Föstudagur, 15. maí 2009
Þingforsætur
Segja má að dagurinn á þinginu hafi verið dagur formsatriðanna.
Þó fannst mér gaman að frétta að nokkrir þingmenn kusu heldur að minnast þinglegs uppruna síns, á Austurvelli, en að sitja undir messu sjálfskipaðra umboðsmanna almættisins. Smá uppbrot á forminu og mjög til bóta.
Annað formsuppbrot átti sér stað innan veggja Alþingis. Konurnar komu sáu og sigruðu, þegar kosið var í embætti forseta og varaforseta þingsins. Veit ekki hvort þetta teljist brot á jafnréttislögum, að setja karlagreyin út í kuldann, en mér er slétt sama. Alveg tímabært að gefa körlunum frí þarna. Þarna eru konur úr öllum flokkum nema Borgarahreyfingunni. Ég hefði gjarnan viljað sjá skörunga eins og Birgittu eða Margréti þarna á meðal, en líklega voru ekki nógu mörg varaforsetapláss til úthlutunar. Borgarahreyfingin er víst minnsti þinghópurinn. Eins hugsa ég að Borgarahreyfingin hafi engar sérstakar ambísjónir til að fá slík embætti. Þingmenn hreyfingarinnar eru sannir sínum yfirlýsta tilgangi, að vinna að sínum stefnumálum.
Eins fannst mér gaman að frétta að af þeim 59 þingmönnum sem atkvæði greiddu, kusu allir Ástu Ragnheiði. Ekki engilega af því mér finnist hún svo fín og frábær. Hún er samt ágæt. Nei, heldur fannst mér gaman að sjá að sandkassaleikurinn sem fór fram við seinustu þingforsetaskipti, í febrúar, skyldi ekki endurtaka sig.
Mér finnst eins og nýjir og ferskir vindar hafi nú þegar náð að næða um hið gamla þinghús og það er ekki fjórflokknum að þakka. Svo mikið er víst. Mér finnst eins og vindarnir hafi meira að segja náð að gusta um þá. Meira að segja Sjálfstæðisflokkinn og þá er mikið sagt.
Skulum samt ekki alveg missa okkur í fögnuðinum strax.
Allir þingforsetar konur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.