Hugleiðingar um verðtryggingu

Árið 1979 voru sett lög um verðtryggingu. Svokölluð Ólafslög. Kennd við Óla Jó.

Í fyrstu voru lögin kannski ekki svo óréttlát, þar sem laun voru jafnframt verðtryggð. Síðan, árið 1983 ef ég man rétt, var verðtrygging launa afnumin. Í óðaverðbólgu þess tíma setti verðbólgan marga á kaldan klaka. Þar sem verðtrygging launa var ekki fyrir hendi lengur hrapaði kaupmáttur og lánin bólgnuðu og bólgnuðu.

Svo hjaðnaði verðbólgan og fólk hætti að hugsa um verðtrygginguna. Lífið mallaði áfram og fólk fann sér annað að fjasa yfir.

Svo rann upp árið 2008.

Gengi krónunnar hrapaði, reglulega ársfjórðungslega. Tilviljun? Afleiðingin sú að innfluttar vörur snarhækkuðu í verði og hækkuðu þar með vísitölu neysluverðs, sem lögð er til grundvallar verðtryggingar. Á sama tíma fór húsnæðisverð að lækka og hefur farið lækkandi síðan, samhliða því að verðbólgan hefur dafnað vel.

Síðan í júlí 2007 til júlí 2009 hefur vísitala neysluverðs hækkað úr 272,4 stigum upp í 339,8 stig. Það er hækkun upp á rétt tæp 25%.

Flest verðtryggð lán, td. hjá Íbúðalánasjóði (ÍLS), eru jafngreiðslulán. Það þýðir að greidd er að jafnaði sama upphæð (verðtryggð) í hvert sinn. Það þýðir að framan af lánstímanum er fólk aðallega að greiða vexti, sem eru hærra hlutfall af greiðslunni en sjálf afborgunin af höfuðstólnum. Því lækkar höfuðstóllinn lítið sem ekkert á fyrri hluta lánstímans. Í verðbólgu þeirri sem nú ríkir hækkar höfuðstóllinn hratt.

Eins og ég hef áður nefnt, á verðtryggingin að tryggja að lánveitandinn fái til baka, á endanum, sama verðgildi þeirrar upphæðar sem lánuð var. Hins vegar miðast verðtryggingin að mestum hluta við almennar neysluvörur. Þeas. þegar ilmvötn og bananar hækka, hækka húsnæðislánin. Þrátt fyrir að húsnæði hafi lítið ef eitthvað með banana að gera. Væri miðað við vísitölu húsnæðisverðs væri tryggt að lánveitandinn fengi til baka verðgildi þess sem hann lánaði til húsnæðiskaupanna. Láni hann 80% af verðgildinu árið 2007 fengi hann andvirði 80% árið 2047. Hvorki banönum, ilmvötnum né kvenstígvélum blandað í málið.

Ég tek dæmi.

Jón keypti sér íbúð á 20.000.000 í júlí 2007. Hann átti 4.000.000 sjálfur, sem hann hafði safnað á nokkrum árum og fékk lán hjá ÍLS up á 16.000.000. Í upphafi greiddi hann um 80.000 á mánuði, en eftir að verðbólgan jókst hefur upphæðin farið upp í 90.000. Til einföldunar skulum við áætla að hann hafi að jafnaði greitt 85.000 á mánuði (sem er líklega vanreiknað). 24 * 85.000 = 2.040.000. Hann hefur semsagt greitt ca. 2.040.000, sem eru mestmegnis vextir. Á sama tíma hefur höfuðstóll lánsins hækkað úr 16.000.000 í rúmar 20.000.000.

Að því gefnu að andvirði íbúðar hans hafi ekki breyst hefur lántakinn eignast allar fjórar milljónirnar hans. Líklega hefur þó andvirði íbúðarinnar lækkað um ca 11%. Vísitala húsnæðisverðs hefur lækkað á sama tíma úr 351 stigi í 311,7 stig. Jón hefur því á tveimur árum tapað eign sinni til lánveitandans, sem uppi stendur alsæll með sín axlabönd og belti, kút og kork.

Verðtryggingin, eins og hún er útfærð (verð á ilmvötnum og banönum), gerir því að verkum að lánveitandinn eignast húsnæðið sem lántakandinn fékk lán fyrir. Fyrr eða síðar. Lántakandinn hefur belti, axlabönd, kút og kork.

Hver er glóran í svona kerfi? Engin.

Fái ég lánaða bjórkippu hjá félaga mínum ber mér að borga í sama. Borga honum kippuna til baka. Sama hvað hún kostar. Því er eðlilegt að verðtrygging þess láns sé miðuð við verð bjórsins sem lánaður var, en ekki við heimsmarkaðsverð á blóðmör. Eins er eðlilegt að sá sem lánaði Jóni fyrir 80%  húsnæðis hans fái greitt í sama. Hann fái greitt andvirði 80% af húsnæðinu. No more. No less. Ekkert slátur.

Önnur lán eru þau (ólöglega) gjaldeyristryggðu. Þau hafa þó þann eiginleika að ef hið ótrúlega gerðist, að krónan styrktist lækkar höfuðstóll þeirra. Það á ekki við um verðtryggð lán. Verðtryggingin er nefnilega eins og einstreymisloki. Hún hækkar bara lánin, en lækkar þau ekki. Ekki nema til komi verðhjöðnum og fyrr á ég eftir að sjá ýmislegt áður en það gerist hér.

 

Um daginn var ráðherrann, Árni Páll, í viðtali Sjónvarpsins og sagði að „enginn mannlegur máttur“ gæti lækkað skuldir heimilanna. Þrátt fyrir að verðtryggingin sé verk mannanna. Nema Óli Jó hafi verið guðleg vera.

Geti menn komið á verðtryggingu geta þeir afnumið hana.
Það er ekki flóknara en það.

Það er í mannlegum mætti.

Það er ekki spurning um getu, heldur einungis um vilja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband