Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hinn heilagi eignaréttur

Já, eignarétturinn er friðhelgur, samkvæmt stjórnarskrá. Eignarréttur hvers þá? míns og þíns, eða útvaldra?

Í 72. grein 7. kafla stjórnarskrárinnar segir; 
„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Þessu ákvæði stjórnarskrárinnar beita lífeyrirssjóðirnir fyrir sig í umræðunni um leiðréttingu skulda heimilanna.

Þá vísa þeir til þess að verðbætur hafi fært þeim eignir sem varðar eru af ofantöldu ákvæði. Annað komi ekki til tals, þar sem m.a. hefur verið rætt, til dæmis, að færa vísitölu neysluverðs aftur til 1. jan. 2008. Skilningur lífeyrissjóðanna er að það væri eignaupptaka. Verðbæturnar hafi skapað þeim eignir, verndaðar af stjórnarskrá.

Eignir til komnar vegna verðbóta.

Verðbætur reiknast út frá verðlagi varalita, ilmvatna, áfengis, tóbaks, sem og fleiru. Eiga að endurspegla verðlag á markaði en án tillits til hvernig verðlagið kemur til. Olís hækkar álagningu á bensín = lánin hækka, þrátt fyrir að grundvöllur lánveitendans og lántakans breytist ekki. Það sér hver heilvita maður að þetta er tómt rugl.

Hvað eru verðbætur? Sýndarpeningar. Eignir lánþega eru færðar til lánveitenda samkvæmt ákveðnum reglum. Eigið fé fólks, er étið upp af lánveitendum. Hvað er það annað en hrein og klár eignaupptaka?

Lífeyrissjóðirnir berjast nú með kjafti og klóm að halda þýfinu hjá sér. Halda þeirri „eign“ sinni sem verðtryggingin hefur veitt þeim. Fyrr mun frysta í helvíti áður en þeir verða tilbúnir að gefa eftir eitthvað af þeim sýndarpeningum sem verðbæturnar eru.

Brýtur það ekki í bága við 72. gr. 7. kafla stjórnarskráarinnar að hægt sé, með markvissum hætti, að færa eignir lánþega yfir til skuldara, í skjóli laga um verðtryggingu?


Eru lög um verðtryggingu í samræmi við stjórnarskrá?


Ég held ekki.


Smá pæling um kosningu til stjórnlagaþings

Um er að ræða persónukjör og hver kjósandi hefur eitt atkvæði. Þannig að ef efsti maður á kjörseðli kjósanda er öruggur inn, er fær sá næsti á listanum atkvæðið. Sé hann einnig öruggur inn er fær sá þriðji atkvæðið og koll af kolli þar til einhver sem ekki er öruggur inn fær atkvæðið.

Þetta fyrirkomulag vekur upp þá spurningu hvort röð taldra atkvæðaseðla hljóti ekki að hafa áhrif á niðurstöðuna.


Svo ég taki dæmi.

Ég fylli út seðil með 25 númerum.

Fyrst set ég númerið hennar Gunnu.
Næst set ég númerið hans Jóns.

Síðan 23 önnur númer. 

Sé minn kjörseðill sá fyrsti í talningunni er enginn öruggur inn á þeim tímapunkti og Gunna fær mitt atkvæði.

Sé minn kjörseðill tekinn fyrir um miðbik talningarinnar er Gunna kannski orðin örugg inn á þeim tímapunkti. Þá fær Jón mitt atkvæði.

Sé minn kjörseðill sá seinasti í talningunni fær einhver annar á listanum atkvæði mitt.

Hafi Njóli Hallfreðs sett Gunnu í fyrsta sætið og Gúnda í annað sætið og Gunna þarf aðeins eitt atkvæði til að vera örugg inn. Næsti seðill til talningar er annað hvort minn eða Gúnda. Verði minn fyrir valinu fær Gunna mitt atkvæði og er örugg inn. Jón missir af mínu atkvæði. Gúndi fær hins vegar atkvæði Njóla.

Sé seðill Njóla talinn á undan mínum fær Gunna hans atkvæði og Jón mitt atkvæði.



Mói Grapes fyllti einnig út sinn kjörseðil. Hann setti Hans og Grétu í fyrsta og annað sætið. Jón og Gunna voru ekki á hans lista.

Gefum okkur að í lok talningarinnar sé Gunna fyrir löngu orðinn örugg inn en Jóni og Hans vanti aðeins eitt atkvæði til að komast inn og mitt atkvæði hefði verið það fyrsta sem var talið, sem féll Gunnu í skaut. Seinasta atkvæðið sem talið er er atkvæði Móa Grapes. Þá fær Hans atkvæði hans og kemst inn. Þar sem mitt atkvæði féll Gunnu í skaut missir Jón af mínu atkvæði.

Væri því öfugt farið, að atkvæði Móa Grapes hefði verið talið fyrst og Hans fengið atkvæði hans. Síðan talin fullt af atkvæðum og áður en seinasti seðillinn (atkvæði mitt) er talinn er Gunna örugg inn og Jóni og Hans vanti eitt atkvæði til að komast inn. Þá fengi Jón mitt atkvæði og kæmist inn.

 

Þannig hlýtur að skipta máli í hvaða röð atkvæðin eru talin. Hvort munu Gúndi, Hans eða Jón sitja stjórnlagaþingið?

 

Er ég að misskilja eitthvað?


Lífeyrissukk

Nú er það þannig að allir launþegar eru skyldaðir til að greiða ákveðinn hluta tekna sinna í lífeyrissjóð. Það á víst að bjarga fólki í ellinni, segja þeir.

Svo gambla stjórnendur sjóðanna að vild með féð og skila oftar en ekki neikvæðri ávöxtun. Það er nú allur sparnaðurinn. Svo þegar heiðarlegt fólk kvartar yfir að eigið fé þess (sparnaður), sem það lagði í steinsteypu, hafi verið uppétið og vill fá endurheimt, þá fer lífeyrismafían úr límingunum.


En það er ein pæling varðandi lífeyrissjóðina og hvernig þeim er stjórnað. Nú er það svo að atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin skipta með sér stjórn lífeyrissjóða. Það er ekki eins og Jón Jónsson, lífeyrissjóðsfélagi geti boðið sig fram í stjórn að eigin frumkvæði.

Þetta er arfur frá gamalli tíð. Eitt sinn var öllum launþegum skylt að vera félagar í verkalýðsfélagi og þar með aðilar að ASÍ. Í gegn um aðild sína að sínu verkalýðsfélagi geti þeir haft áhrif innan ASÍ og þar með innan lífeyrissjóðanna.

Nú er hins vegar liðið vel á annan áratug síðan skylduaðild að félagasamtökum var dæmd ólögleg. Muni ég rétt þurfti að sækja málið suður til Evrópu til að fá það útkljáð.

 

Þá stendur eftir spurningin hver réttur þeirra sem standa utan stéttafélaga er? Sé eina leiðin til að hafa áhrif innan þess lífeyrissjóðs sem maður greiðir í (maður neyðist til að velja einhvern) sú að hafa áhrif innan ASÍ, gegn um stéttarfélag er klárlega brotið á þeim sem kjósa að standa utan stéttafélaga. Þeir eiga ekki aðild að ASÍ og hafa því enga möguleika á að hafa áhrif á hvernig þeirra lífeyrisgreiðslum er ráðstafað.

 


Landsbyggðarflugvöllurinn í Reykjavík

Án þess ég hafi fyrir því hávísindalegar heimildir, heldur meira byggt á tilfinningu, þá tel ég að Reykjavíkurflugvöllur þjóni fólki utan höfuðborgarsvæðisins meira en fólki innan þess.

Hvers vegna segi ég það? Jú, eins og ég sagði, byggi ég þá skoðun mína á tilfinningu. Ég þekki fólk á höfuðborgarsvæðinu sem og utan þess. Mér finnst fólk utan þess mun oftar eiga erindi hingað suður en fólk héðan út á land.

Gott og vel og allt í lagi með það.


Nú vilja einhverjir þingmenn setja hugsanlega stækkun Landspítalans í samhengi við tilurð flugvallarins í Vatnsmýri.

Þá vaknar hjá mér sú spurning hvort nýja hátæknisjúkrahúsið eigi yfir höfuð að vera framlenging á Landsspítalanum, staðsett í Reykjavík?

Skoðum bara Íslandskortið. Nánast hvaðan sem flogið er þarf að fljúga yfir allt landið, þar sem Reykjavík er lengst úti í horni. Frá Ísafirði er u.þ.b. jafn langt til Reykjavíkur og Akureyrar. Frá Egilsstöðum og Höfn er styttra að fljúga til Akureyrar en til Reykjavíkur.

Þegar um sjúkraflug er að ræða getur tíminn skilið milli lífs og dauða.

Akureyri er meira miðsvæðis en Reykjavík og myndi stytta flugtímann almennt að fljúga þangað. Það er einungis um fjórðungur landsins, frá Dölunum að Kirkjubæjarklaustri, þar sem flugtíminn ykist. Þá mætti fljúga til Keflavíkur og keyra til Reykjavíkur.

Því tel ég mun betri kost að reisa hið nýja hátæknisjúkrahús á Akureyri en í Reykjavík. Íbúar suð-vestur hornsins hefðu bara sinn Borgarspítala áfram.


Hagfræðismi II

Ég velti fyrir mér hagfræðisma um daginn. Eftir að hafa heyrt og lesið fréttir af tillögum vinnuhóps stjórnvalda um skuldavanda heimilanna varð mér enn á ný hugsað til hins alltumlykjandi hagfræðisma.

Þeir sem hafa talað fyrir flatri leiðréttingu skulda. Athugið, að ég segi leiðréttingu, en ekki niðurfærslu, tala um þær í sambandi við þann forsendubrest sem orðið hefur og eignatilfærslu af hans völdum.

Stjórnvöld hafa hins vegar talað um niðurfærslu til hjálpar þeim skuldsettustu. Gera ekki greinarmun á eplum og appelsínum.

Þeir sem vilja leiðréttingu skulda vilja einfaldlega að því sem stolið var af fólki, í skjóli lögboðinnar eignaupptöku verðtryggingarinnar, verði skilað til baka. Að hluta í það minnsta. Þá skiptir engu hvort viðkomandi eigi mikið eða lítið. Þjófnaður er þjófnaður og það er ekki í lagi að stela frá einum frekar en öðrum.

 

Vinnuhópur stjórnvalda setur fram níu tillögur og metur þær í krónum, sem og hve margir skuldsettir munu bjargast frá bjargbrúninni við hverja og eina leið.

Sem sagt, epla og appelsínubransinn hafður að leiðarljósi, sem og hagfræðismi talnagrindarinnar.

 

Ég hef reyndar ekki séð frumrit tillagnanna. Einungis fréttir af þeim. Þar er hvergi minnst á hvort eða hvernig hópurinn lagði mat á hve réttlát hver leið væri. Ég hallast að því að réttlætissjónarmiðin hafi ekki verið höfð með. Einungis hvað leiðirnar kosta í krónum, án tillits til jaðaráhrifa þeirra. Sem og að blanda saman eplunum og appelsínunum.

Vissulega eru einhverjir sem munu áfram þurfa sértækar aðgerðir, en það er bara allt önnur umræða og á ekki að blanda saman við umræðuna um leiðréttingu eignatilfærslunnar.

Niðurstaðan er sú að það er í lagi að stela einhverju frá þeim sem hafa efni á að kaupa sér nýtt eitthvað. Hinum og aðeins hinum, sem ekki hafa efni á að kaupa sér nýtt eitthvað skuli bættur skaðinn. Harmonerar algerlega við stefnu stjórnvalda.

 

Að blanda ávöxtunum áður en reiknað er veit ekki á vænlega útkomu. Reiknidæminu með ávextina svöruðu Kaffibrúsakarlarnir fyrir fjörutíu árum.

Þrír bananar dregnir frá fimm eplum gera tvö vínber.

 

Hve trúverðug er slík stærðfræði? Ég spyr.


Hagfræðismi

Þjóðfélög virðast alltaf hafa einhverja hluti sem verða þungamiðja þeirra. Eitthvað sem allt þarf að snúast um. Einhver lífsgildi sem sett eru ofar öllu öðru.

Hins vegar má setja spurningamerki við lífsgildin.

Þar sem ég hef hvorki þekkingu á mannfræði, þjóðfræði eða sagnfræði, ætla ég ekki að hætta mér út í að besservissera um gildi Rómverja eða forn-Grikkja. Held mig frekar á Íslandinu góða.

Á þjóðveldisöld þóttu heiðarleiki og sanngirni vera dyggðir. Það þótti svo sem ekki stórmál þótt einhver dræpi annan, en vígið þurfti að byggja á heiðarlegum og sanngjörnum grunni. Það mátti hefna. Að vega einhvern án ástæðu var illa séð. Að halda æru sinni var mönnum kappsmál og ef vegið var að henni réttlætti það mannvíg.

Forfeður okkar og mæður höfðu skynbragð á heiðarleika og sanngirni.

Hagfræði var þá óþekkt hugtak sem slíkt. Hver hugsaði bara um sinn bústofn og að nýta hann sem best. Sem er hagfræði í sjálfu sér.

Í dag er þessu öfugt farið. Nú skiptir æran ekki svo miklu. Heiðarleiki og sanngirni þykja ágæt svo langt sem þau ná. Sé hægt að græða má sópa þeim gildum undir teppið.


Þetta endurspeglast hvað best í því að í dag skiptir hagfræðin mestu máli. Þegar upp koma mál varðandi aðgerðir er alltaf fyrsta spurningin hvað það kosti, í peningum. Vöruskiptajöfnuður og hagvöxtur virðast vera málið.


Ein er spurning og stór, sem flestir hafa spurt sig. Hver er tilgangur tilveru minnar?

Svo ég svari fyrir mig, þá sé ég minn tilgang í þessu lífi að líða vel. Ég hef hvorki tryggingu fyrir að komast í englakór almættisins, né að fá stöðu sem undirleikari á hörpu eða trompet. 

Því er minn eini tilgangur að njóta þess að vera til og láta mig líða vel.
 

Eins ætti það að vera spurning þeirra sem stjórna samfélagi. Hver er tilgangur samfélags okkar?

Hver er tilgangur samfélags okkar? Er hann sá að vöruskiptajöfnuður sé jákvæður, eða að hagvöxtur aukist? Kannski óbeint, en þó aðeins að það bæti líf, líðan og velferð þegnanna.

Þegar 500 manns þurfa að húka í biðröð eftir mat og enn stærri hópur veit ekki hvort hann verði á götunni eftir mánuð, hverju skiptir þá vöruskiptajöfnuður eða hagvöxtur?


Rétt eins og miðaldasamfélögin stjórnuðust af duttlungum kirkjunnar þá stjórnast samfélög nútímans af duttlungum hagfræðinnar. Hagfræðin byggir ekki á skotheldum staðreyndum, heldur meira á hugmyndum og tilfinningum, líkt og kirkjan. Fuzzy logic.


Þegar samfélag setur meðlimi sína og velferð þeirra til hliðar, en leggur meira upp úr trúarskoðunum (hagfræðinnar), hver er þá tilgangurinn með samfélaginu?


Vefkönnun RSÍ

Ég hef verið félagsmaður í Rafiðnaðarsambandi Íslands í hálfan annan áratug. Ánægður með mitt stéttarfélag og hef ekki í hyggju að yfirgefa það. Lít á mig sem rafiðnaðarmann þótt ég hafi nú í rúman áratug starfað við hugbúnaðargerð. Enda enginn eðlismunur á stafrænni vinnslu í „hardware“ eða „software.“ Stigsmunur, en ekki eðlismunur. Bitavirkjun, frekar en rafeindavirkun eða tölvunarfræði.

Nema hvað.

Um daginn sendi RSÍ vefkönnun til félagsmanna sinna. Ég þar með talinn og svaraði ég henni samviskusamlega. Sú könnun leitaði eftir vilja félagsmanna um áherslur í næstu kjarasamningum.

Nú hefur mér borist ný könnun og ég verð að viðurkenna að ekki er ég jafn sáttur við hana og þá fyrri. Hún hljómar fyrir mér sem könnun á vegum hagsmunasamtaka lífeyrissjóða. Sumar spurningar svo leiðandi og takmarkaðar að illmögulegt er fyrir mig að svara þeim. Þó mun ég reyna.

Könnunin er um lausnir á skuldavanda heimila og einstaklinga og niðurfellingu skulda. Orðalagið litað af umræðu þeirra sem hafa, vísvitandi eða óviljandi, ýmist blandað saman í einn graut leiðréttingu á þeirri eignatilfærslu sem verðtryggingin hefur haft í för með sér og lausnum handa fólki í alvarlegum skuldavanda.

Fyrir mér er um að ræða eignatilfærslu sem ekki aðeins heimili og einstaklingar hafa orðið fyrir, heldur einnig fyrirtæki. Að sama skapi ætti leiðréttingin að koma til á höfuðstól þeirra sem hafa setið á fjósbitanum og safnað stökkbreyttum verðtryggðum vöxtum á innistæður sínar. Þar með taldir lífeyrissjóðir. Með öðrum orðum, öllum innistæðueigendum. Höfuðstólar allra verðtryggðra eigna og skulda eiga að liggja til grundvallar.

Eitt skal yfir alla ganga, hvort heldur er á debit- eða credithliðinni.

Sértækar aðgerðir til handa þeim sem komnir eru í greiðsluþrot, án þess að verðtryggingin eigi þar megin hluta að máli, eru annað mál og ber ekki að blanda í umræðuna um leiðréttinguna á eignatilfærslunni.

Aftur að könnunninni. Hún þekur þrjár síður, sem eru eftirfarandi:

p1

Á fyrstu síðu eru tilgreindir þrír hópar skuldara:

1) Fólk sem ræður við sína stöðu.
2) Fólk sem er í erfiðri stöðu, en hægt er að hjálpa með niðurfellingu skulda, en 18% flatur niðurskurður væri í sumum tilfellum ekki nægjanlegur.
3) Fólk þar sem 18% niðurskurður breytir engu og mun eftir sem áður fara í gjaldþrot. 

Lánasöfnunum má þá skipta í þrjá flokka, eftir þeim:

1) Vel innheimtanleg lán.
2) Sæmilega innheimtanleg lán.
3) Illa- og óinnheimtanleg lán.

p2

Síða tvö er absúrd, að mínu mati. Hér vantar alveg aðra vinkla en þá að annað hvort fari allt til andskotans, eða til helvítis, verði skuldir leiðréttar. Þótt ekki væri nema að hafa aukaliðinn „Annað og þá hvað?“ Spurningarnar eru einhliða, leiðandi og litaðar af viðhorfi þeirra sem sömdu könnunina.

Ég tek smá fund með loftinu áður en ég svara þessu, til að komast að því hver atriðanna mér finnast best og verst: andskotans, djöfulsins eða helvítis.

Það gleymist t.d. alveg að við leiðréttingu eignaupptökunnar gætu hóparnir þrír sem skilgreindir eru á síðu eitt, breyst úr að vera:

1) Vel innheimtanleg lán.
2) Sæmilega innheimtanleg lán.
3) Illa- og óinnheimtanleg lán.

Í að vera: 

1) Frábærlega innheimtanleg lán. 
2) Vel innheimtanleg lán.
3) Sæmilega innheimtanleg lán.

Illa- og óinnheimtanlegu lánin yrðu hvort eð er að litlu leiti innheimt, en með breytingunni myndi innheimta lánanna aukast og þá spurning hver fórnarkostnaðurinn yrði, ef einhver? 

Menn gleyma því alveg að lánasöfnin yrðu vænlegri til innheimtu. Menn gleyma að taka með í reikninginn hvað myndi sparast í vinstri vasanum þótt kostnaður ykist í þeim hægri.


p3

Síða þrjú sleppur. Reyndar bara talað um stóriðju vs sprota- og tæknifyrirtæki, eins og ekkert annað sé til undir sólinni en álver eða nýsköpun. Læt það þó vera. Hér mætti t.d. gera meira af að auka virðisauka framleiðslu. Sumt yrði nýsköpun. T.d. að gera einhverja vöru úr þessu áli sem framleitt er hér. Annað, s.s. fullvinnsla fiskafla, er svo sem ekkert nýtt hér, en mætti taka upp að nýju.


Þess utan, svo ég tali bara fyrir mig. Þar sem hræðsluáróður lífeyrissjóðasinna er í þá veru að leiðrétting núna skerði lífeyrinn síðar. Þá vil ég heldur fá til baka núna, meðan ég lifi, það sem ég átti í fasteign minni fyrir þremur árum. Heldur en að geyma það þar til ég verð að öllum líkindum dauður. Einhverra hluta vegna er það svo að maður hefur meiri not fyrir peningana meðan maður tórir en eftir að maður er dauður. Eða svo er mér sagt.


Ég mun nú ganga í að svara þessari könnun sem best ég get.

 

Vil þó ítreka að ég tel fulltrúa lífeyrissjóðanna, sem og Joð, blanda saman eplum og appelsínum þegar talað er, í sömu málsgrein, um leiðréttingu á eignaupptöku og úttæði fyrir þá verst settu.

 


Leiðrétting eignaupptöku / skil á þýfi

Hagsmunasamtök heimilanna hafa hvað helst barist fyrir leiðréttingu þeirrar eignaupptöku sem stökkbreytt vísitala neysluverðs hefur haft í för með sér.

Reyndar lögðu framsóknarmenn fram sínar tillögur um 20% niðurfellingu skulda á sínum tíma, sem væntanlega harmonera að einhverju leiti við hugmyndir Hagsmuna heimilanna.


Skjaldborgarstjórn JoðHönnu komst fyrst til valda sem minnihlutastjórn í skjóli Framsóknarflokksins. Þá var, eins og frægt er orðið, gefin fögur fyrirheit um skjaldborg um heimilin. Skjaldborg sem reyndist síðan reist um fjármálastofnanirnar, í stað heimilanna. Í ljósi þessara fögru fyrirheita hlutu aðildarflokkar þeirrar ríkisstjórnar góða kosningu í apríl 2009. Fólkið var að kjósa úrræði sér til handa og já, skjaldborg um heimili sín.

Svo gerðist..., ekkert, en fólk beið og svo gerðist...., já þið giskiðuð rétt. Ekkert. Nú, eftir að hafa fengið yfir sig hina köldu vatnsgusu mótmæla kemur forsætisráðherra fram og vogar sér að tala um leiðréttingu á skuldavanda þjóðarinnar eins og það hafi verið einhver áform ríkisstjórnarinnar, sem aldrei voru.

 

Ég styð hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna heilshugar. Í mínum huga er verðtrygging lítið annað en eignaupptaka. Þjófnaður. Ekki síst í ljósi stökkbreytingar knúinni áfram af stöðutöku lánveitenda gegn skuldurum sínum og afleitri stjórnsýslu. Þar með töldum fádæma skattahækkunum. Að halda að aukin skattpíning reddi málum þjóðarbús er jafn fáránlegt og að halda að skerðing vasapeninga barna sinna reddi heimilisbókhaldinu.


Þó er eitt í máli Hagsmuna heimilanna, ef marka má þessa frétt, sem ég er ósáttur við. Það er að einungis er talað um verðtryggð húsnæðislán. Eignaupptaka verðtryggingarinnar hefur komið fram í stökkbreytingu allra verðtryggðra lána.

Ég get svo sem skilið hugmyndina að baki því að menn hugsi sem svo að lág neyslulán skilji varla milli feigs og ófeigs og því megi undanskilja þau. Það geta þó hinu verðtryggðu námslán gert. Lán sem skipta líklega milljónum hjá flestum. Eignaupptakan átti sér stað þar líka.

 

Joð kemur fram í fjölmiðlum og talar um að flöt niðurfelling sé ekki réttlát, því hún gagnist kannski ekki þeim sem verst eru settir meðan þeir sem eru ekki illa settir fái niðurfellingu.

Þetta segir Joð vegna þess að hann þekkir ekki muninn á eplum og appelsínum. Hann fellur í þann pytt að setja leiðréttingu verðtryggðra lána undir sama hatt og úrræði til handa þeim sem sem eru í fjárhagsvanda af öðrum ástæðum. Hann setur samasem merki milli þess að skila á þýfi og félagslegra úrræða.


Tökum dæmi.

Jón og Gunna tóku bæði verðtryggð lán árið 2007. Á þeim tíma voru bæði í vinnu og fengu sitt greiðslumat miðað við ákveðnar forsendur.

Jón missti vinnuna í fyrra, en Gunna er enn í sama starfi. Jón nær ekki endum saman vegna tekjuskerðingar. Verðtryggingin sem hækkað hefur lán Gunnu gerir að verkum að hún rétt svo nær að ná saman endum, meðan engin óvænt útgjöld dúkka upp.

Flöt leiðrétting myndi strax koma þeim báðum til góða. Gunna gæti jafnvel leift sér að skreppa í bíó endrum og eins, eða fara út að borða með deitinu sínu.

Flata niðurfærslan myndi hins vegar ekki bjarga Jóni algerlega, en það er vegna þess að forsendur hans um launatekjur brugðust. Niðurfellingin mun þó lækka skuldir hans eins og Gunnu. Hann bara skortir tekjur til að standa undir afborgunum. Í hans tilfelli þurfa þá alltaf að koma til sértæk félagsleg úrræði. Þar á félagslega kerfið að grípa inn í. Já, þetta norræna sem JoðHanna talaði um.

Þá komum við að eplunum og appelsínunum.

Það mun alltaf þurfa sértæk félagsleg úrræði til handa þeim sem misst hafa atvinnu eða annað hafi komið til þess að breyta greiðslugetu þeirra.

Leiðrétting eignaupptöku verðtryggingarinnar er hins vegar ekki félagsleg aðgerð og á því að ganga hlutfallslega jafnt yfir alla sem stolið var frá.

 

 


Verðtryggingarránin

AGS vill engar almennar leiðréttingar. Þó minnir mig að hafa heyrt athugasemdir frá þeim um að ekki væri nóg að gert varðandi skuldir almennings.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa talað fyrir leiðréttingu verðtryggðra lána í langan tíma. Fyrrum félagsmálaráðherra sagði það ekki í mannlegum mætti að gera slíkt. Líklega taldi hann, eða telur enn, skuldir fólks komna af himnum ofan og vera ekki mannanna verk.

Kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna og annarra hafa ekki náð eyrum þeirra sem málum stýra. Flöt leiðrétting væri ekki valkostur.


Krónan hríðféll árið 2008. „Skemmtileg“ tilviljun að það gerðist alltaf í lok hvers ársfjórðungs. Fyrir liggur að þar tóku bankarnir, fyrst og fremst, stöðu gegn krónunni og gegn skuldurum sínum.


Hagsmunasamtök heimilanna hafa viljað leiðrétta höfuðstól verðtryggðra lána. Færa hann aftur til 1. janúar 2008 og með eðlilegum vísitölubreytingum síðan þá. Ekki hinum stökkbreyttu.

Stjórnvöld vilja, eða hafa ekki viljað, taka slíkt í mál. AGS virðist ekki gera það heldur. Á þeim bæjum vilja menn kannski leiðrétta hjá þeim sem standa ekki undir afborgunum, en alls ekki hjá hinum. Hinum sem geta, enn, staðið undir afborgunum en eru ekki komnir á vonarvöl.


Ástæða stökkbreyttrar vísitölu neysluverðs er þjófnaður. Bankarnir tóku stöðu gegn krónunni og skuldurum sínum. Gáfu skuldurum sínum ákveðnar forsendur við gerð lánasamninga og fóru síðan að fokka í krónunni til að maka krókinn.

Þá komum við að kjarnanum. Hví má bara hjálpa þeim sem stolið er frá og verða fyrir miklum búsifjum, en ekki þeim sem stolið er frá og verða fyrir minni búsifjum?

 

Fremdi ég tvö rán. Annars vegar stæli ég einhverju frá láglaunafjölskyldu og hinsvegar sömu verðmætum frá hálaunafjölskyldu, fengi ég sama dóm fyrir hvort ránið sem er, þar eð horft yrði til gjörningsins en ekki aðstæðna þeirra sem fyrir barðinu yrði.

Eiga aðrar reglur að gilda um rán sem byggist á stökkbreytingu skulda?

Er í lagi að stela frá séra Jóni, en ekki frá Jóni?


Forsendubrestur

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lýsingar gegn skuldara hvers nafn skiptir ekki máli stendur:

„Dómurinn taldi gengistryggingu samningsins hafa verið verulega forsendu og ákvörðunarástæðu fyrir umræddri lánveitingu, sem báðum aðilum hefðu mátt vera ljósar en reyndust rangar, og var því fallist á með stefnanda að samningurinn væri ekki bindandi fyrir hann að því er vaxtaákvörðunina varðaði. Var litið til ákvæða 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og talið rétt að vextir yrðu reiknaðir til samræmis við þá vexti, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga.“

Þarna kemur fyrir orðið forsenda og vísað til brests hennar. Dómarinn byggir þá niðurstöðu sína, að Seðlabankavextir skulu gilda, á að forsendur fyrir hinum upprunalegu vöxtum hafi verið gengistrygging og fyrst hún hafi verið felld burt skulu umsömdu vextirnir falla burt jafnframt.

Málið mun fara fyrir Hæstarétt og því kannski ekki tímabært að leggja út af dómi þessum sem stendur. Þó vakna spurningar.

Komist Hæstiréttur að sömu niðurstöðu, er þá ekki ljóst að forsendur annarra lána, verðtryggðra með vísitölu neysluverðs, séu jafnframt brostnar?

Fyrir fáum árum var verðbólga hér í lægri kantinum. Alla vega á Íslenskan mælikvarða. Þetta 2 - 4%.

Þeir sem þá tóku verðtryggð lán sáu fram á 6 - 9% vexti. ca 4 - 5% ofan á verðbæturnar. Síðan féll Krónan. Hafði sunkað niður reglulega í lok mars, júní og september 2008, áður en fallið farð algert. Tilviljun að það gerðist alltaf kring um ársfjórðungauppgjörin.

Þeir sem lánuðu tóku stöðu gegn þeim sem lánað var og pumpuðu upp höfuðstóla og afborganir með hækkun vísitölunnar, sem afleiðingu af fallandi Krónu. Verðbólgan var pumpuð upp í 18% eða svo og át upp eiginfé landsmanna, hverra settu sparnað sinn í steinsteypu.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Hæstiréttur mun nálgast málið með vexti af gengistryggðu lánunum.

Enn fróðlegra hefur verið, er og verður að fylgjast með þeim stjórnmálamönnum sem gefið hafa sig út fyrir að vera málsvara fólksins, en hafa síðan opinberað sig sem úlfa í sauðagærum.

 


mbl.is Steingrímur: Átti von á þessari niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband