Landsbyggðarflugvöllurinn í Reykjavík

Án þess ég hafi fyrir því hávísindalegar heimildir, heldur meira byggt á tilfinningu, þá tel ég að Reykjavíkurflugvöllur þjóni fólki utan höfuðborgarsvæðisins meira en fólki innan þess.

Hvers vegna segi ég það? Jú, eins og ég sagði, byggi ég þá skoðun mína á tilfinningu. Ég þekki fólk á höfuðborgarsvæðinu sem og utan þess. Mér finnst fólk utan þess mun oftar eiga erindi hingað suður en fólk héðan út á land.

Gott og vel og allt í lagi með það.


Nú vilja einhverjir þingmenn setja hugsanlega stækkun Landspítalans í samhengi við tilurð flugvallarins í Vatnsmýri.

Þá vaknar hjá mér sú spurning hvort nýja hátæknisjúkrahúsið eigi yfir höfuð að vera framlenging á Landsspítalanum, staðsett í Reykjavík?

Skoðum bara Íslandskortið. Nánast hvaðan sem flogið er þarf að fljúga yfir allt landið, þar sem Reykjavík er lengst úti í horni. Frá Ísafirði er u.þ.b. jafn langt til Reykjavíkur og Akureyrar. Frá Egilsstöðum og Höfn er styttra að fljúga til Akureyrar en til Reykjavíkur.

Þegar um sjúkraflug er að ræða getur tíminn skilið milli lífs og dauða.

Akureyri er meira miðsvæðis en Reykjavík og myndi stytta flugtímann almennt að fljúga þangað. Það er einungis um fjórðungur landsins, frá Dölunum að Kirkjubæjarklaustri, þar sem flugtíminn ykist. Þá mætti fljúga til Keflavíkur og keyra til Reykjavíkur.

Því tel ég mun betri kost að reisa hið nýja hátæknisjúkrahús á Akureyri en í Reykjavík. Íbúar suð-vestur hornsins hefðu bara sinn Borgarspítala áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú gleymir því reyndar að svona 70% landsmanna búa á suðvesturhorninu. Það er því rökrétt að álykta að 80% sjúklinga hins nýja hátæknisjúkrahúss verði þaðan. Og í framhaldi af því má velta fyrir sér hvort sé hagkvæmara, að flytja 30% sjúklinganna til Reykjavíkur, eða að flytja 70% sjúklinganna til Akureyrar.

h (IP-tala skráð) 12.11.2010 kl. 11:21

2 identicon

"Það er því rökrétt að álykta að 70% sjúklinga hins nýja hátæknisjúkrahúss verði þaðan," átti auðvitað að standa.

h (IP-tala skráð) 12.11.2010 kl. 11:22

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

„Íbúar suð-vestur hornsins hefðu bara sinn Borgarspítala áfram.“

Fólk á sv-horninu nyti þjónustu Borgarspítalans.

Málið er að bygging þokkalegs sjúkrahúss fyrir norðan er mun skynsamlegri kostur en að byggja risa sjúkrahúss í Reykjavík. Þannig yrði eggjakörfunum fjölgað.

Brjánn Guðjónsson, 12.11.2010 kl. 16:34

4 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mér líst vel á rökin sem Brjánn er með. Tek undir þau.

Hvaða vit er í því að vera með hátæknisjúkrahús við bláenda á flugbraut. Hvað ef 300 manna flugvél hlekkist á í flugtaki og lendir á Landspítalanum með allt sitt flugvélaeldsneyti? Hvaða sjúkrahús tekur þá við? Eða lendir á Alþingishúsinu við setningu þings? Hver stjórnar þá landinu?

Það má ekki setja öll eggin í sömu körfu! Það þarf að dreifa áhættunni.

Þau rök að staðsetning flugvallarins sé nauðsynleg vegna sjúkrahússins er algjört bull. Það er enginn sendur í hjartastoppi með flugvél frá Vopnafirði til Reykjavíkur. Fólk út á landi þarf að ferðast oft í marga klukkutíma til þess að komast undir læknishendur eftir alvarleg slys - án þess að fá deyfilyf - þó það hafi misst útlimi eða sé margbrotið.

Sumarliði Einar Daðason, 13.11.2010 kl. 03:06

5 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sumarliði.  Það er nákvæmlega það sem gerist.  Fólk er sent  "í hjartastoppi með flugvél frá Vopnafirði til Reykjavíkur", enda er þá með í för bæði læknir og sérhæfðir sjúkraflutningamenn með tækjabúnað til að freista þess að halda sjúklingnum gangandi alla leið.  Tími og fjarlægð skiptir þar öllu máli.

Hátæknisjúkrahús og flugvöllur er par sem ekki er hægt að slíta í sundur. 

Hugmynd Brjáns hér og hugleiðing er allra athygli verð.

Benedikt V. Warén, 13.11.2010 kl. 22:49

6 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þegar öllu er á botninn hvolft þá skiptir fjárlægð flugvallarins frá Landsspítalanum ekki höfuð máli. Það eru svo margar breytur í dæminu að þessi eini þáttur skiptir ekki svo miklu máli miðað við heildarmyndina. Mér finnst nógu slæmt að vera með bara eitt sjúkrahús í hverjum fjórðungi - en að fara að leggja bara áherslu á eitt hátæknisjúkrahús í Reykjavík og flugvöll þar við - er merki um alvarlega geðveiki.

Allir sem búa á landsbyggðinni hafa ekki flugvöll! Þeir sem búa nálægt flugvelli eru ekki endilega með tilbúna flugvél þegar á þarf að halda. Oftar en ekki þarf að fá flugvél frá öðrum landshluta til þess að koma, taka og afhenda.

Þar sem menn eru ekki á bakvakt á launum til þess að bregðast við, þá þarf að byrja á því kalla til mannskap. Síðan þarf að samhæfa mannskapinn. Bara þetta eina atriði getur farið upp í 60 mínútur eða meira. Svo tekur sjálft flugið við sem er algjörlega háð veðri. Það er ekki alltaf flugveður!

Ég þekki þess dæmi að verið sé að hringla með slasað fólk fram og aftur á milli fjarða til þess að láta sinna því. Oftar en ekki er þetta gert með einkabílum, lögreglubílum eða sjúkrabílum. Það kemur engin flugvél þar nálægt - eða þyrla. Það þykir auðvita sport að snúa sig á ökkla á Esjunni og láta sækja sig með þyrlu til Reykjavíkur, en það er ekki raunveruleiki sem landsbyggðin býr við.

Ef einhver er í hjartastoppi og það eina sem getur bjargað viðkomandi er að lenda í Reykjavík frekar en í Keflavík - þá er sennilega betra að fljúga með viðkomandi beint til Skotlands - þá er hægt að gefa líffæri úr viðkomandi til þess að bjarga öðrum.

Það er mun betra að hafa góð sjúkrahús með neyðastofu á helstu stöðum hér á landi út frá landfræðilegum takmörkunum. Frekar en að nota sjúkraflug til Reykjavíkur sem afsökun til þess að eyða alltof miklu fé í Reykjavíkurvöll eða hátæknisjúkrahús í Reykjavík.

Sumarliði Einar Daðason, 14.11.2010 kl. 02:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband