Fimmtudagur, 15. apríl 2010
Er í lagi að halda framhjá?
Nú hefur Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður, sagt af sér þingmennsku. Reyndar aðeins tímabundið, en telur að rétt sé að víkja meðan hans mál verða skoðuð.
Sem aðili að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var hann sá eini sem þekkti sinn vitjunartíma þegar þjóðin fór fram á að sú ríkisstjórn færi frá. Hin héldu sem fastast í stóla sína þar til yfir lauk.
Það er landlægur hugsunarháttur hérlendis að allt sé í lagi svo lengi sem engin lög séu brotin. Þannig hafa menn stigið fram og sagst iðrast og beðist afsökunar, en jafnframt tekið fram að þeir hafi ekki brotið nein lög og því þurfi þeir ekki að axla ábyrgð. Frekar ótrúverðugar iðranir og afsökunarbeiðnir það.
En hví skyldi fólk segja af sér og axla ábyrgð? Jú, því þótt engin lög hafi verið brotin hefur það rofið trúnað og/eða brotið gegn almennu siðgæði. Siðferðisvitund þjóðarinnar.
Líklega finndist þessu fólki allt í lagi að halda fram hjá maka sínum eins og það hélt fram hjá þjóðinni, með útrásardólgum og öðrum dólgum.
Í framhjáhaldi felast engin lagabrot. Er þá í lagi að halda framhjá?
Að segjast ekki þurfa að segja af sér, eftir allt sem á undan er gengið, segir allt sem segja þarf um siðferðismat- og vitund þessa fólks.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.