Þriðjudagur, 12. maí 2009
Ríkisstjórn allra landsmanna
Mér þykir sniðugt tiltæki ríkisstjórnarinnar að halda fund á Akureyri. Ég vona að í framtíðinni verði fleiri ríkisstjórnarfundir haldnir vítt og breytt um landið. Þá ekki bara á höfuðstöðunum; Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Selfossi, heldur ekki síður á minni stöðum eins og; Trékyllisvík, Þorlákshöfn og Rifi.
Sumir eru þó ósáttir.
Sumir argaþrasast yfir því hvurslags bruðl sé hér á ferð, af ríkisstjórn sem segist ætla að draga úr ferðalögum.
Í mínum huga flokkast skreppitúr norður á Akureyri tæplega undir hugtakið ferðalag, í þeim skilningi. Ekki frekar en bílferð frá Reykjavík suður í Hafnarfjörð sem er jú ferðalag, strangt til orða tekið. Í mínum huga er ferðalag nokkurra daga ferð til útlanda, með tilheyrandi hótela- og dagpeningakostnaði. Já, tökum mengunina með, fyrst hún var nefnd einhversstaðar. Hve miklu meira mengar Boeing 757 þota á þremur til fjórum tímum en Fokker litli á fjörutíu til fimmtíu mínútum?
Hver ætli sé svo kostnaðurinn við þetta Akureyrarævintýr ráðherranna? Þeir lögðu af stað í morgun. Héldu fund um hádegið og hvað? Fóru aftur heim seinni partinn? Hve mikið kostar það í dagpeningum? Ég þekki ekki reglurnar en mig minnir að það sé bundið við fjölda sólarhringa. Leiðréttið mig fari ég með rangt mál. Að því gefnu að svo sé, fær ekkert þeirra dagpeninga fyrir téða ferð.
En fráhvarfseinkennin eru greinileg í liði Sjálfstæðismanna. Fráhvarf frá argaþrasi og málþófi.
Þeir eru rökþrota, þrasþrota og þófþrota, en þau verða seint fjasþrota.
Yfirlýsing ómarktæk á fyrsta degi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ríkistjórnin er eins og spói sem ég þekkti þegar ég var lítill drengur. Alltaf þegar ég var að reka kýrnar og nálgaðist hreiðrið stökk spóinn af hreiðrinu og skreið í burtu og hélt að ég mundi ekki finna hreiðrið. Þannig hélt hann að hann gæti blekkt mig.
Ríkisstjórninni er mikið í mun að fólkið masi um þennan fund en sé ekki að velta vöngum yfir ástandinu. Svo ef það verða einhver læti í borginni (pottar og pönnur) þá er komið fordæmið og hægt að skreppa til Trékyllisvíkur og funda þar í ró og næði.
Þorsteinn H. Gunnarsson, 12.5.2009 kl. 20:06
þeir eiga víst hvorki potta né pönnur úti á landi. bara aska og kirnur.
Brjánn Guðjónsson, 12.5.2009 kl. 20:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.