Kjánahrollur helgarinnar

Í gær, laugardag, var ég á þeytingi um bæinn. Í útvarpinu mallaði fm957 og inn á milli laga var talað við einhvern útvarpsmanninn, sem staddur var úti í bæ að elta jólalest Coca cola. Hann hélt hvergi aftur af sér í lýsingum sínum á stórfenglegheitum þessarar jólalestar. Sagðist hvergi annarsstaðar vilja vera og sagði þetta draumi líkast.

Mér varð hugsað til baka, um það bil 10 ár, þegar ég sá fyrst jólaauglýsingu umrædds ropvatnsframleiðanda. Þar óku um, ljósum hlaðnir bílar. Nokkuð flott fannst mér, enda voru bílarnir vel hlaðnir ljósum. Ég minntist líka þegar þessi íslenska jólalest ók um fyrst. Bílar, sem á voru hengdar nokkrar jólaseríur. Frekar tilkomulítið, miðað við auglýsinguna góðu.

Nú. Téður útvarpsmaður, sagði auk allra lofsyrðanna um tignalegheit jólalestarinnar, að bílarnir væru svo mikið skreyttir að orkunotkun ljósanna væri á við orkunotkun 16 íbúða blokkar. Já, hann sagði 16 íbúða blokkar!
„Vá!“ hugsaði ég. Þeir hafa aldeilis bætt úr, síðan ég sá þá fyrir áratug. Ég veit reyndar ekki hve meðalrafmagnsnotkun íbúðar er, en ég gæti ímyndað mér að 16 íbúðir noti a.m.k. einhver kílóvött að jafnaði. Ég sá fyrir mér bíla svo hlaðna ljósum að helst minnti á Las Vegas.

Svo vildi það til þar sem ég var á ferð minni um bæinn, að ég mætti umræddri bílalest. Hún hefur verið í u.þ.b. 30 - 50 metra fjarlægð. Fyrir henni fór lögreglubíll með forgangsljós kveikt og annar fylgdi henni eftir. Svei mér þá ef bláu blikkljósin báru ekki af. Þetta var bara sama dæmið og í minningunni. Fimm trukkar sem á löfðu nokkrar daufar jólaseríur. Ég gat ekki stillt mig um að flissa.

Kvusslax bull var þetta nú? 16 íbúðir...minn rass! Svo er hið opinbera að láta draga sig í vitleysuna, að veita auglýsingu fyrirtækis lögreglufylgd, með forgargsljósum. Verst þótt mér að ná ekki mynd af „dýrðinni“ þar sem ég hafði símann ekki tiltækan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband