Fimmtudagur, 17. júlí 2008
Neytendablæti
LoXins er sumarfríið hafið og föðurbetrungarnir komnir í föðurhús. Já og Bóbóhús. Sótti þau um hádegið og svo fórum við á búðaráp.
Það er einn réttur í uppháhaldi okkar allra. Pasta með Carbonara sósu. Ég nenni þó sjaldan að gera ekta sósu, með ekta Parmesan og öllu hinu júmmúlaðinu. Það er svo þægilegt að geta græjað pakkasósu á nokkrum mínútum. Þó ekki hvaða sósu sem er. Ó nei. Það er einungis ein sem kemur til greina. Sósan frá Toro. Nei, þetta er ekki auglýsing. Þetta eru meðmæli. Aðrar sósur þykja mér ýmist vera bragðdaufar eða hreinlega vondar á bragðið, eins og sú sem víðast virðist fást og bragðast sem viðbrennd. Þar sem það er gæðavottun fyrir verslun að hafa til sölu Carbonara frá Toro beini ég viðskiptum mínum þangað. Eins skrýtið og það er er leitun að verslunum sem selja þessa sósu, meðan viðbrennda sósan fæst alls staðar. Svo er alltaf að breytast hvaða verslanir það eru sem selja hana. Eitt sinn fékkst hún alls staðar. Síðan bara í Hagkaupum. Því næst bara í Hagkaupum í Kringlunni. Síðan bara í Skeifunni. Síðan ekki í Hagkaup, heldur í Bónusi. Úff. Ekki lengur í Bónusi í Skeifunni heldur í Kringlunni. Því hef ég það fyrir reglu að byrgja mig vel upp þegar ég kaupi Carbonara. Maður veit aldrei hvenær hún hættir allt í einu að fást og maður þarf að hefja leitina á ný.
Eins og áður sagði, fórum við að versla í dag. Vitanlega var meðal annars farið í Bónus í Kringlunni.
Ég tel mig sæmilega meðvitaðan neytanda, en ég er enginn neytendamála- eða verðlagsfíkill. Er þó skráður félagi Neytendasamtakanna. Ég er ekki sérlega duglegur að fylgjast með verðhækkunum milli daga og vikna, en ég spái í kílóverðið og hlutum eins og hvort skinkan er að tólf eða þrjátíu hundraðshlutum vatn. Afleiðing af þessari neytendavitund minni er að ég tek eftir verðmerkingunum og hvort þær vanti. Ein regla hjá mér er að óverðmerkt vara fer ekki í innkaupakerruna.
Allur gangur er á hvernig verslanir standa sig í verðmerkingum. Sumar standa sig almennt vel. Vil ég þar nefna Hagkaup. 10-11 finnst mér mætti bæta sig. Allt of mikið um að merkingar vanti, eða séu beinlínis rangar. Kjöthakkið kallað kjúklingur og sultan kölluð hveiti. Bónus, a.m.k. í Kringlunni, notast við rafrænar merkingar. Það tryggir hvorki að merkingar vanti ekki né þær séu við rétta vöru. Þær tryggja þó að verðið er 'öpp tú deit'. Mér finnast merkingamál Bónuss í Kringlunni vera almennt í lagi. Einu tók ég þó eftir. Sum verðspjöldin sneru á hvolfi. Mér er óskiljanlegt hvernig það getur gerst, þar sem greinileg gul rönd er á spjöldunum neðanverðum og því augljóst hvort þau snúi rétt eður ei. Kaldhæðnislegt líka að fyrir vikið virðist verðið hærra, séð á hvolfi.
Ég smellti af þremur myndum. Hefði ég myndað öll skiltin sem sneru á hvolfi, hefðu myndirnar orðið miklu fleiri.
Nú er hagsýna húsmóðirin á leið fram í eldhús og að eldavélinni. Þar sem hennar staður vitanlega er.
Er semsagt farinn að elda. Ave
Athugasemdir
Já ég er sammála með þetta allt saman! Þú ert náttla snillingur...
Ég mæli með nýja pizzu deiginu sem fæst í Krónunni. Þetta er svona rúllað í pakkningu og maður opnar, dreifir úr deiginu og skellur á smá sósu og ost, alveg nammi nammi!
Hafðu það endalaust gott í sumarfríinu ;)
ernasoffia (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 19:19
heja heja!
verð að tékka á þessu deigi. alveg búinn að glata kunnáttunni við að fletja út pizzadeig.
Brjánn Guðjónsson, 17.7.2008 kl. 20:18
Hljóp í eldhússkápinn og... æ, æ, mín Carbonara-sósa er frá Knorr. Prófa Toro næst, lofa því!
Lára Hanna Einarsdóttir, 17.7.2008 kl. 23:10
já, fyndið að snúa þessu svona....kannski vinnur herra hvolfi þarna...
amm, Toro sammó!!
alva (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 03:17
Brjánn: Þú ert krútt.
Jenný Anna Baldursdóttir, 18.7.2008 kl. 06:52
Þið eruð krútt!
Hmmm Toro Carbonara, geri alltaf alvöru og það tekur enga stund! Er lika í miklu uppáhaldi hjá einkasyninum :)
kveðja á neytendavaktina :) Svona merkingar hefðu nú ekki þótt góðar í kaupfélaginu í denn þar sem ég hóf minn starfsferil vopnuð merkibyssu og alles :)
Ofurskutlukveðja
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 08:45
Þess má nú geta að bónus ræður næstum eingöngu fólk undir lögaldri, borgar lágmarkslaun og það er víst martröð að fá launahækkun þar, get talið upp nokkur andstyggileg dæmi varðandi bónus.
Ef þú værir táningur að vinna í bónus með skítalaun... væri þér ekki skítsama hvernig verðmerkingarnar snéru? ;)
Davíð S. Sigurðsson, 18.7.2008 kl. 15:05
það er rétt Ofurskutla að ekta Carbonara er auðvitað best. Toro er samt ótrúlega góð af pakkasósu að vera.
krúttkveðjur meðteknar og endurgoldnar með vöxtum.
Brjánn Guðjónsson, 18.7.2008 kl. 18:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.