Sunnudagur, 20. apríl 2008
Af því bara
Það er gaman að vera foreldri. Vissulega stundum strembið, en án þess væri það ekki eins gefandi. Alveg frá því börn eru lítil grjón reyna þau m.a. að finna veiku punktana hjá okkur. Bara hluti af því að læra á umhverfi sitt. Það er þroskandi fyrir mann að æfa þá tækni að vera sanngjarn og reyna að samræma frjálsræði og aga. Oft þarf maður að vera diplómat og stundum þýðir ekkert annað en standa á sínu. Kunna þó að gefa eftir, styðji þau mál sitt gildum rökum. Það kennir þeim rökræna hugsun og að samskipti við fólk ganga hvorki upp með yfirgangi né undirgefni, heldur með gagnkvæmri tillitsemi og sanngirni. Mér finnst þetta skemmtilegt verkefni og ekki síst þegar þau eru að stíga inn í gelgjuna. Ég er þó ekki fullkominn og stundum tekst mér að koma mér í þá stöðu að vera þaulspurður um eitthvað. Séu þau t.d. á öndverðum meiði um eitthvert mál og ég svo á öndverðum meiði við þau. Ég hafi kannski tekið einhverja ákvörðun sem þau mótmæli, en án þess að leggja fram gilda ástæðu fyrir mótmælum sínum önnur en það að þau bara langi. Þá er gott að eiga hin ávallt óhrekjanlegu rök í bakhöndinni. Rök sem alltaf má grípa til er allt annað brestur.
Af því bara."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.