Sunnudagur, 24. maí 2009
Fullvaxta komment um vaxtaruglið
Póstaði þessu sem athugasemd en ákvað síðan að henda þessu inn hér, með lagfæringum og viðbótum. Skondið að í morgun, hlustandi á útvarpsþátt, varð mér hugsað um einmitt þessi mál. Vaxtaruglið.
Í siðmenntuðum löndum skrúfa menn vexti niður úr öllu til að hvetja til aukinnar neyslu og efla þar með markaðinn og atvinnulífið.
Hér halda menn háu vaxtastigi til að koma í veg fyrir útstreymi fjármagns frá landinu. Verja gengi krónunnar.
En halló! Hér eru gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir það útsreymi. Það þarf varla vaxtaþumalskrúfuna líka?
Í hinu verðtryggða umhverfi hafa háir vextir hinsvegar áhrif þrefalds kyrkingataks á bæði heimili og fyrirtæki.
Beinu áhrif vaxtanna á lán þrengja að heimilum og fyrirtækjum, í formi aukinnar greiðslubyrðar lána og þar með minni kaupmáttar. Eins valda þeir hærra vöruverði, því vitanlega velta fyrirtækin auknum fjármagnskostnaði beint út í verðlagið, sem hækkar vöruverð. Því er það tvennt sem minnkar kaupmáttinn beint, rétt eins og annars staðar.
Óbeinu áhrifin er þau, að fyrir tilstillitilstilli verðtryggingarinnar leiðir hækkandi verðlag, sem afleiðing aukins fjármagnskostnaðar, til hækkunar verðbólgu, sem aftur hækkar lánin, sem aftur hafa áhrif á verðlagið, sem aftur hefur áhrif á verðbólguna, sem aftur hefur áhrif á lánin, sem aftur hefa áhrif á verðlagið, sem aftur...
Tóm tjara!
Í rafeindafræðunum kallast þetta positive feedback. Það er ástand sem eflir sjálft sig út í hið óendanlega og endar ekki vel. Endar með að rásin fer í mettun og verður óstarfhæf. Í rafeindarásum, svo sem magnararásum, þarf negative feedback þar sem hluti útgangsmerkis er settur aftur inn á inngang, í mótfasa (upphefur inngangsmerkið að hluta). Þetta er gert til að halda rásinni í jafnvægi. Rafeindafræðin eru ekki flókin. Þau byggja á lögmálum eðlisfræðinnar. Þótt hagfræðin séu kannski meira fuzzy logic, hljóta samt að gilda þar reglur um jafnvægi.
Eina ástæðan fyrir að verðbólgan er ekki meiri en hún er nú, er að fólk hefur varla efni á öðru en að borga lánin og kannski að kaupa sér smá kjötfars, on the side. Því laun hafa lækkað. Ekki bara að raunvirði, heldur að nafnvirði. Væri ekki svo ríkti hér óðaverðbólga. Fólk hefur einfaldlega ekki efni á neyslu. Svo ég líki aftur við rafeindafræðin. Styrkur inngangsmerkisins fer sífellt dvínandi og því nær rásin ekki mettun.
Hér stefnir allt í stöðnun. Stöðnun sem kallast verðhjöðnum.
Erlendis lækka menn vexti niður úr öllu einmitt til að koma í veg fyrir hana því heilbrigð hagkerfi þarfnast rennsli fjármagns og einhverrar, en þó lágrar, verðbólgu.
Það þarf engin doktorspróf til að sjá þetta.
Ísland er á leið í mettun og þegar það gerist þarf að endurræsa.
Kannski væri réttast að skikka spekingana í grunnkúrsa í rafeindafræðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.