Laugardagur, 26. september 2009
Ég ætla að bíða með fagnaðarlætin
Þar til ég hef fengið að sjá í hverju aðgerðir stjórnvalda til stuðnings skuldugum heimilum felast og þá ekki síst að hafa lesið smá letrið.
Í frétt Vísis segir; Samkvæmt heimildum fréttastofunnar verður greiðslubyrði allra húsnæðis - og bílalána, hvort sem þau eru verðtryggð eða gengistryggð færð að því sem hún var tiltekinn dag áður en bankarnir og gengi krónunnar hrundu. Það sem eftir standi að lánstíma liðnum verði síðan afskrifað.
Í fyrstu virðist manni sem færa eigi lánin niður eins og sumir hafa krafist. Miða þá gjarnan við dagsetninguna 1. 1. 2008.
Hins vegar segja heimildir Vísis að greiðslubyrðin ein verði lækkuð, en höfuðstóllinn ekki. Annars væri ekkert til að afskrifa að lánstíma loknum.
Aðgerðirnar munu því einungis létta greiðslubyrðina en ekki létta á skuldum fólks. Fólk mun því áfram vera í stofufangelsi á eigin heimilum.
Þótt létt verði á afborgunum stendur höfuðstóllinn óbreyttur og vex sem hraðar en ella, því vitanlega verður sá ógreiddi hluti afborgananna sem að óbreyttu væri greiddur, leggjast ofan á höfuðstólinn.
Án þess ég hafi engar tölur er það mín tilfinning að fólk í yngri kantinum, segjum undir 55 ára aldri, muni aldrei greiða allar afborganir lána sinna. Þ.e. það fólk mun skipta um húsnæði áður en lánstíminn er allur. Óvíst er hvort það fólk muni fá að flytja lánin með sér. Í mörgum tilfellum yrði fólk að greiða lánin upp og taka ný lán. Mér þykir reyndar líklegra að það fólk muni ekki fá að flytja lán sín heldur þurfa að greiða lánin upp því þá þarf að greiða allt upp í topp og lánveitendur þurfa ekkert að afskrifa.
Því tel ég umræddar aðgerðir, miðað við heimildir Vísis, engu breyta nema fyrir þann hóp fólks þar sem börnin eru flogin úr hreiðrinu og fólk mun búa í núverandi húsnæði til dauðadags.
Greiðslubyrði aftur fyrir hrun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:27 | Facebook
Athugasemdir
Jamm spurning hvort innistæða sé til fyrir þessar aðgerðir.
Segi eins og þú Brjánn, á eftir að sjá þetta....
hilmar jónsson, 26.9.2009 kl. 21:16
Góður pistill
Dúa, 26.9.2009 kl. 22:04
Nú ef þetta er rétt kenning hjá þér, þá verður greiðsluverkfallið bara að veruleika.
Axel Pétur Axelsson, 26.9.2009 kl. 23:48
Ég segi eins og Dúa, góður pistill.
Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá þessa frétt voru föstudagsblaðamannafundir Geirs og Sollu. Þeir voru haldnir MJÖG síðdegis á föstudögum - of síðdegis til að blaða- og fréttamenn gætu sannreynt eða kannað það sem þau sögðu. Sem venjulega var eitthvað til að sefa múginn - til að hann mætti ekki á mótmælafundina á laugardögum.
Þegar þessi smjörklípuaðferð þeirra komst á allra varir hættu fundirnir.
Nú er í bígerð greiðsluverkfall Hagsmunasamtaka heimilanna sem ég verð æ skotnari í. Ef margir taka þátt í því gætu bankarnir skaðast verulega. Og þá kemur þessi frétt.
Er þetta marklaus smjörklípa? Maður spyr sig...
Lára Hanna Einarsdóttir, 27.9.2009 kl. 01:08
ég ætla að taka þátt eftir efnum. ætla að mæta í bankann 1. okt. og taka út innistæðuna.
Brjánn Guðjónsson, 27.9.2009 kl. 02:26
Fínn pistill. EF þetta stenst þá kem ég kannski til með að halda húskofanum. Það er bara þetta stóra EF. Kveðja.
Þráinn Jökull Elísson, 27.9.2009 kl. 17:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.