Dyntir og dólgar

Góðri helgi lokið. Mér tókst að drösla krökkunum og þau mér, út í bíl í tæka tíð í morgun rétt fyrir kl. átta. Bíllinn gerði sig hinsvegar líklegan til að vera með leiðindi. Sagðist ekki ætla í gang. Hann er annars frekar skapgóður greyið. Hann hefur einu sinni áður reynt að leika þennan leik við mig, en það var í ágústbyrjun 2006. Þá rann honum fljótt reiðin, eða hvaða dyntir sem hlupu í hann þá. Eftir nokkrar mínútur þíddist hann mig og fór í gang. Hefur hagað sér vel síðan. Þar til í morgun. Líklega var hann bara ekki fullvaknaður, frekar en ég. Eftir að hafa gert þrjár tilraunir til að ræsa hann og farið oní húddið, með spekingssvipinn að vopni, settist ég inn í hann aftur og tók upp símann. Ég hringdi í skóla barnanna og tilkynnti að þeim myndi seinka. Að loknu símtalinu fór bíllinn í gang eins og skot. Hann er stríðinn, blessaður.

Eftir að hafa komið afkvæmunum á sinn stað ók ég sem leið lá til baka og í vinnuna. Þar sem ég keyrði Reykjanesbrautina rétt fyrir hálf níu á mínum löglega 70Km hraða, í suður undir brúna við Breiðholtsbraut, renndi ég mér yfir á vinstri akrein til að hleypa strollunni sem ég sá koma niður brekkuna, af Breiðholtsbraut. Um að gera að liðka til og láta umferðina ganga smurt, ekki satt? Síðan fylgdist ég með hvar ég geti skotið mér aftur í eitthvert bilið, inn á hægri akrein aftur. Sá færi á að skjóta mér aftan við einn, gráan bíl. Sá engan fyrir aftan. Gaf stefnuljós og gerði mig líklegan til að renna mér yfir á hægri akrein. Sá þá hvar kom á fullri ferð, talsvert hraðar en ég, svartur smábíll merktur Pepsi Max í bak og fyrir. Ég hrökklaðist til baka og beið eftir að njólinn sá arna tempraði hraðann, enda var hann algerlega á leið inn í gráa bílinn sem ég hafði ætlað mér að smeygja mér aftan við. Ég jók í stað ferðina og tók fram úr þeim gráa. Ég fylgdist með í speglunum og sá að svarti Pepsi bíllinn var kominn í rassgatið á mér og var greinilega að sæta færis á að komast fram úr. Eftir að ég hafði farið fram úr þeim gráa, renndi ég mér yfir á hægri akrein. Sá ég þá hvar svarti Pepsi bíllinn æðir fram úr mér og annar nákvæmlega eins bíll strax á eftir, nema hvað sá var kyrfilega merktur Doritos. Ég sá síðan á eftir þeim hverfa sitt á hvað milli bíla, þar sem þeir skíðuðu áfram á milli akreina. Þeir hafa líklega verið í spreng og þurft að komast á klóið. Hvað sem því líður er svona fólk ekkert annað en umferðardólgar og ættu ekki einu sinni að fá að hjóla þríhjólum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband