkingi, við samsuðu tilhæfulausra reikninga og þjófnaði úr sameiginlegum sjóðum almennings. Að öðru leiti hefur hann staðið ónotaður síðan í maí 2007.

Ketilinn er í góðu ásigkomulagi. Tveir loðfóðraðir stólar fylgja.


Áhugasamir hafi samband við skrifstofu Alþingis.

PS.
Lítið reykt bakherbergi fást á sama stað.


Tökum upp opinberar flengingar

Fylgi við Hrunræðisflokkinn eykst, samkvæmt sköðanakönnunum.

Almúginn virðist hafa gleymt hverjir hönnuðu íslenska regluverkið. Hverjir það voru, á átján árum, sem lögðu grunninn að íslenska hruninu. Hverjir lögðu niður Þjóðhagssatofnun og lögðu af bindiskyldu. Hverjir græddu og grilluðu meðan bankarnir tóku stöðu gegn krónunni.

Ég sannfærist enn meir um að fólk sé fífl. Hangir á McDonalds þessa dagana.

Svo fer þetta sama lið og kýs Sjálfstæðisflokkinn. Svo ef það er spurt hvers vegna, verður svarið annað hvort „af því bara“ eða „af því pabbi vildi það.“

Hverju er hægt að búast við af þjóð sem samanstendur að megninu til af fólki sem eru ekki annað en íslensk útgáfa af bandarískum rauðhnökkum?


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölvupælingar

Um daginn bloggaði ég um það þegar ég reif mig upp á rassgatinu og endurholdgaði gömlu tölvuna mína.

Í gær kom annar föðurbetrunganna, dóttir mín, til mín. Gamli sagði henni frá sínu merka afreki. Hún hefur í nokkurn tíma dissað mig fyrir að vera ekki með nýjustu útgáfuna af MSN Messenger á lappanum. Ég prófaði þá útgáfu í vinnunni og finnst hún sökka. Ég sagði henni það og þess vegna myndi þverhausinn ég ekki setja hana upp á lappanum heima.

Stelpan hefur gaman að myndvinnslu og auðvitað að spjalla við vini og vinkonur á MSN. Því sagði ég henni við heimkomuna að hún mætti setja upp nýjasta MSN og Picasa og hvað sem hún vildi á hina endurholdguðu gömlu tölvu.

Eins og áður hefur komið fram er ég þverhaus. Ég þoli t.d. ekki svona „Yahoo toolbar“ eða „Google toolbar“ í vafranum mínum. Hef séð vafra með öllum túlbörum heimsins og hálfur glugginn fer í þá og bara smá pláss eftir fyrir efnið sjálft. Þurfi ég að gúggla fer ég bara á google.com og geri það þaðan. Eins eru veiruvarnarforrit eitur í mínum beinum. Hef þá reynslu af þeim að þau leggjast eins og þykk sulta ofan á allt. Svo ég tali ekki um ónefnda veiruvarnarforritið sem listaði allar forritakóðaskrárnar mínar sem veirur. Eins gott ég hafði ekki stillt á sjálfvirka eyðingu. Því forriti var hent út med det samme.

Sá áðan að hún hafði sett upp sitt af hverju. Einhvern tool bar og veiruvarnarforrit. Ég ætla hins vegar ekki að amast neitt yfir því, enda gaf ég henni opið skotleyfi á tölvuna.

 

Þótt Billi sé minn maður blóta ég honum stundum. Billi (Bill Gates) er í mínum huga samheiti yfir Microsoft og Windows. Ég hef grafið upp nokkra harða diska og ætlaði að afrita sitt af hverju af þeim inn á endurholdguðu tölvuna. Einn diskurinn inniheldur böns af skrám sem mig langar að afrita en þori ekki að segja hvers eðlis eru, af ótta við Magga Kjartans. Hins vegar er diskurinn skemmdur og afritun margra skráa skilar villu. Þar kemur Billi í dæmið. Velji ég að afrita möppu, sem kannski hefur fjölmargar undirmöppur og þúsundir skráa og afritun einnar skráar skilar villu hættir Billi bara að afrita. Algerlega óþolandi. Þurfti því að skrifa mitt eigið forrit til þess, sem listar skrár sem skila villu en heldur þó áfram að afrita næstu skrá(r). Kannski ég geti selt Billa forritið fína?


Læknamafían

Mikið hefur fólk skrafað og skeggrætt um um hugsanleg mafíutengsl ákveðinna bankaeigenda fyrir hrun. Ekki veit ég neitt um það.

Hins vegar er önnur mafía sem lifir ekki einungis góðu lífi hér, heldur virðist hún vera varin með lögum. Læknamafían.

Ég var að horfa á viðtal við Jón Atla Árnason, gigtarlækni, varðandi fæðubótarefni og hann tjáði sína skoðun á því. Allt í góðu með það.

Fyrir 20 árum fékk faðir minn brjósklos. Meðan hann beið eftir að komast í uppskurð lét einhver snillingurinn, læknir, hann hafa lyf til að slá á verkina. Þetta var gigtarlyf. Sterkt gigtarlyf. Hvorki man ég heiti lyfsins né læknisins.

Eftir að pabbi hafði japlað á þessari ólyfjan í viku eða tvær, var hann fluttur akút á spítala. Lyfið hafði etið gat á æðavegg í skeifugörn. Sem sagt. Hann þurfti fyrst að fara í uppskurð að framan áður en hann komst í uppskurðinn á bakinu.

Í leiðinni var skorið á eitthvað. Taug eða eitthvað slíkt, til að draga úr sýrumyndun í skeifugörninni. Í þeim tilgangi að fýta fyrir að sárið gróði.

En...það hafði þær hliðarverkanir að pabbi hafði minni matarlyst en áður og á stuttum tíma breyttist hann smám saman úr feitum karli með ýstru í grannvaxinn mann.

Ok, fínt. Kunna einhverjir að segja. En það sem situr eftir er kunnáttuleysi læknanna. Þeir höfðu ekki grænan guðmund um hvað þeir voru að gera. Bara tilraunir við lyfjagjöf og svo aðrar tilraunir við að taka á afleiðingunum.

Málið er þetta. Stundum vita læknar hvað þeir eru að gera, en ekki alltaf. Þeir myndu þó stikna í helvíti fyrr en að viðurkenna að þeir viti ekki hvað skuli gera. Þeir eru bara mannlegir eins og ég og þú. Langt frá að vera guðir. Því skyldi ávallt taka ráðleggingum lækna með þeim fyrirvara, að þeir eru menn og jafn mistækir og hver annar.

Skítt með rússnesku mafínuna. Við þurfum að losa okkur við íslensku læknamafíuna.


Á morgun, segir sá lati

Ég hlýt að flokkast sem sá lati.

Í september 2007 gerði ég mér ferð í búð og keypti mér harðan disk. Til stóð að uppfæra gömlu bykkjuna mína (tölvu), sem N.B. hefur dugað vel. Nota hana núorðið í lítið annað en að horfa á sjónvarp.

Svo leið og beið og aldrei fékk hún andlitslyftingu, blessunin. Diskurinn góði, sem ég keypti fyrir 2 árum, hefur staðið í óopnuðum umbúðum síðan.

LoXins lét ég verða af því að poppa hana upp, þá gömlu.

Ég er þó þannig gerður að ég treysti ekki stýrikerfum sem enn eru blaut bak við eyrun. Hvað þá stýrikerfum sem þekkt eru fyrir óþekkt og vesen. Því fær sú gamla hvorki Windows 7 né Vista. Þaðan af síður Linux. Enda það bara fyrir masókista. Reyndar er henni bara ætlað að keyra DScaler, til að taka á móti sjónvarpsmerki og eftir sem ég best veit er það ekki til fyrir Linux, hvort eð er. Þar að auki nota ég heimasmíðaðar viðbætur við DScaler sem eru Windows dll-ar.

Nei, sú gamla fær bara XP. Enda ekki stórminnug og réði ekki við minnishákinn Vista. W7 enn of ungt til að hafa hlotið traust. Hún var alveg að standa sig á 5 ára gamalli W2K uppsetningu, svo hún verður ekki verri eftir lyftinguna. Enda þarf hún bara að geta spilað mynd á DirectDraw surface og ekkert fancy rugl sem Vista eða W7 hefur. Bara plain and simple.

Hefði svo sem ekki þurft að uppfæra hana, þannig séð. Keyrandi W2K var hún bara heldur sein á lappir og XP er mun sneggra á lappir en W2K og er það eina ástæðan.

Gamla hefur þjónað mér vel og mun gera áfram.


Nágrannar

Það er gott að eiga góða nágranna. Ég á reyndar alla flóruna af nágrönnum. Góða sem slæma, sem og hina sem ég hef lítið af að segja. Þeir falla í góða flokkinn.

Einhverntíman hef ég bloggað um slæma nágranna minn og læt þar við sitja. Enda lítið gaman að hugsa og tala um leiðinlegt fólk. Hins vegar er gaman að tala vel um skemmtilegt fólk.

Ég á afskaplega yndæla nágrannakonu. Hún heitir Hjördís, er líklega um sjötugt og býr í næstu íbúð við hliðina. Við erum miklir mátar. Hún talar vel um föðurbetrungana mína á til að gauka að mér slikkeríi handa þeim. Reyndar skondið að mér virðast alltaf fylgja nágrannakonur sem bera nafnið Hjördís, en það er annað mál.

Í gærkvöldi, föstudags, kom ég heim rétt rúmlega sjö. Á ganginum stóð Hjördís ásamt manni sem hafði meðferðis forláta ramma. Þar sem ég er í þann mund að ganga inn til mín kallaði Hjördís og spurði; „Brjánn. Ertu ekki handlaginn með hamar?“ Ég svaraði um hæl, „Jú. Ég er afskaplega handlaginn með hamar.“ Ég sneri við til að kanna málið nánar. Þá innihélt ramminn góði viðurkenningarskjal frá Reykjavíkurhreppi, fyrir snyrtilegt umhverfi hér á Bakkanum. „Nohh. Það er ekkert annað.“ sagði ég og kom í sömu andrá auga á nagla sem stóð úr vegg á hentugum stað fyrir rammann góða. „Hengjum við hann ekki bara upp hér? Hér verður hann í öndvegi.“ Það varð úr.

Í hádeginu í dag, laugardag, skrapp ég í búð. Þegar ég kom heim, klukkan tólf, sá ég að enginn var ramminn á naglanum. Ég bankaði upp á hjá Hjördísi og í sameiningu furðuðum við okkur á hver gæti í ósköpunum hafa fjarlægt hann. Hvorugt okkar varð vart við umgang í gærkvöldi og því tæplega hægt að skella skuldinni á unglingapartí og drukkin ungmenni. Munandi að í gamla daga þótti stundum sumum við hæfi að taka með sér minjagripi eins og húsreglur stigahúsa, eftir partý.

Hún velti fyrir sér hvort okkar klikkaði sameiginlegi nágranni gæti hafa gert það. Ég taldi það ólíklegt. Hann skildi varla texta skjalsins frekar en textann á miðanum í kjallaranum, sem biður fólk að loka ávallt dyrunum að geymsluganginum og hjólageymslunni.

Málið er því allt hið dularfyllsta. Rannsókn ráðgátunnar er þó hafin og er nú í fullum gangi, undir styrkri stjórn inspectors Hjördísar.


Bloggvinir

Ég man eftir ákveðnu blæti sem heltók blogheima fyrir rúmu ári. Þá voru allir að taka til á bloggvinalistanum sínum og henda úr fólki. Þá líklega bloggurum sem það sjálft ekki las.

það sem fólk kannski spáði ekki í er að bloggvinasambandið virkar í báðar áttir. Þ.e. að þótt A lesi ekki blog hjá B, getur verið að B lesi blogg A.

Sjálfur hef ég verið á blogginu í ca 1,5 ár. Ég hef sent örfáar vinabeiðnir en megnið af mínum bloggvinum hafa sent mér beiðni. Enda er ég óferjandi gapuxi.

Ég les ekki öll blogg allra á hverjum degi. Þá gæti ég ekki sinnt starfi mínu.

Það að hafa bloggvini snýst nefnilega ekki bara um það að lesa þeirra blogg, heldur ekki síður að þeir hafi sjortkött á mitt blogg.

Ég á einhvern helling af bloggvinum. Les blogg þeirra mis oft og mis vel. Sumir eru í gríninu, aðrir í alvöru þjóðmálanna. Sumir vel skrifandi og vel máli farnir en aðrir ekki. Bjútíið við flóru mannlífsins.

Ætla ekki að fremja upptalningu.

Munum bara að bloggvinassambandið er tvíbent.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband